22.05.2007 08:20

Æskan og hesturinn 17. maí



Búið var að halda nokkrar æfingar á Hvammstanga áður en farið var á Sauðárkrók, í ýmsum veðrum og sjaldnast góðu. Búningar voru saumaðir af mæðrum og ömmum og mátaðir á Höfðabakka á mánudeginum fyrir sýningu. Farið var seinni part miðvikudags á Sauðárkrók, 25 börn og unglingar, slatti af foreldrum, ömmum og systkinum. Mæður og ömmur bökuðu bakkelsi fyrir ferðina og stóðu sig einnig eins og hetjur í elduhúsinu og í því að láta hópinn nærast á milli æfinga og sýninga. Fengum gistingu og aðstöðu í Tjarnarbæ fyrir mannskapinn og hestarnir fengu inni í nálægum hesthúsum. Sem var alveg frábært því þá voru allir á sama stað og hægt að hafa röð og reglu á hlutunum.


Æfing var haldin á miðvikudagskvöldi þegar mætt var norður bæði hjá eldri og yngri hóp. Og gekk hún alveg ljómandi vel. Haldið var inn í hús eftir æfingu og étnar pizzur. Gekk vel að koma bæði börnum og foreldrum í svefninn eftir allt pizzuátið. Vaknað var snemma morguns og borðaður sameiginlegur morgunverður.


Generalprufa var svo um morguninn kl. 10 og svo tvær sýningar yfir daginn kl. 13 og kl. 17. Tókust þær mjög vel og megum við vera stolt af okkar börnum, því þau voru til fyrirmyndar.


Viljum við þakka öllum aðstandendum barnanna fyrir frábæra þátttöku í þessari sýningu. Þetta hefði aldrei tekist nema með ykkar hjálp. Einnig þökkum við Sparisjóði Húnaþings og Stranda fyrir rausnalegan styrk í tengslum við þessa ferð.


Kærar þakkir fyrir


Æskulýðsnefnd Þyts


Alla, Gunni og Sirrý

Flettingar í dag: 156
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 548
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 964942
Samtals gestir: 50512
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 08:04:01