02.10.2008 08:40

Víðidalstungurétt á laugardaginn

Laugardaginn 4.október nk.verður stóði Víðdælinga réttað í Víðidalstungurétt sem stendur í landi  Litlu-Ásgeirsár.

Hrossunum er smalað föstudaginn 3.október og rekin til byggða.
Á laugardagsmorgun 4.október  kl 10.00 eru hrossin svo rekin til réttar og réttarstörf hefjast.
Búast má við því að hrossin séu um 500 auk folalda, og hafa Víðdælingar  löngum viljað meina að um stærstu stóðréttir landsins sé að ræða, ekki hvað fólksfjölda snertir heldur fjölda hrossa, en með auknum áhuga fólks á hrossarækt og hestamennsku hefur verið sívaxandi fjöldi gesta sem vilja  taka þátt í þessari hátíð hrossabænda,bæði í smöluninni og réttinni.

Boðið er uppá að fá að fara ríðandi fram í löndin sem smöluð eru, þyggja þar veitingar og fylgja svo gangnamönnum og stóðinu til byggða.
Upplýsingar hjá ferðaþjónustuaðilum héraðsins.

Dagskrá réttardagsins er eftirfarandi.
Kl. 10:00 Stóðið rekið til réttar og réttarstörf hefjast.
Kl. 13:00 Sölusýning við réttina. Eftir sýningu verða hrossin til sýnis og prufu við hesthúsið á Stóru-Ásgeirsá.
Kl.14:30 Uppboð á völdum hrossum. M.a. verður boðið upp merfolald undan Hóf frá Varmalæk og Kilju frá Steinnesi.
Kl. 15:00 Dregið í happdrættinu. Aðalvinningurinn er folald.

Við réttina er kvenfélag sveitarinnar með veitingar og hefð hefur skapast fyrir því að þeir sem versla veitingar taki með því þátt í happdrætti, þar sem m.a. hefur verið folald í vinning.

Loka hnykkur hátíðarinnar er svo Stóðréttardansleikurinn sem haldinn er í Félagsheimilinu Víðihlíð á laugardagskvöldið og þar mun Hljómsveitin Sixties leika fyrir dansi frá kl 23:00 til 03:00.

Allir þeir sem gaman hafa af hrossarækt,hestamennsku, hitta hrossabændur og taka þátt í störfum og gleði þeirra eiga fullt erindi í stóðréttir í Víðidal. 

Verið velkomin.
Flettingar í dag: 1001
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 2561
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 938890
Samtals gestir: 49514
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:14:40