06.11.2008 20:37

Samþykktar tillögur á LH þingi

Knapar í úrslitakeppni í A flokki þurfa framvegis að vanda sig meira á brokki en hingað til. Samþykkt var tillaga keppnisnefndar LH sem felur í sér breytingar á reglum þar að lútandi. Tillagan er byggð á tillögu frá Fáki sama efnis.

Hvatinn að tillögunni er sá að fram til þessa hefur dugað að sýna tvær heilar langhliðar á brokki, af þeim fjórum hringjum sem að jafnaði eru riðnir, til að hljóta fullnaðareinkunn. Brokksýningar í úrslitum í A flokki hafa oft á tíðum verið mjög óöruggar, jafnvel í B flokki líka. Útlendingar á LM2008 voru til að mynda mjög hissa að sjá hesta í gæðingakeppni sem brokkuðu lítið fá hærri einkunnir en þeir sem brokkuðu af öryggi. Með breytingunni er reglan um brokk skilgreind á sama hátt og tölt. Setningin um að tvær langhliðar dugi er felld út. Gangöryggi er þar með orðið hluti af mati dómara á gangtegundinni.

Önnur breyting sem samþykkt var á þinginu er að Íslandsmót fullorðinna verði einn flokkur.
Keppt verður í einum flokki á Íslandsmóti fullorðinna á næsta ári, og væntanlega framvegis. Tillaga Léttis þess efnis var samþykkt á 56. landsþingi LH. Einnig var samþykkt að keppnisnefnd LH ákveði lágmörk í keppnisgreinum.

Til að koma þessum breytingum í gegn þurfti að gera breytingu á reglugerð 5.2 fyrir Íslandsmót. Var sú breytingartillaga samþykkt. Hún er svohljóðandi:

"Á Íslandsmóti fullorðinna skal keppt í einum styrkleikaflokki. Á Íslandsmóti skal keppt í þeim greinum hestíþrótta sem skilgreindar eru eru í kafla 8 til 8.8 í alþjóðlegum keppnisreglum LH Íslandsmóti skal skipt upp í mót fullorðinna annars vegar og barna unglinga og ungmenna hins vegar. Á Íslandsmóti barna unglinga og ungmenna skal keppt í keppnisreglum þeim sem skilgreindar eru í hverjum aldursflokki. Heimilt er að veita undanþágu til þess að halda mótin saman, sé þess ekki nokkur kostur að halda þau í sitt hvoru lagi.

Einungis þeir sem náð hafa tiltekinni lágmarkseinkunn (lágmarkstíma í skeiðgreinum) hafa rétt til þátttöku. Keppnisnefnd verði falið að ákveða lágmörk á hverju ári í febrúar, en það verði ekki bundið í lögum, til þess að hægt verði að bregðast við of mikilli/lítilli þátttöku með því að hækka/lækka lágmörk. Þess verði gætt í upphafi að lágmörk verði ekki of ströng. Árangur frá árinu áður telst fullgildur."

Af vef LH

Flettingar í dag: 2457
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 2561
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 940346
Samtals gestir: 49515
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 16:13:43