05.12.2008 00:22

Viðtal við BessastaðahjóninÞá er komið að viðtalinu, næstu viðmælendur mínir eru hjónin Guðný og Jói á Bessastöðum. Ég las á heimasíðu hjónanna að búið er nú rekið af fjórða ættlið frá hjónunum Birni Jónssyni og Kristínu Bjarnadóttur, en það er Guðný sem tók við rekstri búsins árið 1995 ásamt manni sínum Jóhanni Birgi Magnússyni frá Kúskerpi í Skagafirði. Þannig að Bessastaðabúið er búið að vera lengi rekið af sömu fjölskyldunni eða frá árinu 1900. Í dag er þar rekið kúabú og stunduð hrossarækt og skógrækt. Ég spurði Bessastaðabændur nokkurra spurninga um hrossaræktina.

 

Hvað verða mörg hross á járnum í vetur hjá ykkur? Eru það allt hross sem þið eigið eða takið þið í tamningu?
Það verða 18 hross á járnum í vetur og eigum við helminginn af þeim. Fastir kúnnar sem við erum með hross fyrir eiga hin hrossin, þau eru frá Þóreyjarnúpi, Syðsta-Ósi, Vatni og Seljabrekku. Við setjum upplýsingar um öll hrossin sem við erum með á heimasíðuna okkar, www.bessastadir.is.

Af ykkar hrossum, hvaða hrossum eru þið spenntust yfir að temja? Þau eru öll býsna spennandi, en mest spennt erum við yfir Byltingu á 4. v., undan Millu frá Árgerði og Trú frá Auðsholtshjáleigu.  Einnig er spennandi Fregn 5 v. undan Gyðju Otursdóttur og Huginn frá Haga. Svo eigum við bróður Byltingar undan Krafti frá Bringu, 5 v. sem er spennandi.

Eru allir fjölskyldumeðlimir jafn áhugasamir í hestamennskunni? Hestamennskan á sýnar hæðir og lægðir innan fjölskyldunnar, en að meðaltali er áhuginn mikill. Jói er eini karlpeningurinn sem er verulega áhugasamur í hestamennskunni, en áhuginn hjá kvenpeningnum er býsna jafn.

Undan hvaða stóðhestum eignuðust þið folöld síðastliðið vor? Hryssu undan Andvara frá Ey, hest undan Stimpli frá Vatni, hryssu undan Krafti frá Efri-Þverá, hryssu undan Gretti frá Grafarkoti.

Undan hvaða stóðhestum eignist þið folöld á næsta ári? Ómi frá Kvistum, Álfi frá Selfossi, Ágústínusi frá Melaleiti.

Eru þið búin að selja mörg hross á árinu? Allt sem var til sölu seldist og rúmlega það. Við höfum svo haft nokkra milligöngu með sölu á hrossum.

Teljið þið að það hafi áhrif á íslenska hrossarækt hvað það seljast margir stóðhestar til Danmerkur þessa dagana? Stærstu áhrifin er auðvitað þau að þetta skapar tekjur inn í greinina. Þessir hestar hefðu örugglega ekki verið til sölu ef eigendunum hefði fundist notkun þeirra viðunandi hér heima. Eigendurnir hafa þannig ekki séð nógu mikinn rekstrarhagnað í þeim til að eiga þá, m.v. verðið sem þeim bauðst fyrir þá. Þetta hafa því ekki verið nógu góðir hestar til að halda þeim í landinu. Að okkar mati eru þeir nógu góðir, en þeir voru ekki að njóta vinsælda. Um leið og svona góð hross koma á erlenda grund og fólk kynnist gæðunum, eykst eftirspurnin eftir góðum hrossum. Við höfum reynslu af því að erlendir hestamenn vilja hross fædd á Íslandi. Belgískur vinur okkar, sálfræðingur og hestamaður, segir að frelsið í augum íslensku hrossanna sé það sama og frelsið í augum íslensku stúlknanna, sem geri hvort tveggja eftirsóknarvert.  

Að lokum viljum við taka fram að það er mjög mikið hagsmunamál fyrir íslenska hrossarækt að unnt sé að koma í veg fyrir að hross fædd á Íslandi veikist af exemi þegar þau koma á erlenda grund.Fleiri myndir frá Bessastöðum má sjá hér.

Flettingar í dag: 247
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 561
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 3695227
Samtals gestir: 447656
Tölur uppfærðar: 10.12.2019 09:34:02