20.02.2009 08:07

Hýruspor

Félag um hestatengda þjónusta á Norðurlandi vestra.

Nýlega voru stofnuð samtök um hestatengda þjónustu á Norðurlandi vestra. Hafa samtökin hlotið nafnið Hýruspor. Markmið samtakana er að fjölga ferðamönnum sem sækja hestatengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra (Skagafirði og Húnavatnssýslum)  og efla um leið afleidda þjónustu, gistingu, veitingar.

 Að fjölga störfum tengdum íslenska hestinum, á Norðurlandi vestra
 Að auka samstöðu meðal aðila í hestatengdri ferðaþjónustu sem og annarri hestatengdri atvinnustarfsemi á Norðurlandi vestra
 Að auka gæði og fagmennsku hestatengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra
 Að efla ímynd Norðurlands vestra, með tilliti til íslenska hestsins
 Að fjölga möguleikum/auka fjölbreytni í hestatengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra, m. a. með það fyrir augum að lengja hið hefðbundna ferðamannatímabil

Öllum þeim sem hafa atvinnu að einhverju leyti af hestum eða hestatengdri þjónustu var boðið að gerast félagar og eru flest fyrirtæki  sem byggja afkomu sína á hestinum á Norðurlandi vestra þátttakendur sem og margir hrossaræktendur á svæðinu.  Samtökin eru byggð á hugmyndinni um klasa.
Hýruspor er grasrótarsamtök þar sem þátttakendur vinna í hinum ýmsu vinnuhópum til að gera veg hestamennskunnar á Norðurlandi vestra sem mestan og atvinnugreinina sem öflugasta. Ekki síst er horft til þess að nýta þau tækifæri sem felast í þessari starfsemi yfir vetrarmánuðina.
Verkefnið hefur þegar hlotið nokkra styrki til starfseminnar svo sem frá Vaxtarsamningi Norðurlands vestra, Menningarráði Norðurlands vesta og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Búið er að ráða Jón Þór Bjarnason, ferðamálafræðing í hlutastarf.  Hefur hann aðsetur á Sauðárkróki.

Fyrstu stjórn samtakana skipa:
Páll Dagbjartsson, Varmahlíð ,   formaður
Jón Gíslason Ferðaþjónustunni Hofi  í Vatnsdal,   gjaldkeri
Jóhann Albertsson Sveitasetrinu Gauksmýri ,   ritari
Arna Björk Bjarnadóttir Sögusetri Íslenska hestsins,   meðstjórnandi
Hjörtur Karl Einarsson Hestamiðstöðinni Hnjúkahlíð,   meðstjórnandi.


Ef einhverjir eru ennþá utan samtakanna en hefðu hug á að vera með er þeim bent á  að hafa samband við einhvern stjórnarmanna.
Segja má að með stofnun þessara samtaka hafi þeir sem vinna við hestamennsku í Húnavatnssýslum og Skagafirði tekið höndum saman og ákveðið að lyfta Grettistaki og gera þetta svæði að " hestasvæðinu á Íslandi."

Flettingar í dag: 562
Gestir í dag: 51
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 966126
Samtals gestir: 50573
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 12:17:49