12.05.2009 12:23

Tvíburafolöld - öllum að óvörum


Helga Thoroddsen, reiðkennari og hrossabóndi á Hestabúgarðinum Þingeyrum sendi Hestafréttum virkilega skemmtiega frétt af tvíburafolöldum sem fæddust hjá henni á Þingeyrum í gær.

Þegar farið var að gá að folaldshryssum hér á bæ um hádegið í gær þá kom í ljós að Dimmalimm frá Breiðavaði var að byrja að kasta. Það kom svo sem engum á óvart þar sem tíminn var kominn en þegar eitt folald var komið stóð hryssan ekki upp heldur fæddi annað öllum að óvörum. Það var heppni að við skildum taka eftir þessu þar sem óvíst er að bæði hefðu lifað án smá aðstoðar til að byrja með. Þetta eru hryssa og hestur undan Blæ frá Hesti og braggast bæði vel. Hryssan er agnarlítil en spræk og bæði eru þau komin á spena. Hryssan var 14 kíló við fæðingu og hesturinn 24 þannig að saman eru þau rúmlega meðalþyngd venjulegs folalds.

Það er gaman að segja frá því að það gekk mjög illa að koma folaldi í Dimmalimm fyrst þegar til stóð að halda henni enda var hún þá orðin 14. vetra. Í fyrra kom svo fyrsta folaldið, hestur undan Stála frá Kjarri sem til varð við sæðingu og núna er sú gamla heldur betur búin að bæta okkur upp biðina með því að koma í þetta sinnið með 2 stykki, frísk og snotur folöld.

heimild: www.thingeyrar.is
Flettingar í dag: 400
Gestir í dag: 100
Flettingar í gær: 394
Gestir í gær: 106
Samtals flettingar: 3706366
Samtals gestir: 448341
Tölur uppfærðar: 15.12.2019 21:08:19