05.05.2010 16:04

Undirbúningur í fullum gangi - fylgst vel með líðan hrossa

Undirbúningur fyrir Landsmót hestamanna gengur samkvæmt áætlun. Framkvæmdanefnd hefur þó áhyggjur af heilsu væntanlegra keppnishrossa út af svonefndri hóstapest. "Já, menn eru að vinna hörðum höndum við að koma svæðinu á Vindheimamelum í flott stand og skipuleggja alla þætti varðandi sýningar- og keppnishaldið. Því er hins vegar ekki að neita að kvefpestin er að hægja á þjálfun víðast hvar og við erum því í miklu sambandi við hestamenn og dýralækna um allt land til að fylgjast með gangi mála," segir Sigurður Ævarsson, mótsstjóri. "Við fundum nánast daglega og reynum að afla okkur allra þeirra upplýsinga sem fyrir liggja."




Á morgun, fimmtudag, er fyrirhugaður stjórnarfundur hjá Landssambandi hestamannafélaga (LH) þar sem staðan verður rædd. Þá fundar framkvæmdanefnd og mótsstjórn Landsmóts á föstudag, ásamt dýralæknum, þar sem farið verður yfir alla þætti málsins sem snerta heilsufar hrossanna. Yfirlýsingar er að vænta eftir þann fund.

"Við reynum að taka á öllum aðstæðum og svara þeim spurningum sem þarf að svara. Við erum meðvituð um að væntanlegir keppendur hafa miklar áhyggjur af hestum sínum og úrtökunum sem framundan eru. Menn hafa verið að velta upp ýmsum möguleikum í því sambandi, til dæmis að hafa tvöfalda umferð í úrtökum eða fresta þeim, en engar ákvarðanir hafa hins vegar verið teknar enn og við bíðum eftir niðurstöðunni af fundinum í lok vikunnar. Þangað til höldum við okkar striki og vonum að með hlýnandi veðurfari fari hrossin okkar að ná fyrri styrk," segir Sigurður að lokum.


www.landsmot.is
Flettingar í dag: 2376
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 4666
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 937704
Samtals gestir: 49497
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 22:15:58