06.05.2010 11:04

Stefnum ótrauð á Landsmót hestamanna

"Við munum halda okkar striki í undirbúningi Landsmóts og stefnum ótrauð á að það verði haldið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá dýralæknum er hrossapestin frekar í rénun og þeir vonast til að hún muni fjara út á næstu tveimur til þremur vikum, um leið og hlýnar meira," segir Haraldur Þórarinsson, formaður LH og stjórnarformaður Landsmóts ehf..

Verðum að gera tilslakanir

"Það er hins vegar skynsamlegt og nauðsynlegt að gera viðbragðsáætlun til að fara eftir ef mál fara á versta veg, sem aldrei er hægt að útiloka. Það er ljós að það þarf að gera ráðstafanir og tilslakanir varðandi úrtökur og kynbótasýningar. Eins og dæmið lítur út núna þá geta sennilega ekki öll hross mætt til úrtöku samkvæmt dagskrá.

Viðbragðsáætlun eftir helgi

Það er fundur hjá stjórn LH í dag þar sem farið verður yfir stöðuna og á morgun mun framkvæmdanefnd Landsmóts funda í Varmahlíð í Skagafirði. Eftir þessa fundi munum við væntanlega senda frá okkur fréttatilkynningu um hvaða stefna verður tekin og hvort gefin verður út sérstök viðbragðsáætlun. Það ætti að liggja fyrir um helgina eða strax eftir helgi. Aðalatriðið nú er að menn haldi ró sinni og séu bjartsýnir.

Áður staðið í sömu sporum

Við höfum áður staðið í svipuðum sporum. Hrossapestin 1998 var ennþá verri en sú sem nú er í gangi og þá tókst okkur að halda gott Landsmót í Eyjafirði. Við skulum stefna á að gera það líka núna þrátt fyrir smá mótbyr," segir Haraldur Þórarinsson.



www.vb.is
Flettingar í dag: 352
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 636
Gestir í gær: 89
Samtals flettingar: 3695968
Samtals gestir: 447753
Tölur uppfærðar: 11.12.2019 07:48:13