27.05.2010 15:26

Viðtal við Gunna Arnars á www.eidfaxi.is

Vegna umræðu um áhrif veirusýkingar á landsmót hafði Eiðfaxi samband við Gunnar Arnarsson hrossaræktanda og spurði hann álits.


Hvernig er staðan hjá þér?

Hér erum við með alla flóruna, það er að segja hrossin eru á öllum stigum sýkingar. Einhver eru búin að ná sér, og erum við að sýna þessa dagana það sem er í lagi. Einhver eru á batavegi og verða klár næstu daga eða í öllu falli á næstu tveimur vikum.


Er  hægt að halda Landsmót?

Að sjálfsögðu er hægt að halda Landsmót, jafnvel þótt það verði aðeins minna að hestakosti heldur en það hefði orðið undir venjulegum kringumstæðum. Það eru til lausnir ef menn vilja opna augun og sjá þær. Til dæmis er vel hægt að nota kynbótadóma frá því í fyrra og hitteðfyrra til þess að taka hross inn á mótið. Við hljótum að geta treyst dómgreind eigenda þessara hrossa til að koma aðeins með þau séu þau í góðu lagi. Þau hross sem fóru í lágmarkseinkunnir til inntöku á LM eru búin að sanna að þau eru góð.


Nú virðist umræðan hneigjast að því að LM verði blásið af. Hvað finnst þér um það?

Það er dapurlegt að þeir sem stjórna umræðunni tali eins og engir hagsmunir séu í húfi.  Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að halda landsmót og það er óþolandi að stýrimennirnir skuli vera meðal þeirra fyrstu sem leggja árar í bát og gefast upp. Skipstjóri yfirgefur ekki skipið fyrr en það er sokkið. Við verðum að sjálfsögðu að hafa velferð hestsins í fyrirrúmi og efst á forgangslistanum. Þeir sem eiga og eru með þessi hross eru undantekningalaust fagfólk og því er algerlega treystandi fyrir velferð hrossa sinna. Nú eru tamningamenn með fullt af gæðingum á húsi, hross sem búið er að undirbúa í langan tíma fyrir þetta landsmót.  Fjárhagslegt tjón eigenda þessara hrossa verður gífurlegt og ekki bætandi á allt annað sem mæðir á þessu þjóðfélagi. Mörg þessara hrossa eru að komast útúr þessu ástandi og þann fyrsta júlí verða mörg hross komin í feikna form spái ég.


Hverjar geta orðið afleiðingar þess, verði hætt við að halda LM?

Það mun taka  áratugi að rétta af greinina aftur. Allir þeir sem hafa verið að fjárfesta í henni undanfarin ár munu verða fyrir miklu tjóni, það unga fólk sem hefur varið tíma sínum og fjármunum í menntun í þessu fræðum verður fyrir miklu tjóni. Skólarnir sem eru að mennta þetta fólk munu líka líða er fólk hættir að mennta sig vegna doða í greininni. Atvinna með hross mun að miklu leyti leggjast útaf.  Áhrif þessa á markaðina okkar bæði hvað varðar útflutt hross og þekkingu eru algerlega óþekkt.


Hvað er til ráða?

Ég vil hvetja þá sem um taumana halda að átta sig á afleiðingum þess að blása mótið af og snúa sér frekar að því verkefni að peppa upp fólkið og hvetja það til dáða. Það gera almennilegir stjórar.

www.eidfaxi.is

Flettingar í dag: 352
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 636
Gestir í gær: 89
Samtals flettingar: 3695968
Samtals gestir: 447753
Tölur uppfærðar: 11.12.2019 07:48:13