11.11.2011 16:27

Viðtal við Helgu Rún hjá Eiðfaxa

Helga Rún stigahæsti unglingur Þyts

Fréttaritari Eiðfaxa tók viðtal við Helgu Rún á Bessastöðum. Viðtalið má sjá á heimasíðu Eiðfaxa og hér að neðan.

Helga Rún Jóhannsdóttir,  er 15 ára hestakona frá Bessastöðum í Húnaþingi vestra.  Hún var á dögunum heiðruð sem knapi ársins í unglingaflokki á Uppskeruhátíð hjá hestamannafélaginu Þyt, enda var hún dugleg að keppa á félagsmótum sl. ár, þar sem hún kom fram með marga ólíka hesta í eigu og úr ræktun fjölskyldu sinnar á Bessastöðum. Helga Rún hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini. Henni finnst lærdómsríkt að vinna með þjál og viljug hross og hefur einstaklega gaman að því að leggja á skeið. Þó Helga Rún stefni að því að verða bakari í framtíðinni ætlar hún sér þó að iðka hestamennskuna af fullum krafti og rækta hross í smáum stíl.


 
- Hvenær kviknaði áhugi þinn á hestum? Hvernig byrjaðir þú að stunda hestamennsku?
Líklega byrjaði ég um leið og ég fæddist, foreldrar mínir tóku mig alltaf með sér upp í hesthús og pabbi tók mig stundum á bak. Ég hef því allt tíð verið í hestunum og haft áhuga á þeim.
- Afhverju hestamennska?
 
Skapgerð hesta er alveg einstök, sérstaklega í íslenskum hrossum. Þau eru svo fús og til í nánast allt, það er því hægt að vinna með þau á svo mismunandi hátt.  Það er gaman að læra að hafa stjórn á hlutunum, en ef eitthvað fer úrskeiðis er alltaf hægt að stoppa og byrja upp á nýtt.
Ég vil vera góður  knapi og vinna með hesta þannig að þeim líði vel og að ég eigi auðvelt með að koma skilaboðum til þeirra. Við eigum marga hesta sem mér finnst vænt um og eru í uppáhaldi. Þeir eiga það allir sameiginlegt  að vera þjálir og þægilegir í umgengni, eru vinnufúsir og auðvelt að fá þá til afkasta þegar um það er beðið. Pabbi leyfir mér að fara á alla hestana sem hann treystir mér til, þar á meðal ungu hrossin og keppnishrossin hans. Ég gleymi því t.d.  aldrei þegar ég lagði í fyrsta sinn á skeið. Þá var ég á Hvirfli, einum af elstu hestunum okkar og það gekk bara rosalega vel. Ég hef lagt marga spretti síðan þá.
Svo er fólkið sem ég umgengst í hestamennskunni  mjög skemmtilegt. Mér finnst líka alltaf gaman að fara á mót, þó ég sé ekki alltaf að keppa.
- Hefur þú keppt mikið á hestamótum?
 
Ég keppti tæknilega séð í fyrsta sinn þegar mamma var ólétt af mér árið 1996 í reiðhöllinni á Þingeyrum. Þar sigruðum "við" í tölti á Brynjari gamla. En ég keppti sjálf í fyrsta sinn á grunnskólamóti á Sauðárkróki fyrir þremur árum og varð þá í fimmta sæti í tölti.  Mér finnst lærdómsríkt að taka þátt í keppnum, því þá kemst ég að því hvað ég get og fæ samanburð. Ekki aðeins til að meta hestinn heldur líka samanburð við aðra knapa. Í ár keppti ég í mörgum greinum á nokkrum hestum og náði góðum árangri með þeim flestum t.d. sigraði ég tvisvar í skeiði á Hvirfli og  verð í þriðja sæti unglingakeppni á Glóðafeyki. Þetta eru báðir hestar úr okkar ræktun á Bessastöðum. 
- Hvað ber að hafa í huga til að ná góðum árangri í hestamennskunni?
 
Að hafa góðan hest að vinna með og hafa nógan tíma til að þjálfa. Svo er oft fínt að eiga einhvern að til að segja sér til.
- Hvaða hross ertu að þjálfa núna?
 
Við erum með fá hross inni núna í nóvember, en eitt af þeim er keppnishestur minn fyrir næsta ár, hann heitir Prins frá Hesti. Hann er ágætis hestur en frekar nýr svo við erum enn að kynnast. Ég er farin að þjálfa hann að mestu leiti sjálf en vegna skóla kemst ég ekki nógu oft í vikunni  svo pabbi fer á bak á honum þegar ég kemst ekki. Mín eftirlætis hross eru þau sem eru auðveld í beisli og þjál. Mér finnst líka gaman ef þau eru rúm á öllum gangi, viljug og stórstíg.
- Hver er besti hestur sem þú hefur setið?
 
Það er líklega Akkur frá Nýjabæ. Hann var keppnis hesturinn minn fyrir tveimur árum og er mjög góður hestur en svolítið kenjóttur. Við seldum hann til Danmerkur, þar komst dýralæknir að því að hann var með klofna tönn sem var ástæðan fyrir þessu ótrausta skapi. Gert var við tönnina og nú líður honum betur, þannig að hann er jákvæðari og nýjum eigendum gengur víst mjög vel með hann.
- Spáir þú eitthvað í hrossarækt?
 
Ég vil helst fá að vita undir hvaða hesta hryssurnar okkar fara og mér finnst gaman að sjá folöldin þegar þau fæðast. Ég hjálpa líka alltaf pabba í frumtamningunum og þegar ég fer á kynbótasýningar pæli ég aðeins í stóðhestunum. En ég er svosem ekki að hugsa um hvaða hryssur passa best undir þann hest sko.
- Hvaða hest hefðir þú viljað taka heim með þér af síðasta Landsmóti?
 
Ölfu frá Blesastöðum, mér fannst hún bara svo flott að sjá úr brekkunni og ég hef setið frænda hennar og þau litu út fyrir að vera svipuð í reið. Hún er líka flottasti töltari sem ég hef séð.
- Hver er flottasti hestur sem þú hefur séð?
 
Flottasti alhliðahestur sem ég hef séð er klárlega Spuni frá Vesturkoti. Þó kemur Frabín frá Fornusöndum sterklega til greina. Hann er hér í þjálfun, ofsalega flottur hestur undan Hreim frá Fornusöndum.
- Hvað ætlar þú að gera í framtíðinni?
 
Ég vil verða bakari en ég mun líklega hafa eina, tvær hryssur í ræktun og auðvitað nokkra hesta á húsi til útreiða.  
Eiðfaxi óskar Helgu Rún góðs gengis á komandi keppnistímabili.

 
Flettingar í dag: 1739
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 4666
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 937067
Samtals gestir: 49496
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 16:28:50