18.12.2011 21:11

Kíkt á Þytsfélaga sem búsettur er á Akureyri


Tign 1. verðlauna Hugadóttir, með Héðinsdóttur.


Aldrei hefur verið jafn mikið rætt um nýjan meðlim hestamannafélagsins eins og þegar viðmælandi minn skráði sig í félagið. Það var í mars sl að formaðurinn fór yfir félagatalið eins og hún gerir alla mánudagsmorgna að hún sá nýtt nafn, auðvitað varð hún mjög spennt yfir nýjum félagsmanni enda allir velkomnir í félagið. Í þetta skiptið var það enginn annar en leynivopn liðs 1 sem kom sá og sigraði fyrir liðið árið á undan, Pétur Vopni Sigurðsson.

Ritara síðunnar langaði til að kynnast þessum eftirsótta félaga örlítið betur og spurði hann aðeins út í hestamennskuna hans. Pétur býr ásamt fjölskyldu sinni á Akureyri.


Þú ert búinn að vera að byggja hesthús á Akueyri, hvernig ganga framkvæmdirnar? Ég er að byggja nýtt 19 hesta hús. 15 eins hesta stíur og tvær tveggja hesta. Framkvæmdir liggja niðri sem stendur. Ég er búinn að steypa upp húsið. Ekkert liggur á að klára þetta því ég á mjög fínt 12 hesta hús sem ég er ekki búinn að selja.

Er öll fjölskyldan í hestamennskunni? Já öll fjölskyldan er í hestamennsku. Stelpurnar mínar Berglind og Valgerður eru að taka knapamerkja námskeið í vetur en Inga gamla mín verður nú eitthvað frá hnakknum í bili. Hún á von á sér í janúar. Það má samt alltaf nota hana í að moka og gefa :-):-)

Ertu að rækta hross? Já ég er aðeins að dunda við ræktun. Hélt þremur merum í fyrra sumar en fékk aðeins eitt folald. Reyndi aftur í sumar og vonast til að fá eitthvað fleiri folöld næsta sumar. Fékk fallegt merfolald undan 1. verðlauna Hugadóttir og Héðni frá Feti. Merin fór svo til Orra í sumar, en ég hélt ekki út að bíða eftir fyli og hélt henni undir Gamm frá Þúfu.

Hvaða hross eru komin á hús hjá þér núna? Þau hross sem eru komin inn eru Silfurtoppur, móálóttur Aronssonur sem ég hef keppt á fyrir vestan, Hildigunnur Geisladóttir, Gustsdóttir á fimmta vetur sem við Maggi í Steinnesi eigum saman, tvö grá tryppi á fjórða vetur sem eru undan Gustssyni sem ég átti, Ármanni frá Hrafnsstöðum. Ég er mjög spenntur fyrir þeim, þó sérstaklega fyrir merinni. Hún er virkilega þroskuð og hreyfingarfallegt tryppi.  Svo er kominn á hús gamall höfðingi sem hefur fengið 7,5 í tölti og 8,60 í B-flokki sem allir geta riðið á. Þetta verður vonandi hestur Berglindar í vetur. Restin af hestunum verður svo tekin inn rétt fyrir jól.

Nú hefur þú mætt tvisvar sinnum og keppt í Húnvetnsku liðakeppninni, hver er þín upplifun af því að mæta í Húnavatnssýsluna? Ég hef oft komið vestur og keppt. Ég mætti í nokkur skipti í reiðhöllina á Blönduósi og hafði alltaf gaman af. Ég er svakalega hrifinn að keppnisfyrirkomulaginu hjá ykkur. Mikil stemming og góður andi. Held að það hafi verið mistök hjá ykkur að reyna að loka á þátttöku knapa utan héraðs fyrir lokamót. Það er ekkert nema jákvætt að fá fleiri skráningar og góða hesta á svæðið. Stemmingin í höllinni hjá ykkur er engu lík. Ekkert smá gaman að ríða úrslit í svona stemmingu.

Ætlar þú að mæta og keppa í Húnvetnsku liðakeppninni í vetur? Já vonandi sé ég mér fært að mæta í vetur. Þó hef ég aldrei verið mikið fyrir að keppa. Ef hrossin eru í standi þá get ég hugsað mér að vera með. Ég hef þó orðið meiri metnað fyrir því að dæma. Kannski kem ég bara og dæmi fyrir mitt nýja félag og get þá kvittað fyrir mig :-):-)

Ertu með eitthvað nýtt vopn fyrir árið? Nýja vopnið hjá Vopna er Hildigunnur frá Kollaleiru, 1. verðlauna Geisladóttir sem stórvinur minn Hans Kjerúlf seldi mér sem ræktunarmeri. Hann var svo góður að fjarlægja legið úr merinni áður en ég fékk hana svo folaldaseignir verða ekkert að þvælast fyrir. Nú á ég fría tolla hjá honum og Tryggva Björns fyrir þessa meri á meðan hún lifir.

Vissir þú að þú varst leikinn á uppskeruhátíð félagsins? Já ég vissi að eitthvað grín var í gangi á árshátíð. Hefði verið gaman að sjá það.

Að lokum svona til gamans, munt þú lána Guðrúnu Ósk, liðsstjóra þínum, rugguhest þetta árið? Að sjálfsögðu mun ég bjóða liðsfélögum hesta. Það eru 6 pláss á kerrunni minni svo það er aldrei að vita hvað verður sett á hana !


 

Mynd úr gamla hesthúsinu á Akureyri


                   Silfurtoppur kominn inn

 

Flettingar í dag: 231
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 548
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 965017
Samtals gestir: 50513
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 09:53:19