26.04.2021 08:40

Aðalfundur Þyts 2021

Aðalfundur hestamannafélagsins Þyts haldinn 25. apríl 2021

Mættir: Pálmi Geir Ríkharðsson formaður, Friðrik Már Sigurðsson ritari, Kolbrún Grétarsdóttir
gjaldkeri, Sofia Krantz aðalmaður, Fanney Dögg Indriðadóttir aðalmaður, Eva Lena Lohi
varamaður, Sigrún Eva Þórisdóttir, Dagbjört Jóna Tryggvadóttir, Jóhann Magnússon, Guðný
Helga Björnsdóttir, Hanifé Mue og Jóhannes Björnsson.

Formaður setti fund kl. 19:00. Gengið til dagskrár.
Dagskrá:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Pálmi Geir Ríkharðsson, formaður Þyts, bauð fundarmenn velkomna á fundinn og leggur til
að Fanney Dögg Indriðadóttir verði fundarstjóri og Friðrik Már Sigurðsson fundarritari.
Samþykkt samhljóða með lófataki.

2. Skýrsla stjórnar
Formaður fór yfir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi. Starf á árinu 2020 einkenndist af
áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 og erfiðum vetri veðurfarslega séð og því voru fundir
stjórnar ekki nema fjórir á árinu 2020, en því meiri samskipti á fésbókinni. Sóttvarnarreglur
stjórnvalda komu í veg fyrir fjölmennar samkomur og fundarhöld á árinu, ekki var haldinn
almennur félagsfundur og ekki var hægt að halda aðalfund fyrr en í maí. Engin
uppskeruhátíð var haldin og mótahald var í lágmarki, eitt mót var haldið síðasta vetur þar
sem keppt var í fjórgangi og fimmgangi og íþróttamót var haldið í júlí.
Öll kennsla einkenndist af ástandinu og lá öll kennsla að mestu leyti niðri frá mars/apríl og
varð að fella niður námskeið sem fyrirhuguð voru hjá börnum og unglingum og engin
námskeið voru haldin fyrir fullorðna. Mikil ásókn hefur verið á námskeiðin fimleikar á hesti
og mikil ánægja verið með störf Kathrinar sem hefur séð um þau í fleiri ár.
Þytur sá um héraðsþing USVH sem fram fór í júní, sérstaklega var okkur þakkað fyrir góðan
mat sem veitinganefndin sá um. Á þinginu lagði Þytur fram tillögu þess efnis að styrkur
USVH vegna æskulýðsstarfs hjá Þyt og Kormáki yrði óbreyttur frá fyrra ári vegna
sóttvarnarreglna stjórnvalda með því væri gætt sanngirni og á hvorugt félagið hallaði. Eins
fór stjórnin fram á það við sveitarstjórn Húnaþings vestra að styrkur sá er félagið fengi á
hverju ári vegna nýtingar á reiðhöllinni/íþróttahúsi vegna æskulýðsstarfs yrði ekki skertur
þrátt fyrir að við gætum ekki skilað þeim tímafjölda sem þyrfti til þess að fá fullan styrk, hvort
tveggja var samþykkt og þökkum við þann skilning sem bæði USVH og sveitarfélagið sýndu
okkur. Í vetur hafði stjórnin hug á því að bjóða börnunum upp á helgarferð þar sem yrðu
hestatengdir atburðir við þeirra hæfi ásamt gistingu.
Nokkrir Þytsfélagar fóru á námskeið í Skagafirði í notkun mótafengs, þeir voru Pálmi Geir
Ríkharðsson, Vigdís Gunnarsdóttir, Eva Lena Lohi og Sigrún.
Landsþing LH var haldið rafrænt í haust og voru fulltrúar Þyts Pálmi Geir Ríkharðsson með
tvöfaldan atkvæðisrétt, Jóhann Albertsson með tvöfaldan atkvæðisrétt og Kolbrún
Grétarsdóttir.
Framkvæmdir á vegum félagsins voru þær að m.a. var skipt um suðurhlið dómarahúss, rúður
höfðu brotnað og viður var orðinn illa farinn af fúa. Halldór Sigurðsson tók verkið að sér og
Þytur sá um kostnað við efni en Halldór sá um framkvæmdina okkur að kostnaðarlausu og
kunnum við honum bestu þakkir fyrir.

Þá hófust framkvæmdir við stækkun og breytingu á hringvelli félagsins. Byrjað var að rífa
niður girðingu umhverfis völlinn og tóku nokkrir vaskir Þytsfélagar til hendinni við það verk
(Pálmi, Friðrik, Steinbjörn, Matthildur, Sonja og börn, Kerstin). Til að hækka og stækka
völlinn var fenginn Ingibjörn Pálmar Gunnarsson verktaki en hann átti lægsta tilboð í verkið,
2.000.000 kr. Pálmi og Friðrik tóku að sér að mæla út völlinn ásamt Ingabirni og í
framhaldinu var farið í að keyra efni í völlinn. Búið er að keyra í ca. helming af vellinum en
framkvæmdir stöðvuðust vegna þess að þar sem fyrirhuguð skammhlið að sunnanverðu
kemur eru gamlir vatnsbrunnar og skurðir sem sveitarfélagið þarf að ganga frá áður en
lengra er haldið. Einnig þarf að lækka landið og stutt er niður á ýmsar lagnir sem þarf að
koma á meira dýpi áður en tekið er ofan af því efni sem þar er.
Eins og gefur að skilja þá hefur starfsemi félagsins ekki verið með hefðbundnu sniði síðasta
árið enda um fordæmalausa tíma að ræða. Stjórnin hefur reynt eftir fremsta megni að sjá til
þess að ekki hafi komið til skerðingar á fjármagni frá þeim aðilum sem helst styrkja félagið,
sveitarfélagið samþykkti að þrátt fyrir að við gætum ekki uppfyllt skilyrði varðandi nýtingu á
reiðhöllinni síðasta vetur fengum við fullan styrk vegna reiðhallarinnar og kunnum við þeim
bestu þakkir fyrir. Einnig lögðum við fram tillögu á héraðsþingi USVH um að aðildafélögin
fengju sambærilega úthlutun og við síðustu úthlutun fyrir heimsfaraldur COVID-19.
Framundan í sumar er Fjórðungsmót í Borgarnesi þar sem Þytur hefur þátttökurétt í
gæðingakeppni. Þytur heldur í sumar Íslandsmót ungmenna og fullorðinna ásamt félögum
hér á norðvestur- og norðurlandi á Hólum í Hjaltadal.

3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins til samþykktar
Kolbrún Grétarsdóttir gjaldkeri Þyts fór yfir ársreikning ársins 2020. Rekstartekjur ársins voru
kr. 10.404.500 og rekstrargjöld kr. 5.559.011. Afkoma ársins er því kr. 4.845.489 samanborið
við kr. 1.032.796 árið 2019. Eigið fé stendur í kr. 16.405.937 og skuldir kr. 481.912.

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Ársreikningur ársins 2020 borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.

5. Árgjald
Stjórn leggur til að árgjald verði óbreytt eða kr. 4.500. Samþykkt samhljóða.

6. Kosningar
A. Formaður til tveggja ára. Núverandi formaður félagsins, Pálmi Geir Ríkharðsson
endurkjörinn með lófataki.
B. Einn meðstjórnandi til tveggja ára. Núverandi meðstjórnandi Fanney Dögg
Indriðadóttir endurkjörin með lófataki.
C. Tveir varamenn stjórnar til eins árs. Sigrún Eva Þórisdóttir og Eva Lena Lohi kjörnar
með lófataki.
D. Tveir skoðunarmenn til eins árs. Júlíus Guðni Antonsson og Matthildur Hjálmarsdóttir
kjörin með lófataki.
E. Tveir varamenn skoðunarmanna til eins árs. Halldór Sigfússon og Jóhann
Magnússon kjörnir með lófataki.
F. Fundurinn felur stjórn félagsins að skipa sex fulltrúa á Héraðsþing USVH og sex til
vara. Samþykkt með lófataki.

7. Önnur mál

Pálmi kynnti tillögu sína varðandi aðgang félagsmanna að myndböndum í Worldfeng.
Landssamband Hestamannafélaga býður hestamannafélögum aðgang að myndböndum í
Worldfeng fyrir kr. 300 á ári á hvern félagsmann. Fundurinn samþykkir með öllum greiddum
atkvæðum að fela stjórn að leita eftir samstarf við LH um aðgang fyrir félagsmenn og að
félagið greiði fyrir aðgang félaga í hestamannafélaginu Þyt að myndböndum í Worldfeng.
Fyrir fundinum lá samantekt reiðveganefndar yfir framkvæmdir á árinu 2020 og Jóhannes
Björnsson kynnti fyrir fundarmönnum helstu framkvæmdir ársins.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð upplesin og samþykkt. 
Fundi slitið kl. 19:50
Flettingar í dag: 2169
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 2561
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 940058
Samtals gestir: 49515
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 14:24:22