26.04.2019 09:02

Í minningu vinar


Í dag er bæði sorgar, gleði- og þakkardagur hjá hestamannafélaginu Þyt. Við syrgjum vegna þess að við kveðjum einn af okkar bestu og öflugustu liðsmönnum, við gleðjumst af því að við fengum að njóta hennar krafta og við þökkum fyrir allt það sem hún veitti félaginu okkar. Í dag kveðjum við heiðurskonuna, drifkraftinn og kvenskörunginn Sigrúnu Kristínu Þórðardóttur.

Sigrún vann frá því hún flutti í sveitarfélagið einstaklega ötullega að félagsmálum hestamannafélagsins Þyts. Sigrún var formaður félagsins í 8 ár og er óhætt að segja að hún hafi gert mikið fyrir félagið með krafti sínum, vinnugleði og almennri umhyggju fyrir félagsstarfinu.

Svo fátt eitt sé nefnt átti Sigrún stóran þátt í því að Íslandsmót barna og unglinga var haldið á Hvammstanga sumarið 2010 með miklum sóma, ásamt því að hún vann hörðum höndum að samningaferli því er leiddi til þess að reiðhöll Þyts, Þytsheimar, var byggð. Enginn vafi er á að þessir þættir höfðu gífurlega jákvæð áhrif á iðkun hestamennsku í sveitarfélaginu og ekki hvað síst á ástundun yngri aldursflokka. Þess má geta að undir formennsku Sigrúnar fékk Þytur æskulýðsbikar Landssambands hestamanna, en við val á handhafa bikarsins er horft til þess fjölbreytta starfs sem félögin hafa í boði fyrir börn, unglinga og ungmenni í sínu félagi. Margt fleira væri hægt að nefna varðandi góð störf Sigrúnar fyrir hestamannafélagið okkar, og væri jafnvel efni í heila bók.

Til viðbótar við störf sín fyrir Þyt sat Sigrún í stjórn Ungmennasambands Vestur-Húnavatnssýslu fyrir hönd Þyts og sömuleiðis sat hún í stjórn Landssambands hestamanna, fyrst sem varamaður í 2 ár og síðar 4 ár í aðalstjórn.

Nýliðun í hestamennsku, æskulýðsmál, keppnismál og fræðslumál voru Sigrúnu alla tíð hugleikin ásamt jafnræði á milli lítilla og stórra hestamannafélaga, bæði hvað varðar fræðslu og keppni þar sem litlum félögum reynist oft erfitt að standa fyrir viðburðum ýmiskonar vegna kostnaðar.

Sigrún bar hag þessa litla landsbyggðarfélags mjög fyrir brjósti. Vann að kynningu félagsins út á við og að styrkingu félagsanda inn á við, og er félagið í dag þekkt fyrir góðan liðsanda og samheldni. Er þar ekki hvað síst vasklegri framgöngu Sigrúnar í málefnum félagsins um að þakka.

Sigrún, sem formaður Þyts, leit þannig á að allir félagsmenn væru hennar skjólstæðingar, og tók hún slaginn með sínu fólki sama hversu erfið mál um var að ræða. Hvikaði hvergi, studdi sitt fólk og reyndist ómetanlegur haukur í horni í hinum ýmsu og oft á tíðum erfiðu málum. Sigrún var sömuleiðis alltaf gleðigjafi; hress, kát, bar léttleika með sér hvert sem hún fór og gladdi alla sem voru svo heppnir að hitta hana.

Mikill er missir allra hennar ástvina. Mikill er missir hestamannafélagsins Þyts. Mikill er missir Húnaþings alls.



 

Flettingar í dag: 721
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 548
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 965507
Samtals gestir: 50519
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 21:54:19