Færslur: 2009 Febrúar

10.02.2009 21:36

Töltkeppni

1. mót í liðakeppninni:

Ágætu keppendur, við viljum vekja athygli á því að ekki verður snúið við í töltkeppninni.

í skráningu verður að koma fram upp á hvora hönd þið viljið keppa. Það eru tveir saman inn á í einu. Skráningargjald er 1.000.- fyrir fullorðna en 500 fyrir börn og unglinga.

Mótið hefst kl. 18.00 þar sem rúmlega 80 keppendur eru skráðir til leiks.

Dagskrá:
Barnaflokkur
Unglingaflokkur
2. flokkur
1. flokkur
Úrslit:
B-úrslit í 2. flokki
B-úrslit í 1. flokki
Unglingar
A-úrslit í 2. flokki
A-úrslit í 1. flokki

Nefndin
09.02.2009 21:48

Frá liðstjóra liðs 1

Fundur fimmtudaginn 12. febrúar í Félagshúsi Þyts kl. 20.15. Liðið hefur svo aðgang að höllinni kl.21.00. Mjög mikilvæg málefni á dagskrá svo þú skalt mæta vinur minn!  Mjólk leyfileg í takmörkuðu magni, svali sleppur líka til.  Kaffi í boði húsins!  Hlakka endalaust til að sjá þig.
Með kærri kveðju Guðrún Ósk þyngd en 52 kg, sem er alveg hreint lygilegt!

09.02.2009 21:46

Frá Æskulýðsnefnd

Fundur Æskulýðsnefndar 28 janúar  2009.

Fyrsti fundur Æskulýðsnefndar var haldinn  í Félagshúsi okkar í Kirkjuhvammi  þann 28. janúar 2009, fjölmennt var á fundinum þar sem starfið 2009 var kynnt.

Stefnt er að því að byrja reiðþjálfun 10 febrúar nk. sem fram fer í Reiðhöllinni á Hvammstanga, alls verða þetta 8 hópar og hver hópur fær tíma einu sinni í viku og mun reiðþjálfunin vera fram í maí. Þórir Ísólfsson mun sjá um að þjálfa krakkana í vetur. Þjálfunin mun kosta 7.000,-  á barn og viljum við minna á að

                frístundakortin gilda í þessu sem öðrum tómstundum.

Einnig munum við bjóða krökkum á leikskólaaldrinum uppá kennslu,þau verða þó ekkinema annan hvern laugardagsmorgun en það þarf að skrá þau sem ætla að vera með.

Einnig var kynnt Grunnskólamót sem við í samstarfi við Skagfirðinga og Blönduósinga munum halda. Alls eru þetta fimm grunnskólar sem munu keppi á þessu móti, það er grunnskólinn á Sauðárkróki, Hofsósi,Varmahlíð, Blönduós og Húnaþing vestra. Fyrsta mótið verður haldið á Sauðárkróki og verður það 28 mars nk., hér í Húnaþingi vestra 4 apríl og á Blönduósi 18 apríl, þetta mót verður betur kynnt og allar reglur í kringum það þegar nær dregur. Þetta er mjög spennandi mót og verður mikil reynsla fyrir krakkana að taka þátt í þessu ef þau kjósa það.

Farið verður á Æskuna og hesturinn sem haldinn verður 2 mai á Akureyri, nánar verður farið út í þá umræðu þegar nær dregur.

Okkur langar líka að hafa sýningu hér heima áður en skundað verður á Akureyri og lagðist það vel í fólk.

Einnig verður stundaskrá sett inn á heimasíðuna okkar með viðburðum hjá okkur en ekki er allt komið þar inn enn, en það verður sett inn á jafn óðum og eitthvað er ákveðið t.d. æfingar fyrir sýningar, reiðtúr, leikjadagur með þrautum og einnig aðrir viðburðir. 

Bent var á að gott væri að senda tölvupóst á foreldra ef eitthvað nýtt kemur inná heimasíðuna varðandi starfið og ætlum við okkur að reyna að gera okkar besta í því.

Að lokum viljum við minna fólk á að ef þið hafið einhverjar hugmyndir varðandi sýningaratriði eða búninga endilega koma þeim til okkar og ef þið vitið af einhverjum sem vilja vera með þá er betra að hafa samband sem fyrst.

Og enn og aftur ítrekum við, að börnin og unglingarnir eru á ábyrgð foreldra bæði á æfingum og á sýningum sem farið er á.

Við þökkum öllum fyrir góðan fund og hlökkum til  að sjá ykkur sem flest með okkur.

Núna ættu allir að vera búnir að fá upplýsingar um sýna hópa í reiðþjálfun þannig endilega látið heyra frá ykkur ef svo er ekki.

Kveðja Æskulýðsnefndin. 

09.02.2009 12:11

Æfingar í Hvammstangahöll í dag

Í dag verða 3 æfingar í Hvammstangahöllinni,

lið 3 er með höllina frá kl. 16.00 - 18.00
lið 2 er með höllina frá kl. 18.00 - 20.00
lið 1 er með höllina frá kl. 20.00 - 22.00

Allir að mæta sem vilja æfa sig fyrir mótið emoticon

Skráning á mótið skal senda á mailið kolbruni@simnet.is fyrir miðnætti þriðjudagsins 10. febrúar. Koma þarf fram upp á hvora hönd skal riðið, nafn knapa og upplýsingar um hestinn, IS númer eða ætt, aldur og litur.

09.02.2009 08:18

ÆFING HJÁ LIÐI 1

Æfing hjá liði 1 í kvöld kl. 20 í reiðhöllinni með eða án hests. Vonumst til að sjá sem allra flesta, líka þá sem ekki ætla að keppa emoticon
Sjáumst í kvöldemoticon

04.02.2009 13:11

Fundur vegna opnun Hvammstangahallarinnar

Hvammstangahöllin verður opnuð mánudaginn 9 febrúar. Fundur verður haldinn sunnudagskvöldið 8. febrúar kl. 20.30 í félagshúsi Þyts vegna opnunarinnar.

Seld verða
kort inn í höllina sem gilda frá 9. febrúar til 1. nóvember 2009

Gj.einstaklings: 20.000.-

Hjónagjald: 30.000.-

Þar sem enginn húsvörður er í húsinu, þurfa notendur að kveikja og slökkva ljós, hreinsa eftir sig í skemmunni og ganga rosalega vel um. Korthafar þurfa að sjá um að opna húsið og loka því einhvern tímann á tímabilinu. Tímabilinu verður skipt á milli korthafa og kemur í ljós hvað það kaupa margir kort hversu marga daga hver korthafi þarf að sjá um höllina.

 Ef skipulögð dagskrá eins og mót eða sýningar eru í reiðhöllinni þá getur þessi tími minnkað sem korthafar hafa fyrir sig.

Reykingar eru bannaðar og lausir hundar eru ekki leyfðir í Reiðhöllinni - vinsamlega takið tillit til þess.

Nánari upplýsingar um stundartöflu og fl. verður komið með á fundinn.
Stjórnin

03.02.2009 13:50

Húnvetnska liðakeppnin

Viljum minna á að fyrsta mótið í Húnvetnsku liðakeppninni verður haldið í Hvammstangahöllinni 13. febrúar nk. Skráning á emeil: kolbruni@simnet.is og þarf að vera lokið þriðjudaginn 10. febrúar. Það sem koma þarf fram er knapi, hestur og upp á hvora hönd þið viljið ríða.

Ekki verður tekið við skráningum eftir 10. febrúar nema það henti mér og mínu liði (KOLLA)

Spennandi mót framundan!


Þar sem Stóra Hrísamálið er orðið mjög umfangsmikið var ákveðið að færa það á sér síðu sem er ekki á vegum Þyts. Niðurstöðu aganefndar er að vænta í dag eða á morgun:-)
www.storahrisamalid.bloggar.is

02.02.2009 11:24

Fundur

Hestamenn

Húnvetningar - Skagfirðingar - Siglfirðingar

Félagsmenn: Glæsis - Léttfeta - Stíganda - Neista - Þyts - Snarfara - Svaða

 

Landssamband hestamannafélaga (LH) býður stjórnum hestamannafélaganna og öllum áhugasömum félagsmönnum til fundar við fulltrúa LH.  Fundurinn verður haldinn föstudagskvöldið, 6. febrúar nk. kl. 20:00 í kaffistofu reiðhallarinnar Arnargerði á Blönduósi.  

 

Á fundinum munu fulltrúar LH fara stuttlega yfir þau málefni sem félagið er að vinna að

en ekki síst er  ætlunin að heyra sjónarmið hestamanna á svæðinu.

Allir áhugasamir sem láta sig málefni hestamennskunnar varða

eru hvattir til að mæta og boðnir velkomnir.

                                                                       Heitt á könnunni.                                          Stjórn LH

02.02.2009 09:12

Svellkaldar konur í Skautahöllinni

Hið vinsæla ístöltsmót kvenna "Svellkaldar konur" verður haldið í skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík laugardaginn 28. febrúar. Að þessu sinni verður boðið upp á keppni í þremur flokkum. Ekki verður boðið upp á yngri flokk þar sem sérstakt æskulýðsmót á ís mun fara fram á sama stað laugardaginn 7. mars.


Keppt verður í eftirtöldum flokkum:

1.     Opinn flokkur: Ætlaður vönum knöpum. Konur sem unnið hafa til verðlauna í keppnum eru hvattar að skrá sig í þennan flokk. Þessi flokkur er þó opinn hverjum þeim sem vill skrá sig í hann, burtséð frá reynslu.

2.     Meira keppnisvanar: Ætlaður vönum reiðmönnum sem hafa keppt nokkuð.

3.     Minna vanar: Ætlaður konum sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppni eða hafa litla keppnisreynslu.

Í 3. flokki er sýnt hægt tölt og svo fegurðartölt, en í öllum hinum flokkunum er sýnt hægt tölt, tölt með hraðabreytingum og fegurðartölt. Eingöngu er riðið upp á vinstri hönd og ekkert snúið við.
Keppendur eru hvattir til að sýna metnað við val á flokki og bent er á að þegar talað er um keppnisreynslu í þessu samhengi er átt við alls konar keppni, ekki bara keppni á ís.

Skráning verður auglýst þegar nær dregur en konur eru hvattar til að taka daginn strax frá! Allur ágóði af mótinu mun renna til landsliðsins í hestaíþróttum. Mótið er opið og allar konur 22 ára og eldri eru velkomnar til leiks!

Undirbúningsnefndin

01.02.2009 09:35

FM 2009

Mynd/www.skessuhorn.is
 
Fjórðungsmót hestamanna verður haldið á Kaldármelum fyrstu helgina í júlí í sumar. Stefnt er að því að dagskrá hefjist miðvikudaginn 1. júlí, eða á fimmtudeginum, og standi óslitið fram á sunnudag 5. júlí. Að sögn Gunnars Kristjánssonar, formanns Snæfellings sem jafnframt á jafnframt sæti í undirbúningsnefnd, er undirbúningur fyrir mótið kominn á fullan skrið.

 Nefnir hann sem nýlundu að nú er öllum hestamannafélögum í Norðvesturkjördæmi nú boðin þátttaka og hleypir það mönnum kapp í kinnar að vita af þátttöku t.d. Skagfirðinga á mótinu.

"Það er búið að skipa framkvæmdanefnd og viðræður standa yfir við væntanlegan framkvæmdastjóra mótsins. Þá er búið að taka ákvörðun um hvað á að framkvæma á sjálfu mótssvæðinu. Aðallega verður það breyting á kynbótabraut þannig að skeiðbraut verður lengd og þar fara munu kynbótadómar fara fram. Þá verður upphitunarvöllur færður til og lagfæringar gerðar á umferð um svæðið og komið á hringakstri," sagði Gunnar. Hann segir að veitinga- og salernisaðstaða verði í færanlegum húsum og tjöldum sem flutt verða á staðinn.

Það eru hestamannafélögin fimm á Vesturlandi sem standa að fjórðungsmótinu, þ.e. Dreyri, Faxi, Glaður, Snæfellingur og Skuggi. Eins og fyrr segir er búið að bjóða öllum hestamannafélögum í NV kjördæmi þátttöku og hafa þau tekið mjög vel í boðið, að sögn Gunnars. "Það er búið að funda með forsvarsmönnum þessara félaga tvisvar og mikill hugur hjá þeim að mæta. Við reiknum því með stóru móti í sumar og megum t.d. reikna með allt að 50 hrossum í hverjum flokki," segir Gunnar.

Þess má geta að hestamannafélögin hafa sent ósk um fjárstuðning til flestra sveitarfélaganna á Vesturlandi og segir Gunnar að flest ef ekki öll þeirra hafi neitað stuðningi að þessu sinni. "Við reiknum því ekki með stuðningi úr þeirri átt nú en höfum þó allar klær úti og er Gunnar Sturluson formaður framkvæmdarnefndar betri en enginn í þeirri vinnu," sagði Gunnar Kristjánsson að lokum.

 Sjá greinina á www.skessuhorn.is

Flettingar í dag: 7833
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 636
Gestir í gær: 89
Samtals flettingar: 3703449
Samtals gestir: 447775
Tölur uppfærðar: 11.12.2019 19:12:10