Færslur: 2015 Janúar

24.01.2015 19:22

Skemmtilegt námskeið um helgina

Um helgina hefur verið námskeið hjá Fanney fyrir knapa með reiðfær hross sem þurfa hugmyndir og hjálp með áframhaldandi þjálfun og til að bæta gangtegundir og þjálni reiðhestsins. Skemmtilegt námskeið sem hefur gefið knöpum meira sjálfstraust í framhaldið frá frumtamningu og upp í gangsetningu. Sex manns sóttu þetta námskeið.




fleiri myndir inn á myndasíðunni.




23.01.2015 11:52

Fyrirlestur hjá Susi

Sl miðvikudag var fyrirlestur og sýnikennsla hjá Susi ( Susanne Braun ) þar sem hún fjallaði um hnykkingar. Susi hefur vakið athygli manna með óhefðbundnum lækningaaðferðum en meðfram hefðbundnum dýralækningum stundar hún hnykkingar á hestum. Susi segir að hnykkingar reyni frekar á tækni en krafta. Til að losa læsta liði þurfi snöggt átak. Það er því ekki eins mikið mál og það virðist vera fyrir fínlega konu að hnykkja hest. Tilgangurinn með hnykkingum er sá að jafna hreyfigetuna í hryggjarliðum. 
20 manns mættu á fyrirlesturinn og fannst hann fróðlegur og skemmtilegur. Hér má sjá þrjár myndir frá kvöldinu.





20.01.2015 00:58

Viðburðir í janúar - febrúar 2015



Þá fer að styttast í fyrsta mót og framundan er fín dagskrá, námskeiðin eru öll hafin bæði barna og fullorðna. Næstu helgi er reyndar helgarnámskeið hjá Fanney fyrir knapa með reiðfær hross sem þurfa hugmyndir og hjálp með áframhaldandi þjálfun og til að bæta gangtegundir og þjálni reiðhestsins. Haffý og Fanney byrjuðu í dag með barnanámskeiðin, trec hefst á morgun hjá þeim og knapamerkin að byrja. Þórir eins og sést á fréttinni hér að neðan byrjaður með frumtamningarnámskeiðið sitt góða.

Hér á síðunni má sjá viðburðadagatal fyrir veturinn 2015: http://thytur.123.is/page/32926/ 

Næstu viðburðir hjá Þyt og á Norðurlandi vestra eru:

21. janúar - Fyrirlestur með Susi.
24. janúar - Þorrablót í Þytsheimum
4. febrúar - Skagfirska mótaröðin - fjórgangur
11.febrúar - KS deildin fjórgangur
14. febrúar - Húnvetnska liðakeppnin - smali
15. febrúar - Vinamót hestamannafélaganna á Norðurlandi f. börn á grunnskólaaldri, smali Blönduós 
18. febrúar - Firmakeppni Þyts (öskudagur)
18. febrúar - Skagfirska mótaröðin - fimmgangur
21. febrúar - Ísmót á Gauksmýrartjörn.
25. febrúar - KS deildin fimmgangur
28. febrúar - Ísmótið á Svínavatni.

19.01.2015 13:37

Frumtamningarnámskeið 2015

 

Þórir Ísólfsson er þriðja árið í röð með frumtamningarnámskeið í Þytsheimum. Hér má sjá myndir frá fyrsta verklega tímanum, en sex nemendur eru á þessu námskeiði.

 

 
 
 
 
 

18.01.2015 23:13

Æskulýðsstarfið hefst á morgun

 

Á laugardaginn var Jósefína sótt en Gúndi ætlar að lána Júlíu hana í vetur í æskulýðsstarfið. Fjögur börn hafa fengið hross eftir félagsfundinn okkar í haust þar sem við störtuðum verkefninu ,,nýliðun í hestamennsku" þar sem félagsmenn taka ,,hestabarn" í fóstur smiley algjör snilld !!

Dagskrá æskulýðsstarfsins:

Á mánudögum verður knapamerki frá kl. 15.00-15.45, síðan reiðþjálfun frá kl. 16.30 - 18.55. 

Annan hvern þriðjudag verður TREC námskeið frá kl. 16.30 - 18.05

Á miðvikudögum eru hestafimleikar frá 15.15 - 17.15

Á laugardögum kl. 11.00 - 11.45 er knapamerki 4

Á sunnudögum kl. 11.00 - 12.00 er leikskólahópurinn

 

15.01.2015 13:11

Fyrirlestur með Susanne Braun (Susi)

Miðvikudagskvöldið 21. janúar nk verður fyrirlestur og sýnikennsla með Susanne Braun um hnykkingar, fyrirlesturinn hefst klukkan 19.00 og er til 22.00 í Þytsheimum. Verð er 2.000 fyrir félagsmenn en 3.000 fyrir aðra. Skráning hjá Evu á email sigeva74@hotmail.com, lokaskráningardagur 19.01 nk.

Dr. Susanne Braun, fagdýralæknir fyrir hestasjúkdóma og IVCA kírópraktor, Susi hefur vakið athygli manna með óhefðbundnum lækningaaðferðum en meðfram hefðbundnum dýralækningum stundar hún hnykkingar á hestum. Susi segir að hnykkingar reyni frekar á tækni en krafta. Til að losa læsta liði þurfi snöggt átak. Það er því ekki eins mikið mál og það virðist vera fyrir fínlega konu að hnykkja hest. 
Tilgangurinn með hnykkingum er sá að jafna hreyfigetuna í hryggjarliðum. Í fyrirlestrinum kynnir hún hnykkingameðferð og svara nokkrum spurningum, til dæmis:
 
-Hvað gera hnykkingar fyrir hestinn?
 
-Hvað gera taugarnar fyrir líkamsstöðuna?
 
-Hvað orsakar læsingar?
 

13.01.2015 12:54

Húnvetnska liðakeppnin 2015

Reglur Húnvetnsku liðakeppninnar 2015


Sjöunda mótaröðin að hefjast í Húnvetnsku liðakeppninni. Sömu reglur og í fyrra en nú bætist barnaflokkur við eins og rætt var um á félagsfundi í haust. Engin fyrirfram ákveðin lið eru skráð til leiks, skrá þarf öll lið inn í mótaröðina, tilkynna þarf liðin til mótanefndar í síðasta lagi fyrir lokaskráningardag fyrsta móts á netfangið thytur1@gmail.com ásamt liðsstjóra liðsins.

Dagssetningar fyrir mót vetrarins eru: 14. feb smali, 6. mars fjórgangur, 20. mars fimmgangur og tölt, 17. apríl tölt. 

Reglur:

Liðakeppni:


1) Liðin þurfa að hafa nafn og sérkenni, þannig að liðsmenn þekkist.

2) Lágmark 3 í liði, ótakmarkaður fjöldi.

3) Knapar verða að vera í sama liðinu allt tímabilið, þ.e. bannað að skipta um lið á miðju tímabili. Einnig verður hver og einn knapi að velja sér hvort hann ætlar að keppa í 1. 2. eða 3. flokki í upphafi tímabils.

4) 3 efstu knapar úr forkeppni telja til stiga fyrir hvert lið, stigin eru einkunnir hvers knapa. Hver knapi getur aðeins skilað stigum fyrir sitt lið fyrir 1 hest.

5) 3 efstu knapar sem komast í úrslit í hverju liði telja til stiga.

6) 1 sæti = 10 stig, 2 sæti = 8 stig, 3 sæti = 6 stig, 4 sæti = 4 stig, 5 sæti = 2 stig, 6 sæti = 2 stig (ef B-úrslit), 7-10 = 1 stig

7) Ekki er nauðsynlegt að vera í liði til að taka þátt í mótaröðinni.

8) Flokkar; Barnaflokkur (börn fædd 2002 - 2005 ), unglingaflokkur (börn fædd 1998 - 2001), 3 flokkur, flokkur sem er ætlaður þeim sem eru að byrja að keppa eða hafa litla keppnisreynslu. 2 flokkur, fyrir þá sem hafa nokkra keppnisreynslu en eru ekki að stunda keppni að neinu ráði. 1. flokkur er ætlaður þeim sem eru mikið í keppni.

9) Hver keppandi má keppa á fleiri en einum hesti í hverri grein, en ef keppandi kemst með tvo hesta í úrslit verður hann að velja á milli þeirra og aðeins keppa á öðrum í úrslitum. Ekki hægt að fá aukaknapa til að ríða úrslit fyrir sig.

10) Í skeiði má hver knapi keppa á eins mörgum hrossum og hann vill en getur aðeins fengið stig fyrir einn hest eins og í öðrum greinum.

11) Smalinn: Riðin er braut sem mörkuð er keilum sem ná upp á síður hests. Keilurnar skulu vera þannig útbúnar að þær falli við litla snertingu. Árangurinn ræðst af brautartíma og felldum keilum. Reiknireglur eru þær sömu og í tímabraut torfærunnar. Smalinn er hrein grein í þeirri merkingu að árangurinn er mælanlegur án frávika, þ.e. hann ræðst eingöngu af tíma og felldum keilum en ekki mati dómara. Dómarar eru engu að síður til staðar og meta hvort knapinn fari gegnum öll hlið, telja felldar keilur og hafa eftirlit með reiðmennsku knapa líkt og í öðrum keppnisgreinum.

Stigin telja þannig að knapar raðast í sæti eftir besta tímanum, sá sem er fyrstur fær 300 stig, sá næsti 280, 270 o.s.frv. Við hverja fellda keilu dragast frá 14 stig. Fyrir sleppt hlið eru 28 refsistig. Yfir brúnna er ekki leyft að fara á stökki þ.e.a.s allur annar gangur er í lagi. Ef brúnni er sleppt þá er það 4x28 refsistig Gult spjald= gróf reiðmennska 30 refsistig Rautt spjald= MJÖG gróf reiðmennska ÚR LEIK!
Stigin í smala inn í liðakeppnina í forkeppni eru þannig að 300 stig gefa 6 stig, 290 - 299 stig gefa 5,8 stig, 280 - 289 stig gefa 5,6 stig, 270 - 279 stig gefa 5,4 stig osfrv.

12) Einstaklingskeppni:
1.sæti - 10 stig
2.sæti - 8 stig
3.sæti - 7 stig
4.sæti - 6 stig
5.sæti - 5 stig
6.sæti - 4 stig
7.sæti - 3 stig
8.sæti - 2 stig
9.sæti - 1 stig

13) Skráningargjöld verður að greiða inn á reikning 0159-15-200343 kt. 550180-0499 áður en mót hefst.

Einnig ætlum við að leyfa pollum að taka þátt í mótaröðinni en þeir munu ekki keppa til stiga en spreyta sig í að koma inn á völlinn og fá því að öðlast smá reynslu.

Mótanefndin

Aðalstyrktaraðili Húnvetnsku liðakeppninnar

12.01.2015 08:58

Námskeiðin að byrja

Núna eru námskeiðin að hefjast í reiðhöllinni, fyrsta námskeið vetrarins var sl helgi. Fanney var þar með nokkra nemendur  þar sem farið var  yfir liðkunar- og styrktaræfingar sem notaðar eru til þess að bæta hestinn.  

Markmið var einnig að bæta samskipti knapa og hests og fá góðar hugmyndir fyrir vetrarþjálfunina.   

  

Fanney kennari

Áhugasamir nemendur á sýnikennslu hjá Fanney föstudagskvöldið sl.

 

Frumtamningarnámskeið hefst síðan í kvöld, 12. janúar í Þytsheimum og knapamerkjanámskeiðin byrja líka í dag.

Önnur námskeið fyrir krakka hefjast 19. janúar. Hægt er að fylgjast með dagskrá hallarinnar á heimasíðu hennar: http://hvammstangahollin.bloggar.is/ 

 

 

12.01.2015 08:49

Þorrablót 24. janúar nk

Ágæta hestafólk.


ein gömul mynd af þorrablóti emoticon

Ætlum að hafa upp í Þytsheimum ,,þorrablótið okkar" laugardagskvöldið 24. janúar nk, kl. 19:00 - 23:00. Hver kemur með sinn þorramat eða mat og drykk að eigin vali og eigum saman skemmtilegt kvöld í leik og spjalli, öll fjölskyldan.

Þar sem við þurfum að greiða leigu fyrir Þytsheima verður aðgangseyrir kr. 500, - 14 ára og eldri emoticon


Hvetjum alla til að mæta á þennan fyrsta viðburð ársins.


Sjáumst hress og kát !!!


(Það kom upp sú hugmynd á félagsfundinum að hafa firmakeppnina okkar sama dag og þorrablótið, enn ekki alveg komið á hreint hvort hún verði þennan dag eða seinna. Verður auglýst hér í vikunni !!!)

07.01.2015 13:35

Frumtamningarnámskeiðið hefst mánudagskvöldið nk 12.01.2015



Frumtamningarnámskeiðið hefst mánudagskvöldið nk 12.01.2015. Kennari verður Þórir Ísólfsson. Komnir eru 2 hópar og hægt að bæta fleirum við, áhugasamir hafi samband við Evu í síma 868 2740 eða Esther í síma 661 6170 fyrir mánudaginn nk.


05.01.2015 15:35

Járningar

 

Tek að mér járningar fyrir kr. 5000- per hross. Er búsettur á Akureyri, frekari upplýsingar hjá Kristjáni í síma 845-5461

 

  • 1
Flettingar í dag: 2045
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 3243
Gestir í gær: 123
Samtals flettingar: 962873
Samtals gestir: 50328
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 14:01:13