Blogghistorik: 2011 N/A Blog|Month_11
30.11.2011 21:18
Vöru- og sölukynning
Þann 3. desember nk. verða verslanirnar Kidka og Knapinn Borgarnesi með kynningu og sölu á vörum sínum í Þytsheimum frá kl. 13:00 - 19:00. Einnig verður kynning á spæni frá Skógarvinnslunni og dagatal hestamannafélagsins til sölu frá kl. 13:00 - 16:00 .
Notið ykkur þetta tækifæri til að versla í heimabyggð. Heitt á könnunni :)
Fræðslunefnd
30.11.2011 20:24
Knapamerki I og II
Fræðslunefnd Þyts er að kanna áhuga á knapamerki I og II fyrir fullorðna. Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig á námskeið í vetur, hafið samband við Öldu í síma 847-8842
Fræðslunefnd
28.11.2011 15:51
Ný bók um reið- og gönguleiðir: 1001 þjóðleið
Jónas Kristjánsson hefur áratugum saman skrásett þjóðleiðir á Íslandi og birtist afraksturinn í þessari einstöku bók sem nú býðst félagsmönnum í hestamannafélögum á sérstöku kynningartilboði sem gildir til 1. desember næstkomandi.
Í bókinni er yfir 1.000 reið- og gönguleiðum lýst og þær sýndar á vönduðum kortum. Stafrænn diskur sem gerir kleift að hlaða leiðunum inn í GPS-tæki fylgir.
Þessi bók er sannkallaður kjörgripur fyrir alla hestamenn sem ferðast um landið!
Sendið pantanir á tölvupósti: lhhestar@sogurutgafa.is (tilgreinið nafn, heimilisfang, símanúmer, fjölda eintaka og greiðslumáta (bankamillifærsla eða kreditkort). Eða hringið í síma 557 3100.
28.11.2011 11:00
Dagatal Þyts 2012
Dagatal Þyts 2012 er komið út og er til sölu hjá Árborgu, hægt er að panta það á tölvupóstfangið: tunga2@simnet.is eða í síma 863-6016. Dagatalið kostar kr. 2.000 og er það prýtt myndum frá félagsmönnum ásamt því að helstu viðburðir ársins hjá hestamannafélaginu koma þar fram.
Dagatalið verður svo til sölu upp í reiðhöll 3. des nk. þegar Knapinn og Kidka verða með vörukynningu. Einnig er hægt að nálgast það hjá Dóra og Kollu í Landsbankanum.
27.11.2011 21:57
Hestafimleikar í Landanum
Í Landanum á RÚV núna í kvöld var viðtal við Irinu og Kathrin Schmitt um hestafimleikana. Skemmtilegt viðtal og má sjá það hér.
25.11.2011 22:05
Hesthúsahverfið
Ekki er mikið um hross í hesthúsahverfinu á Hvammstanga þessa dagana, Alda er með hross inni í hesthúsinu hjá Þórdísi, Steina, Gullu og Hjálmari. Leifur var að temja upp í hverfi í haust en er nú farinn til Agnars og Birnu að vinna, þangað til hann fer á Hóla eftir áramót. Önnur hús eru tóm en fólk er samt að undirbúa komu gæðinganna. Í Glaðheimum er verið að klæða húsið að utan. Halli, Bára, Hrannar og Selma eru að byggja nýtt hesthús og er það orðið fokhelt. Í Aðalbóli er búið að vera að taka allt í gegn, fyrir framan kaffistofuna var lagt í gólfin og gerð baðaðstaða fyrir hestana. Ritari síðunnar frétti að einhverjir kappar í Aðalbóli ætli svo að taka inn á sunnudaginn.
Reiðveganefnd hestamannafélagsins eða Gúndi er svo á fullu að skipuleggja og gera nýjan reiðveg frá afleggjaranum að Helguhvammi og meðfram veginum að vatnstankinum. Einnig verður gerð tenging frá reiðvegi að reiðhöll. Stjórn reiðhallarinnar er svo að fara að setja upp nýju ljósin í reiðhöllina og hefst sú vinna á mánudaginn.
22.11.2011 15:30
Vöru- og sölukynning
Þann 3. desember nk. verðar verslanirnar Kidka og Knapinn Borgarnesi með kynningu og sölu á vörum sínum í Þytsheimum frá kl. 13:00 - 19:00. Notið ykkur þetta tækifæri til að versla í heimabyggð, nánar auglýst síðar.
Fræðslunefnd
20.11.2011 21:42
Helga og Hlynur temja myrkranna á milli
tv. Milla Moladóttir og Djásn Geisladóttir dunda sér í gerðinu eftir lærdómsríkan dag.
th. Hula frá Fremri-Fitjum
Helga og Hlynur eru með hross í Mörk og á Höfðabakka. Líf og fjör og nóg að gera segja þau sem er vel. Hlynur vinnur myrkranna á milli í hesthúsinu en Helga vinnur fyrir hádegi virka daga á Leikskólanum Ásgarði en eftir hádegi taka hestarnir við. Þau eru með 22 hross núna í augnarblikinu, og eru með hross og aðstöðu í Mörk og einnig á Höfðabakka. Af þessum eiga þau sjálf 8 tryppi sem eru að fara út fljótlega, sem þau hafa verið að gera reiðfær og önnur koma inn í staðinn.
Meðal hrossa sem eru inni eru 3 stóðhestar sem eru allir á 4. vetur, þeir eru undan Stefni frá Kópavogi, Feld frá Hæli og Geisla frá Fremri-Fitjum. Helga segir að þau séu með mjög lofandi tryppi undan spennandi stóðhestum og má þar nefna: Mola frá Skriðu, Kjarna frá Þjóðólfshaga, Hvin frá Egilstaðakoti, Geisla frá Fremri-Fitjum, Álfi frá Selfossi, Krafti frá Bringu, Þristi frá Feti, Klett frá Hvammi og mörgum fleirum.
Einnig eru þau inni með litla snót sem missti móður sína snemma í haust en það er hún Hula frá Fremri-Fitjum, og var hún tekin inn til að hafa forskot á hin folöldin. ,,Hún vekur mikla lukku og heilsar okkur á hverjum dagi með krúttlegu hneggji, og er mjög skemmtilegt að hafa hana hjá okkur" segir Helga.
Í Mörk hafa Helga og Hlynur verið með hrossin frá því í vor og verða þar áfram í vetur og einnig með eitthvað á Höfðabakka eins og áður hefur komið fram. ,,Okkar hægri hönd Tryggvi Rúnar var plataður fyrir stuttu til að laga gerðið í Mörk, okkur til mikillar gleði. Skemmtanastjórinn Sverrir Sig sér um að halda uppi fjörinu á Höfðabakka, OOOg ekki má gleyma Bústjóranum sjálfum en það ku vera meistarinn Sigurður Björn" segir Helga og þau hlakka til að takast á við verkefni vetrarins :)
Nánar er hægt að fylgjast með okkur á www.123.is/fremri-fitjar
15.11.2011 20:58
Fullt hús á Hrísum 2
15.11.2011 20:39
Viðburðadagatal 2012
Mótanefnd Húnvetnsku liðakeppninnar og stjórn Þyts vill líka þakka fyrir góðan fund í gærkvöldi.
14.11.2011 23:00
Enn frekar rólegt á Bessastöðum.
Magnús Björn fær að taka þátt í hrossaræktinni þó hann vilji ekki á bak. Hér er hann að gera við girðingu útigangshrossanna.Hugsun og Mjölnir frá Bessastöðum gefa góð ráð.
Fríða Rós er að temja Tönju sem við fengum lánaða handa henni frá Gauksmýri.
Það ríkir mikil hamingja á þeim vígstöðvum.
14.11.2011 08:24
Fundur um Húnvetnsku liðakeppnina 2012
Fyrirhugaðar dagssetningar fyrir mótaröðina 2012 eru:
10. febrúar - Fjórgangur
25. febrúar - Smali og skeið á Blönduósi
16. mars - Fimmgangur og tölt unglinga
14. apríl - Tölt
Einnig mun fræðslunefnd Þyts fara yfir vetrarstarfið.
Mótanefnd Húnvetnsku liðakeppninnar og fræðslunefnd Þyts.
12.11.2011 13:57
Tamningar hafnar í Grafarkoti
11.11.2011 16:27
Viðtal við Helgu Rún hjá Eiðfaxa
Helga Rún stigahæsti unglingur Þyts
Fréttaritari Eiðfaxa tók viðtal við Helgu Rún á Bessastöðum. Viðtalið má sjá á heimasíðu Eiðfaxa og hér að neðan.
Helga Rún Jóhannsdóttir, er 15 ára hestakona frá Bessastöðum í Húnaþingi vestra. Hún var á dögunum heiðruð sem knapi ársins í unglingaflokki á Uppskeruhátíð hjá hestamannafélaginu Þyt, enda var hún dugleg að keppa á félagsmótum sl. ár, þar sem hún kom fram með marga ólíka hesta í eigu og úr ræktun fjölskyldu sinnar á Bessastöðum. Helga Rún hefur stundað hestamennsku frá blautu barnsbeini. Henni finnst lærdómsríkt að vinna með þjál og viljug hross og hefur einstaklega gaman að því að leggja á skeið. Þó Helga Rún stefni að því að verða bakari í framtíðinni ætlar hún sér þó að iðka hestamennskuna af fullum krafti og rækta hross í smáum stíl.
09.11.2011 20:56
Allt komið á fullt á Lækjamóti
Kvaran frá Lækjamóti og Kristófer frá Hjaltastaðahvammi.
Ritari Þytssíðunnar ætlar næstu daga að kíkja á tamningastöðvar og fleira á svæðinu. Á Lækjamóti er allt komið á fullt hjá Vigdísi og Ísólfi, þau verða með 18 hross á húsi í vetur. Um næstu helgi verða þau öll komin inn. Þórir tekur svo inn í desember og þá bætast 10-12 við.
- 1
- 2