07.11.2009 10:17

Knapar ársins í barna- og unglingaflokki 2009Í gær var uppskeruhátíð Æskulýðsnefndarinnar og mun koma skýrsla frá þeim hér inn á síðuna fljótlega.

En stjórn Þyts afhenti verðlaun fyrir knapa ársins í barna- og unglingaflokki. Knapi ársins í barnaflokki er Kristófer Smári Gunnarsson og knapi ársins í unglingaflokki er Fríða Marý Halldórsdóttir.

Kristófer Smári Gunnarsson var duglegur á keppnisvellinum á árinu, hann vann tölt í barnaflokki á Blönduósi í Húnvetnsku liðakeppninni, varð annar í tölti á Grunnskólamótinu, vann Fjórgang barna í Húnvetnsku liðakeppninni, var í 3. sæti í barnaflokki á Gæðingamóti Þyts og keppti á Fjórðungsmótinu. Kristófer vann Fjórgang barna og varð annar í tölti á Íþróttamóti Þyts.

Fríða Marý Halldórsdóttir stóð sig mjög vel á árinu, á Fjórðungsmótinu endaði hún önnur í tölti 17 ára og yngri eftir keppni í bráðabana um sigurinn. Í Húnvetnsku liðakeppninni var Fríða fimmta í tölti. Í Grunnskólamótaröðinni vann Fríða 4 - gang á tveimur mótum og lenti í 3. sæti í skeiði. Á Gæingamóti Þyts varð hún önnur í Unglingaflokki og vann tölt 17 ára og yngri. Á íþróttamóti Þyts varð hún fjórða í 4-gangi og á Unglingalandsmótinu í fimmta sæti í 4- gangi.


Þytskrakkarnir stóðu sig annars frábærlega mörg á árinu og hér er að neðan má sjá árangur þeirra á stærri mótum ársins.

Á Fjórðungsmótinu komst í barnaflokki Helga Rún Jóhannsdóttir í úrslit á Herði frá Varmalæk og enduðu þau í 7. sæti. Í tölti 17. ára og yngri stóð Fríða Marý Halldórsdóttir sig frábærlega en hún keppti í bráðabana um sigurinn. Endaði svo önnur á honum Sóma frá Breiðabólsstað. Eydís Anna Kristófersdóttir og Þokki frá Blönduósi komust einnig í A-úrslit í töltinu og enduðu í 4. sæti. Þrjár dömur úr Þyti komust svo í B-úrslit í töltinu en það voru Jónína Lilja Pálmadóttir og Hvönn frá Syðri Völlum og enduðu þær í 7. sæti, Theódóra Dröfn Skarphéðinsdóttir endaði í 8. sæti og Rakel Rún Garðarsdóttir og Hrókur frá Stangarholti enduðu í 10. sæti. Í ungmennaflokki kom sá og sigraði hún Helga Una okkar á Karitas frá Kommu með einkunnina 8,57. Á mótinu hlaut Helga einnig reiðmenntunarverðlaun Félags tamningamanna fyrir glæsilegan árangur.  Helga Una er eins og allir vita afar efnilegur knapi sem á bjarta framtíð fyrir sér.


Á Unglingalandsmótinu á Sauðárkróki endaði Jónína Lilja Pálmadóttir í 2. sæti í tölti unglinga, Fríða Marý Halldórsdóttir í 5. sæti í 4-gangi unglinga, Lilja Karen Kjartansdóttir í 3. sæti í tölti og 5. sæti í 4-gangi barna.

Á Íslandsmóti barna, unglinga og ungmenna, keppti Helga Una Björnsdóttir í 4-gangi og 5-gangi. Helga keppti á Hljómi frá Höfðabakka í 4-gangi og enduðu þau í 7. sæti og í 5-gangi keppti Helga á Abbadís frá Feti og enduðu þær í 6. sæti.

Myndir á heimasíðu Hvammstangabloggsins má sjá hér.

Flettingar í dag: 223
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 2240
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 3797940
Samtals gestir: 459186
Tölur uppfærðar: 25.2.2020 12:15:52