Færslur: 2014 Janúar

31.01.2014 23:20

Svínavatn 2014

Laugardaginn 1. mars  verður mótið haldið á Svínavatni í A-Hún.

Keppt  verður í A og B flokki gæðinga og opnum flokki í tölti. Fyrirkomulag með svipuðu sniði og verið hefur undanfarin ár og verða nánari upplýsingar birtar þegar nær dregur á hestanetmiðlum og á heimasíðu mótsins. 

27.01.2014 10:34

Fundur




Fundur um Húnvetnsku liðakeppnina, fimmtudagskvöldið 30. janúar kl. 21.00 í félagshúsi Þyts. Farið verður yfir nýjar reglur keppninnar og fleira. Vonandi sjáum við sem flesta.


Mótanefnd Húnvetnsku liðakeppninnar

aðalstyrktaraðili Þyts

24.01.2014 23:13

Tjarnartölti frestað


 

Ákveðið hefur verið að fresta ísmótinu sem halda átti á morgun 25. janúar vegna dræmrar þátttöku. Mótið verður haldið laugardaginn 15. febrúar í staðin kl. 13.00.
 

Takið daginn frá, ekkert skemmtilegra en að ríða út á ís. Hlökkum til að sjá ykkur :)

22.01.2014 22:46

Meistaradeildin!

Eins og flestir vita hefst Meistaradeildin í hestaíþróttum fimmtudagskvöldið 23.1.2014 en þar er Ísólfur okkar að keppa. 

Af þessu tilefni ætlar Kaffi Sveitó í Dæli að sýna frá meistaradeildinni frá klukkan 19:00. 

Komum nú saman og styðjum okkar mann!

20.01.2014 15:42

Tjarnartölt 2014

Frá mótinu í fyrra.

 

Sveitasetrið Gauksmýri og Hestamannafélagið Þytur halda sameiginlega ísmót á Gauksmýrartjörn laugardaginn 25. janúar nk og hefst mótið kl 12:30. Ísinn er spegilsléttur að sögn Jóhanns  svo nú er um að gera að skrá á fyrsta mót ársins.

 

Keppt verður í tölti í 3 flokkum:

1.  1.flokki

2.  2.flokki

3.  Barna og unglingaflokki.

5 keppendur í úrslit í öllum flokkum.

 

Riðið verður ein ferð á hægu tölti, 2 ferðir hraðabreytingar og 1 ferð hratt tölt.
 

Einnig verður keppt í unghrossaflokki ef næg þátttaka næst, en það eru hross fædd á árunum 2008 til 2010 sem eiga þátttökurétt. Þetta verður 4 ferðir (2 fram og til baka), frjáls reið.

 


Skráning  á netfangið thytur1@gmail.com . Lokaskráningardagur er  föstudagurinn 24. janúar, skráningargjald er 1.000.- fyrir fullorðna hver skráning en 500 hver skráning fyrir börn og unglinga. Skráningargjald má leggja inn á 0159-26-001081 kt. 550180-0499.

 

Nánari upplýsingar hjá Jóa í síma 869-7992

Hægt að koma hestum í hús á Gauksmýri meðan húsrúm leyfir.

 

Veitingasala verður í veitingasalnum á Gauksmýri.


 


Ef fella þarf mótið niður vegna veðurs birtist það á heimsíðu Þyts á laugardagsmorgun.

                                                                             

Sveitasetrið Gauksmýri og Hestamannafélagið Þytur

18.01.2014 15:36

Námskeið!

Helgarnámskeið 14.-15. Febrúar 2014

Almennt reiðnámskeið - Taumsamband - Áseta og stjórnun.

Staðsetning: Reiðhöllin á Hvammstanga

Sýnikennsla og spjall föstudagskvöldið 14. febrúar Kl. 20:00

Laugardagur: byrjar kl. 09:30. Hóptími, 3-4 saman fyrir hádegi í 50 mín. (fer eftir fjölda á námskeiði).

Einkatími 30 mín, byrjað kl. 13:00. Öllum sem eru á námskeiðinu heimilt að fylgjast með hvort öðru.

Verð: 10.000 kr. á mann

Kennari: Fanney Dögg Indriðadóttir reiðkennari.

Skráning og nánari upplýsingar hjá Maríönnu (mareva@simnet.is) í síma 896 3130 og Öldu í síma 847 8842, fyrir miðvikudaginn 12.febrúar.

 

Ef áhugi er fyrir hendi  getum við einnig boðið upp á frumtamningarnámskeið eins og var í desember síðastliðnum,  í umsjón Þóris Ísólfssonar reiðkennara.  Námskeiðið er 12 tímar; 2 bóklegir og 10 verklegir. Verð: 30.000 kr.  Hafið bara samband við okkur og þegar nægur fjöldi er kominn þá skellum við því í gang. smiley

 

12.01.2014 23:06



Reglur Húnvetnsku liðakeppninnar 2014

Sjötta mótaröðin að hefjast í Húnvetnsku liðakeppninni. Mótanefndin ákvað að breyta til í ár, bæði í sambandi við stigagjöfina og liðin. Taka upp stigagjöf sem er að mestu eins og er í KB mótaröðinni í Borgarnesi. Við fengum upplýsingar hjá aðila í mótanefndinni þar og okkur leyst vel á þessa leið. Einnig verður hægt að bæta við fleiri liðum í keppnina ef áhugi er fyrir því, þ.e.a.s ef fólk skipta sér í minni og fleiri lið er það núna möguleiki. En ef það myndast ekki nægilega mörg lið, ætlum við að bjóða upp á lið 1, 2 og 3 eins og þau hafa verið hingað til. Setjum þetta bara í ykkar hendur og sjáum hvernig málin þróast. Bæjarkeppnin verður ef liðin verða bara þrjú en ef liðin verða fleiri og minni þá sleppum við henni.

Reglur:

Liðakeppni:


1) Liðin þurfa að hafa nafn og sérkenni, þannig að liðsmenn þekkist.

2) Lágmark 3 í liði, ótakmarkaður fjöldi.

3) Knapar verða að vera í sama liðinu allt tímabilið, þ.e. bannað að skipta um lið á miðju tímabili. Einnig verður hver og einn knapi að velja sér hvort hann ætlar að keppa í 1. 2. eða 3. flokki í upphafi tímabils.

4) 3 efstu knapar úr forkeppni telja til stiga fyrir hvert lið, stigin eru einkunnir hvers knapa. Hver knapi getur aðeins skilað stigum fyrir sitt lið fyrir 1 hest.

5) 3 efstu knapar sem komast í úrslit í hverju liði telja til stiga.

6) 1 sæti = 10 stig, 2 sæti = 8 stig, 3 sæti = 6 stig, 4 sæti = 4 stig, 5 sæti = 2 stig, 6 sæti = 2 stig (ef B-úrslit), 7-10 = 1 stig

7) Ekki er nauðsynlegt að vera í liði til að taka þátt í mótaröðinni.

8) Flokkar; Barna og unglingaflokkur 17 ára og yngri (börn fædd 1997 og seinna), 3 flokkur, flokkur sem er ætlaður þeim sem eru að byrja að keppa eða hafa litla keppnisreynslu. 2 flokkur = fyrir þá sem hafa nokkra keppnisreynslu en eru ekki að stunda keppni að neinu ráði. 1. flokkur er ætlaður þeim sem eru mikið í keppni.

9) Hver keppandi má keppa á fleiri en einum hesti í hverri grein, en ef keppandi kemst með tvo hesta í úrslit verður hann að velja á milli þeirra og aðeins keppa á öðrum í úrslitum. Ekki hægt að fá aukaknapa til að ríða úrslit fyrir sig.

10) Í skeiði má hver knapi keppa á eins mörgum hrossum og hann vill en getur aðeins fengið stig fyrir einn hest eins og í öðrum greinum.

11) Smalinn: Riðin er braut sem mörkuð er keilum sem ná upp á síður hests. Keilurnar skulu vera þannig útbúnar að þær falli við litla snertingu. Árangurinn ræðst af brautartíma og felldum keilum. Reiknireglur eru þær sömu og í tímabraut torfærunnar. Smalinn er hrein grein í þeirri merkingu að árangurinn er mælanlegur án frávika, þ.e. hann ræðst eingöngu af tíma og felldum keilum en ekki mati dómara. Dómarar eru engu að síður til staðar og meta hvort knapinn fari gegnum öll hlið, telja felldar keilur og hafa eftirlit með reiðmennsku knapa líkt og í öðrum keppnisgreinum.

Stigin telja þannig að knapar raðast í sæti eftir besta tímanum, sá sem er fyrstur fær 300 stig, sá næsti 280, 270 o.s.frv. Við hverja fellda keilu dragast frá 14 stig. Fyrir sleppt hlið eru 28 refsistig. Yfir brúnna er ekki leyft að fara á stökki þ.e.a.s allur annar gangur er í lagi. Ef brúnni er sleppt þá er það 4x28 refsistig Gult spjald= gróf reiðmennska 30 refsistig Rautt spjald= MJÖG gróf reiðmennska ÚR LEIK!
Stigin í smala inn í liðakeppnina í forkeppni eru þannig að 300 stig gefa 6 stig, 290 - 299 stig gefa 5,8 stig, 280 - 289 stig gefa 5,6 stig, 270 - 279 stig gefa 5,4 stig osfrv.

12) Einstaklingskeppni:
1.sæti - 10 stig
2.sæti - 8 stig
3.sæti - 7 stig
4.sæti - 6 stig
5.sæti - 5 stig
6.sæti - 4 stig
7.sæti - 3 stig
8.sæti - 2 stig
9.sæti - 1 stig

13) Skráningargjöld verður að greiða inn á reikning 0159-15-200343 kt. 550180-0499 áður en mót hefst.

Ný lið þarf að tilkynna til mótanefndar í síðasta lagi sunnudaginn 26. jan nk. Á móti skráningum tekur Þórdís á netfang: rettarh6@simnet.is Ef ykkur vantar frekari upplýsingar er hægt að hringja í síma 867-3346, liðin þurfa að hafa nafn og einhvern liðsstjóra.

Dagssetningar fyrir mót vetrarins eru: 8. feb fjórgangur, 22. feb smali/skeið, 15. mars fimmgangur/tölt 5. apríl tölt.

Mótanefndin

11.01.2014 19:06

Ísólfur íþróttamaður ársins í Húnaþingi


Á myndinni eru, frá vinstri talið, Ísólfur, Guðrún Gróa og Salbjörg Ragna.

Kjöri íþróttamanns USVH (Ungmennasambands Vestur-Húnavatnssýslu) var lýst í Íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga, þann 28. desember sl. Íþróttamaður USVH í Húnaþingi vestra árið 2013 var kjörinn Ísólfur Líndal Þórisson hestaíþróttamaður frá Lækjamóti í Víðidal en hann hlaut 50 stig í kjörinu. Innilega til hamingju Ísólfur.

Í öðru sæti varð Salbjörg Ragna Sævarsdóttir körfuknattleikskona hjá Umf. Njarðvík með 26 stig og í þriðja sæti Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir körfuknatleikskona hjá Umf. Snæfelli með 22 stig. Verðlaunahafar hlutu eignarbikara og Ísólfur farandbikar auk styrks frá Landsbankanum á Hvammstanga.

Ísólfur sem keppir fyrir Hestamannafélagið Þyt hefur á undanförnum árum skipað sér í raðir bestu hestamanna landsins. Árið 2013 var honum farsælt á keppnisbrautinni og keppti hann á mörgum mótum með frábærum árangri og hlaut Ísólfur titilinn gæðingaknapi ársins 2013 á Uppskeruhátíð hestamanna á landsvísu. Árangur Ísólfs á árinu er mjög góður og hæst ber eftirfarandi:

 Ísólfur var langstigahæsti knapi ársins hjá Þyt og fékk hvorki meira né minna en 782 stig . (í fyrra 441 stig)

 Hann var sigurvegari í B-flokki gæðinga á Fjórðungsmótinu á Vesturlandi, en Ísólfur kom 3 hestum í úrslit í þeim flokki.

 Á Íslandsmótinu varð hann níundi í fimmgangi og fimmti í tölti og fjórgangi. Semsagt í A-úrslitum.

 Í Meistaradeild Norðurlands sigraði hann fjórgang og fimmgang, varð annar í tölti, fimmti í T2 (slaktaumatölt), fjórði í skeiði og endaði meistaradeildina með að vera stigahæsti knapinn.

Íþróttamenn USVH geta orðið þeir íþróttamenn 16 ára og eldri sem lögheimili eiga í Húnaþingi vestra eða keppa undir merkjum félaga innan USVH.

Það eru stjórnarmenn í aðildarfélögum USVH og stjórn USVH sem kjósa íþróttamanninn.

heimild: nordanatt.is






10.01.2014 10:33

Reiðnámskeið fyrir börn og unglinga

Skráningarfrestur á reiðnámskeiðin fyrir börn og unglinga er að renna út. Endilega skrá sig þeir sem vilja vera með á skemmtilegum námskeiðum í vetur. Námskeiðskostnaður fyrir 10 tíma námskeið er 6.000 kr. Byrja um mánaðamótin janúar/febrúar.

 

 

Svo eru komnar myndir í myndaalbúm heimasíðunnar af Þrettándagleðinni, sem var haldin inni vegna leiðinda veðurs.

05.01.2014 20:44

Þrettándagleðin í Reiðhöllinni

 

Vegna óhagstæðrar veðurspár ætlum við að hafa þrettándagleðina í reiðhöllinni á morgunn.

Það verður því engin skrúðganga um Hvammstanga, heldur verður skrúðganga inni í reiðhöllinni, er það ekki eitthvað?

 

Hittumst í reiðhöllinni Þytsheimum á morgunn kl. 17:00, kveðjum jólin og gleðjumst yfir nýju ári.

04.01.2014 23:48

Dagatal Þyts 2013



Dagatal Þyts hefur verið til sölu síðan í lok nóvember, enn eru eintök til sölu, stk kostar 2.000, þeir sem vilja dagatöl endilega hafið samband við Vigdísi í síma 895-1146 eða Kollu í síma 863-7786. Einnig hægt að fá þau í Landsbankanum og svo verða þau til sölu á þrettándagleði Þyts á mánudaginn.
Svo þið sem eigið eftir að kaupa, endilega drífið í því og styrkið félagið í leiðinni :)

04.01.2014 10:59

Þrettándagleði

 

Þrettándagleði verður haldin mánudaginn 6. janúar nk. kl. 17:00

Farið verður frá Pakkhúsplani KVH á Hvammstanga kl: 17:00. Álfakóngur, álfadrottning, hirðmeyjar ásamt Grýlu, Leppalúða og jólasveinum leiða gönguna upp í reiðhöllina Þytsheima. Stoppað verður við sjúkrahúsið og sungnir áramótasöngvar.
Í Þytsheimum munu jólasveinar, Grýla og Leppalúði syngja og tralla með okkur og börnunum boðið á hestbak.


Foreldrar barna í æskulýðsstarfinu bjóða upp á kökur og brauðmeti og veitinganefnd Þyts býður upp á kaffi og kakó.

Vonumst til að sjá sem flesta á hestum og gangandi og eigum góða stund saman.


Kveðja Æskulýðsnefnd Þyts.

 

 

Ps: ef veðurútlit verður vont gæti dagskráin breyst, það verður þá auglýst

á heimasíðu Þyts: thytur.123.is


 Ágætu íbúar vinsamlegast skjótið EKKI upp flugeldum á meðan gangan fer fram, þar sem hross geta auðveldlega fælst og valdið slysum.

 

  • 1
Flettingar í dag: 292
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 908069
Samtals gestir: 48704
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 08:06:33