13.07.2010 21:59

Reynir í viðtali hjá Eiðfaxa

Eiðfaxi sló á þráðinn til Reynis Aðalseinssonar til að fá fréttir og fræðast meira um námið Reiðmaðurinn sem hefur verið í gangi við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskólans, Landsambands Hestamannafélaga og Félags hrossabænda. 

Námið sem má taka með vinnu er hugsað fyrir áhugafólk eldra en 16 ára sem hefur áhuga á að bæta sína reiðmennsku og þekkingu á hrossarækt. Verkleg kennsla fer fram ca. eina helgi í mánuði frá september og fram í apríl. Bóklegt nám er tekið samhlið í gegnum námsvef skólans. Reiðmaðurinn var boðinn fram fyrst árið 2008 og útskrifaðist sá hópur í vor. Nú í haust verður námið boðið fram á fimm nýju stöðum, þ.e. á Héraði, Akureyri, Borgarnesi, Hafnarfirði og Flúðum. En fyrir eru námshópar á Hellu og í Hestamiðstöðinni Dal sem væntanlega útskrifast næsta vor. Fjölmargir kennarar koma að verklegri kennslu en ábyrgðarmaður námsins er tamningameistarinn Reynir Aðalsteinsson.

En heyrum hvað Reynir hefur að segja um námið og kennsluna:

"Fólk er misjafnlegs statt þegar það byrjar og má segja að það sé öll flóran sem kemur.  Fyrsta hluta námsins köllum við hestamennsku þá er meðal annars farið í andlega þáttinn, umgengni við hestinn og líkamstjáningu. Svo eru hlutir eins og taumhringsvinna, áseta og lögð áhersla á að kenna nemandanum að ná valdi á stefnu og hraða sem oft getur reynst erfitt þeim sem hafa bara riðið frjálslega eftir beinum vegi. Nú hlutir eins og taumsamband, söfnun eru kenndir þegar þar að kemur og svo er kynbótaþátturinn tekinn fyrir þegar líður á námið."

"Hestarnir sem fólk hefur undir höndum eru teknir út í byrjun og ef þeir eru ekki heppilegir er nemanda leiðbeint um hvernig hest það þarf að útvega sér til þess að fá sem mest út úr náminu, þó ekki séu gerðar kröfur um að fólk hafi þrautþjálfuðum keppnishestum yfir að ráða." 

"Brottfall úr náminu hefur verið sáralítið og þeir sem eru búnir með brautina hafa flestir áhuga á að læra enn meira enda er í burðarliðnum hjá okkur framhaldsnám fyrir þann hóp."

Hvað telur þú að fólk hafi fyrst og fremst fengið út úr náminu ?

"Námið reynist þeim dýrmætt sem vilja bæta sig sem hestamenn og sína reiðmennsku, margir hafa áhuga á að taka þátt í keppni en hafa ekki talið sig hafa þekkingu og reynslu til þess en í gegnum námið eru nemendur undirbúnir fyrir það. Hluti af náminu er keppni sem er sett upp og er það mjög vinsælt enda er það alltaf gaman að keppa við þá sem eru á svipuðu róli og maður sjálfur."

"Fyrir áhugafólk um hrossarækt er námið mjög gott, fólk lærir að meta gripina og byggja upp og undirbúa hrossin fyrir kynbótadóm, hvort sem það sýnir það sjálft eða fær til þess atvinnufólk."

"Einnig finnst fólki mikils um vert að hafa markmið, geta smátt og smátt fært sig skörinni hærra með kennsluna sem bakhjarl, flestir vilja halda áfram, námið verður partur af tilverunni og nýr heimur opnast í hestamennskunni."

Við þökkum Reyni fyrir spjallið og upplýsingarnar um þennan spennandi möguleika sem hestafólki gefst kostur á að notfæra sér. 

Reynir er maður sem hiklaust má kalla guðföður íslenskrar reiðmennsku. Ferill hans sem reiðkennara, tamningamanns, keppanda, ræktanda og hestamanns í víðustum skilningi þess orðs er glæsilegur og fáir sem búa yfir meiri reynslu og þekkingu á íslenska hestinum og reiðmennsku. Það má því með sanni segja að það sé sannkallaður happafengur fyrir nemendur að fá að njóta leiðsagnar manns á borð við Reyni.


www.eidfaxi.is
Flettingar í dag: 192
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 557
Gestir í gær: 84
Samtals flettingar: 3880744
Samtals gestir: 470151
Tölur uppfærðar: 30.5.2020 11:38:06