29.03.2012 14:35

Stóðhestaveislan
Hin árlega stórsýning stóðhestanna "Stóðhestaveislan" fer fram í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki á laugardagskvöldið kemur, 31. mars og hefst kl. 20. Á fjórða tug stóðhesta mun koma fram ásamt mörgum knáum knöpum.

Forsala miða verður á stórsýningu Þyts annaðkvöld í sjoppunni og hjá Dóra Fúsa. Miðaverð er kr. 3.000 í forsölu, en kr. 3.500 við innganginn. Innifalið í miðaverðinu er stórglæsileg stóðhestabók, 370 blaðsíður að stærð þar sem kynntir eru 310 stóðhestar víðs vegar af landinu.

Hestarnir sem koma fram verða kynntir dagana fram að sýningu og hér fáum við fyrsta skammtinn:

Fursti frá Stóra-Hofi, sá mikli gæðingur, mun mæta til leiks ásamt afkvæmum sem spennandi verður að sjá. Fursti hlaut einmitt sinn hæsta dóm á Vindheimamelum og á því góðar minningar úr Skagafirðinum þar sem hann landaði m.a. 9.0 fyrir tölt, skeið og vilja/geðslag.

Heimahesturinn Kristall frá Varmalæk kemur fram, en hann er undan gæðingamóðurinni Kolbrúnu Hrafnsdóttur frá Sauðárkróki og Smárasyninum Kjarna frá Varmalæk. Þá mun fótaburðarhesturinn Stimpill frá Vatni láta sjá sig, en samkvæmt öruggum heimildum úr Dölunum hefur hann aldrei verið betri. Krákssonurinn Íslendingur frá Dalvík kemur líka á Krókinn en sá foli er stórættaður svo ekki sé meira sagt og á móðurmegin þau Þorra frá Þúfu og ofurhryssuna Söndru frá Bakka að afa og ömmu. Sannarlega spennandi blanda þar sem fróðlegt verður að berja augum.

Hringur frá Skarði kemur fram með sómaknapanum Heklu Katharínu Kristinsdóttur sem á síðasta ári sýndi hann í 9.0 fyrir skeið og vilja/geðslag meðal annars. Hringur var níundi í flokki 5v hesta á LM 2011, undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Móu frá Skarði.

Síðasti hesturinn sem við kynnum í þessu holli er svo Helgi frá Neðri-Hrepp, Keilissonur, undan Gustsdótturinni Glettu frá Neðri-Hrepp, en Gustur frá Hóli verður einmitt heiðurshestur sýningarinnar fyrir norðan og munu gleðja gesti með nærveru sinni.

Semsagt - spennandi sýning framundan! Tryggið ykkur miða með afslætti í forsölu - í fyrra var uppselt og mikil gleði :)

Flettingar í dag: 427
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 840
Gestir í gær: 221
Samtals flettingar: 3693169
Samtals gestir: 447180
Tölur uppfærðar: 6.12.2019 10:00:51