30.10.2012 15:45

Sigríður Ólafsdóttir ver meistararitgerð sína

Föstudaginn 2. nóvember n.k. mun Sigríður Ólafsdóttir verja meistararitgerð sína um söluverðmæti íslenskra hrossa við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Athöfnin hefst kl. 14 og verður í Ásgarði. Leiðbeinendur eru Þorvaldur Kristjánsson og Daði Már Kristófersson. Prófdómari er Sveinn Agnarsson, Háskóla Íslands. Helsta takmark búfjárræktar er að auka arðsemi ræktunarstofnsins með því að bæta eiginleika hans. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvaða eiginleikar íslenskra hrossa eru verðmætastir í ræktun. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Annars vegar að safna gögnum um eiginleika og söluverð einstakra hrossa til að meta hvernig mismunandi eiginleikar hafa áhrif á verð. Hins vegar að kanna hagfræðilegt vægi þeirra eiginleika sem eru innifaldir í kynbótamati fyrir íslensk hross og bera saman hagfræðilegt vægi og núverandi vægi þessara eiginleika. http://www.lbhi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6374Rannsóknin fór þannig fram að gögnum var safnað frá hrossabændum víðs vegar um land um seld hross á árunum 2006-2009. Send voru út eyðublöð til útfyllingar, eitt fyrir hvert selt hross, þar sem ræktendur gáfu seldum hrossum einkunn fyrir gangtegundir og sköpulag. Einnig var safnað upplýsingum um aldur, kyn, lit, hvort hrossið var selt innanlands eða erlendis, hvort hestar voru stóðhestar eða geldingar, hver BLUP einkunn hrossanna var, hvort þau voru sýnd eða ekki og hvort þau höfðu tekið þátt í keppni eða ekki, hvort þau voru tamin eða ekki, hvernig skapgerðareiginleikar hestsins voru, fjölda mánaða í tamningu, kynbótadómseinkunn föður og móður ásamt kynbótadómseinkunn einstaklinga sem voru sýndir. Niðurstöður verðlagsgreiningar sýndu að búaáhrif voru langstærsti áhrifavaldur á verð hrossa. Brokk, vilji og geðslag, háls, herðar og bógar og BLUP einkunn höfðu jákvæð áhrif á verð, ásamt því að stóðhestar voru verðlagðir hærra en hryssur og geldingar. Aldur við sölu hafði jákvæð áhrif á verð sýndra hrossa en neikvæð áhrif á verð ósýndra hrossa. Niðurstöður hagfræðigreiningar benda til þess að sköpulag í kynbótadómi eigi að gilda minna en verið hefur, og jafnframt að kostir eigi að gilda meira en verið hefur.

 

Flettingar í dag: 642
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 548
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 965428
Samtals gestir: 50518
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 20:01:40