25.11.2014 09:51

Skýrsla æskulýðsnefndar 2013 - 2014

 

Æskulýðsstarf

Hestamannafélagsins Þyts

                                                             

Starfsskýrsla 2013-2014.

 

 

Æskulýðsnefnd Þyts 2013-2014.

Guðný Helga Björnsdóttir, formaður

Helga Rós Níelsdóttir

Irena Kamp

Þóranna Másdóttir

Þórdís Helga Benediktsdóttir, tengiliður við stjórn

 

Uppskeruhátíð.

Í lok október 2013 var haldin uppskeruhátíð barna og unglinga á Sveitasetrinu Gauksmýri.  Að venju var vel mætt af unglingum, börnum og foreldrum þeirra.  Hestamannafélagið bauð upp á kaffi að hætti Gauksmýrarverta. Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir knapa ársins í unglinga- og barnaflokki. Karitas Aradóttir var knapi ársins í barnaflokki og Kristófer Smári Gunnarsson í unglingaflokki. Öll börn sem tekið höfðu á einhvern hátt þátt í vetrarstarfinu fengu gjafir frá Æskulýðsnefndinni.  Formaður fór yfir starf liðins árs og það sem væri á döfinni á komandi ári. Æskulýðsnefndin þakkaði að lokum iðkendum kærlega fyrir samstarfið og foreldrum og aðstandendum sérstaklega fyrir frábæra þátttöku og viðtökur við hverskonar beiðni um aðstoð.

Þrettándagleði.

Æskulýðsnefndin stóð að venju fyrir Þrettándagleði í sveitarfélaginu. Vegna veðurs var ekki farin hópreið um Hvammstanga, heldur fór gleðin öll fram inni í reiðhöllinni Þytsheimum á Hvammstanga. Þar mættu álfakóngur og -drottning, ásamt álfameyjum, Grýlu, Leppalúða og nokkrum jólasveinum.  Allt voru það krakkar úr æskulýðsstarfi félagsins sem tóku hlutverkin að sér.  Í Þytsheimum var öllum gefið kakó, kaffi og kökur sem foreldrar og aðstandendur í æskulýðsstarfinu höfðu framreitt. Þar voru gengnir nokkrir hringir á eftir álfahirðinni, farið í leiki og teymt undir börnum. Þessi skemmtun tókst mjög vel þrátt fyrir leiðindaveður, og stóðu krakkarnir sig vel að vanda.

Fundir.

Nokkrir fundir voru haldnir á starfsárinu, bæði foreldrafundir um starfið og nefndarfundir.

Reiðþjálfun og fimleikar á hesti (voltigieren).

Mikill áhugi var á reiðþjálfun og fimleikum á hesti. Um 60 börn á öllum aldri tóku þátt í reiðþjálfun, fimleikum á hesti, reiðsýningu, keppni og Knapamerki í vetur. 2 unglingar luku prófi í Knapamerki 1 og 6 luku prófi í Knapamerki 3. Fanney Dögg Indriðadóttir sá um reiðkennsluna og Knapamerkin. Irina Kamp og Kathrin Schmitt sáu um fimleika á hesti.  Þátttakan í reiðþjálfuninni var það mikil að hóparnir voru sex, mislangt komnir krakkar í þeim og fengu þjálfun við hæfi hvers hóps. Svo vorum við með þjálfun fyrir allra yngstu knapana, um hana sáu krakkarnir í Knapamerki 3. Sú þjálfun var á laugardögum og komu foreldrarnir með, því það þurfti að hjálpa sumum knöpunum, sem ekki voru háir í loftinu.

Mjög mikil þátttaka var í námskeiðinu fimleikar á hesti. Það eykur mjög jafnvægi krakkanna að taka þátt í æfingum sem þessum, einnig er það mjög gott fyrir þau sem hafa ekki aðgang að hestum að geta verið á þessum námskeiðum og eflir þetta mjög áhuga þeirra á hestamennskunni. Í fimleikum á hesti var byrjendahópur og svo hópur fyrir lengra komna. Bæði var kennt í íþróttahúsinu á fimleikahestum og í reiðhöllinni á alvöruhestum.

Á haustin fara hestafimleikarnir allir fram í íþróttahúsinu á Laugarbakka. Þar var verið að æfa krakkana í grundavallaratriðum fimleika og undirbúa þau undir að gera æfingar á lifandi hesti.

 

Grunnskólamótin.

Æskulýðsnefndir hestamannafélaganna á Norðurlandi vestra halda þrjú mót yfir veturinn, sem þau kalla Grunnskólamót. Þá keppa krakkarnir fyrir þann skóla sem þau eru í og safna stigum. Mótin voru haldin í Arnargerði á Blönduósi, í Svaðastöðum á Sauðárkróki og í Þytsheimum hér á Hvammstanga. Góð þátttaka var í þessum mótum. Þau eru byggð upp á því að allir geti tekið þátt og æft sig í að keppa. Keppt er í þremur aldursflokkum. Elsti hópurinn 8. - 10. bekkur keppa í tölti, fjórgangi, smala og skeiði. 4.-7. bekkur keppa í smala, tölti, og tví- eða þrígangi. Í tvígangi sýna þau fet og tölt eða brokk, í þrígangi sýna þau fet, tölt og brokk. Ekki þurfa þessi aldursflokkar að sýna stökk, enda getur það verið erfitt fyrir lítið reynda knapa inni í reiðhöllunum. Yngsti aldursflokkurinn í 1. - 3. bekk keppa í þrautabraut og fegurðarreið. Þetta árið var vont veður þegar smalakeppnin fór fram á Blönduósi þannig að Skagfirðingarnir komu ekki til keppni þá.

Sýningar.

Hestamannafélagið stóð þann 29. mars fyrir reiðhallarsýningu sem hét Hestar fyrir alla. Þar tóku krakkar úr æskulýðsstarfinu virkan þátt. Kappkostað var að á sýningunni væri hægt að sjá sem fjölbreyttasta nýtingu á hestinum, frá þægum fjölskylduhesti yfir í stólpa keppnishest og allt þar á milli. Börn og unglingar úr æskulýðsstarfinu voru með opnunaratriðið og mörg atriði úr æskulýðsstarfinu voru inn á milli atriða fullorðna fólksins. Fullt af myndum má sjá af sýningunni á þessum slóðum: http://thytur.123.is/photoalbums/259344/

http://thytur.123.is/photoalbums/259259/

Hestafimleikahópurinn fór á vorsýningu Sleipnis á Selfossi og sýndu atriði. Það var mjög skemmtileg sýning og skemmtileg ferð. Jafnframt því að æfa fyrir sýninguna og taka þátt í sýningunni var ýmislegt skemmtilegt gert í ferðinni, t.d. farið í reiðtúr á hestaleigu í nágrenni Selfoss.

Sumarið.

Krakkarnir og unglingarnir voru dugleg og að taka þátt í ýmsum keppnum í sumar bæði í heimahéraði og nálægum héruðum.  Þó eru þau ekki eins mörg sem taka þátt í keppnum yfir sumarið eins og í reiðhallarmótunum á veturna. Þeim börnum og unglingum sem komust á Landsmótið stóð til boða að fá leiðbeiningar og aðstoð frá Fanneyju Dögg Indriðadóttur. Flottir fulltrúar frá okkar félagi mættu svo galvaskir á Landsmótið og stóðu sig mjög vel í keppni þrátt fyrir úrhellis rigningu og rok. Þau voru einnig fulltrúar Þyts í hópreiðinni og stóðu sig með stakri prýði þar eins og ávalt.

Við í æskulýðsnefnd Þyts erum mjög ánægð með árið hjá okkur. Foreldrar hafa verið mjög duglegir eins og áður að aðstoða við það sem þarf, enda gengi ekki svona starf nema með virkum foreldrum því margir eiga um langan veg að fara til að mæta á námskeið, æfingar eða keppni allan veturinn, einnig þurfa yngstu þátttakendurnir digga aðstoð við að komast upp í hesthús og leggja á.  Vonum við að starfið haldi áfram að blómstra eins og verið hefur undanfarin ár.

Mikið af myndum er hægt að sjá úr starfinu í myndaalbúmi á heimasíðu Þyts: thytur.123.is.

Kær kveðja

Æskulýðsnefnd Þyts.

Flettingar í dag: 2233
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 4666
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 937561
Samtals gestir: 49496
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 21:07:53