25.09.2019 14:44

Opið bréf frá stjórn hestamanafélagsins Þyts

Kæru félagsmenn, nú er haustið gengið í garð með allri þeirri gleði og vinnu sem haustinu fylgir.  Eins og allir vita þá er reiðhöllin í útleigu eins og er og verður meðan á sláturtíð stendur, við erum þó farin  að skipuleggja vetrarstarfið og leitum því til ykkar með ýmis málefni.  

Hestafimleikarnir eru komnir á fullt og mikill áhugi á því starfi.  Eins og allir vita þá þarf góðan hest í það verkefni og því hefur verið ákveðið að auglýsa eftir hesti í verkefnið.  Átt þú hest sem mögulega gæti hentað fyrir krakkana, hesturinn þarf að vera með gott geðslag, vera mikið og vel taminn með góðar grunngangtegundir (fet,brokk,stökk) og vera aðgengilegur í hesthúsahverfinu á Hvammstanga.  Þú fengir greidda ákveðna upphæð fyrir hvern mánuð auk þess sem hesturinn fengi góða hreyfingu tvisvar í viku.  Er þetta eitthvað sem gæti hentað þér og þínum hesti, vinsamlegast hafðu þá samband við Pálma í síma 8490752.  

Okkur vantar líka reiðkennara með góðar hugmyndir að námskeiðum fyrir börn og fullorðna í félaginu ef þú hefur áhuga á að starfa fyrir okkur þá mátt þú endilega hafa samband. 

Þeir sem hafa áhuga á því að starfa í vetrarmótanefnd mega líka endilega hafa samband við okkur, það vantar nýjar og ferskar hugmyndir, hvernig viljið þið hafa mótahaldið í vetur, á að prófa eitthvað nýtt eða hafa þetta í svipuðum dúr og verið hefur, það er ekki seinna vænna en að fara að skipuleggja og finna styrktaraðila, og munið að hér getið þið haft áhrif og komið ykkar hugmyndum í verk.  

Á næsta ári verður félagið 70 ára, einhverjar hugmyndir eru komnar um það hvernig fagna beri áfanganum en gaman væri ef einhver gæti tekið það að sér að stýra afmælisnefnd sem kæmi að skipulagningu og ákvarðanatöku varðandi afmælið.  

Skemmtinefndin er farin að huga að uppskeruhátíð sem verður haldin þann 9.nóv og því gott að taka daginn frá. 

Eins og fram hefur komið hér á síðunni þá er ætlunin að setja á laggirnar kennsluverkefnið Reiðmanninn í samvinnu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri næsta haust (2020) allir þeir sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið er bent á heimasíðu landbúnaðarháskólans,  þetta hefur verið vinsælt nám í mörg ár og stendur okkur til boða frá og með næsta hausti eins og fyrr segir og vonum við að af þessu verði því þetta hentar breyðum hópi iðkenda í hestamennsku.  

Stefnum síðan á að halda fund með félagsmönnum seinna í haust.

 

Með kveðju

Stjórnin.

Flettingar í dag: 988
Gestir í dag: 153
Flettingar í gær: 1011
Gestir í gær: 229
Samtals flettingar: 4112176
Samtals gestir: 496550
Tölur uppfærðar: 4.12.2020 16:44:03