30.04.2024 18:08

Reiðmaðurinn I

 
 

Frá því í september hafa 14 félagar í Þyti verið á námskeiðinu Reiðmaðurinn I, sem Landbúnaðarháskóli Íslands stendur fyrir. Reiðkennarinn þeirra var Þorsteinn Björnsson. Kennt var eina helgi í mánuði, alls 8 helgar og endað með útskriftarhelgi í hestamiðstöðinni á Miðfossum, rétt hjá Hvanneyri. Um 200 manns voru í Reiðmannsnámi I og II og keppnisreiðmanni víða á landinu í vetur. Síðastliðna helgi komu þessir nemendur saman á útskriftarhelginni þar sem á laugardeginum fengu tveir efstu frá hverjum námskeiðsstað að keppa um efsta sæti í stöðuprófsverkefninu, annars vegar í Reiðmanni I og Reiðmanni II. Á sunnudeginum var svo Reiðmannsmótið þar sem allir nemendur í Keppnisreiðmanninum áttu að keppa og svo máttu allir í Reiðmanni I og II einnig keppa.

 

Að lokinni keppni á laugardeginum hlutu allir nemendur viðurkenningarskjal og efstu keppendur fengu verðlaun. Þytsfélagar stóðu sig mjög vel. Keppnina í Reiðmanni I sigraði Gréta Brimrún Karlsdóttir með hestinn sinn Brimdal frá Efri-Fitjum og Ingveldur Ása Konráðsdóttir varð í sjöunda sæti með hestinn sinn Tígul frá Böðvarshólum. Ingveldur Ása fékk einnig verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn úr náminu öllu í Reiðmanni I.

 

Á sunnudeginum var íþróttamót á útivellinum við Miðfossa. Þar tóku þátt 5 af Þytsfélögunum og stóðu sig með mikilli prýði. Fjórir af keppendunum komust í úrslit og sá fimmti var næstur við úrslit í sinni grein. Tveir af keppendunum sigruðu sína flokka þær Eva-Lena Lohi með Draum frá Hvammstanga sigraði V5 og Gréta Brimrún Karlsdóttir sigraði F2 á hesti sínum Brimdal frá Efri-Fitjum. Aðrir sem komust í úrslit voru Halldór P. Sigurðsson, sem varð 6. í F2 á Muninn frá Hvammstanga og 13. eftir B-úrslit í V2 á Megasi frá Hvammstanga og Guðný Helga Björnsdóttir varð 8. eftir B úrslit í T3 á Boga frá Bessastöðum.

 

Mikil ánægja ríkir hjá þátttakendunum í þessu námi á Hvammstanga, bæði með námið sjálft, skipulagið og ekki síst kennsluna hjá Þorsteini Björnssyni. Boðið verður upp á Reiðmanninn II á Hvammstanga næsta vetur og er mikill spenningur fyrir því.

 

 

 

Flettingar í dag: 634
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 1593
Gestir í gær: 245
Samtals flettingar: 1013810
Samtals gestir: 55092
Tölur uppfærðar: 21.5.2024 17:20:07