20.07.2025 20:49
Gott Fjórðungsmót hjá Þytsfélögum
![]() |
Í byrjun júlí fór fram Fjórðungsmót Vesturlands í Borgarnesi hvar þátttökurétt höfðu félagar í hestamannafélögum frá Kjalarnesi til Eyjafjarðar. Frá Þyti fór fríður flokkur knapa og hesta sem mörg hver náðu glæsilegum árangri. Hér verða talin upp þeir knapar og hestar sem náðu inn í úrslit og verðlaunasæti á mótinu.
Öll börn, unglingar og ungmenni sem kepptu fyrir Þyt náðu inn í úrslit og er það glæsilegur árangur. Í barnaflokki voru það Herdís Erla Elvarsdóttir á Grifflu frá Grafarkoti, sem urðu í 12. sæti, Gígja Kristín Harðardóttir á Sigursæli frá Hellnafelli sem urðu í 14. sæti og Sigríður Emma Magnúsdóttir á Abel frá Flagbjarnarholti sem urðu í 16. sæti.
Í unglingaflokki varð Ágústa Sóley Brynjarsdóttir á Glóðafeyki frá Staðarbakka 2 í 12. sæti.
Í ungmennaflokki varð Dagbjört Jóna Tryggvadóttir á Sendingu frá Hvoli í 15. sæti og Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal á Þrumu frá Hveragerði komst einnig inn í B-úrslit og vann þau. Í A-úrslitum voru því Guðmar á Þrumu og Rakel Gígja Ragnarsdóttir á Garúnu frá Grafarkoti, en þær náðu 8. sæti. Guðmar Hólm náði hins vegar að sigra A-úrslitin á Þrumu og er það glæsilegur árangur að sigra bæði B- og A-úrslitin.
Í B-flokki urðu Elvar Logi Friðriksson og Grein frá Sveinatungu í 16. sæti, en Elvar Logi keppti einnig á Teningi frá Víðivöllum fremri (reyndar fyrir hestamannafélagið Glað) og urðu þeir í 7. sæti. Teitur Árnason og Hylur frá Flagbjarnarholti náðu svo öðru sætinu.
Í A-flokki náðu Fredrica Fagerlund og Salómon frá Efra-Núpi 2. sæti.
Í tölti T3 varð Eysteinn Tjörvi Kristinsson í 5. sæti á Fortíð frá Ketilsstöðum.
Í unglingaflokki T3 varð Herdís Erla Elvarsdóttir á Grifflu frá Grafarkoti í 8. sæti.
Nokkur hross í eigu Þytsfélaga komust inn í kynbótahluta Fjórðungsmótsins og eitt þeirra komst í verðlaunasæti. Það er stóðhesturinn Frár frá Bessastöðum, sem Fríða Rós Jóhannsdóttir og Jóhann B. Magnússon eiga. Jóhann sýndi hestinn og náði hann 1. sæti í flokki 6 vetra stóðhesta.
Allar einkunnir og fleiri upplýsingar er hægt að nálgast inni í Worldfeng eða Horseday appinu.