Færslur: 2010 Janúar

31.01.2010 09:58

Notum reiðhjálma



ÖLLU hestafólki er nauðsynlegt að nota hjálm því það getur skipt sköpum ef slys verður. Viljum því af gefnu tilefni minna hestafólk á að nota reiðhjálma undantekningarlaust.



Stjórnin

30.01.2010 22:36

Fundur og æfing hjá Draumaliðinu, þar sem þínir villtustu rætast....


Næst komandi þriðjudag verður æfing fyrir liðsfélaga liðs 1 í reiðhöllinni á Hvammstanga kl 20-22.

Þar verður fundað og skeggrætt komandi tímabil. 

Inntökupróf fyrir nýja meðlimi og piparkökubakstur í hléi.
 
Nýju sérsaumuðu liðsjakkarnir verða komnir svo það er mjög mikilvægt að allir geri sér ferð á fundinn. 

Jónsi í Svörtum fötum og Hreimur úr Landi og sonum koma og frumflytja fyrir okkur nýja lagið sem þeir hafa verið að semja fyrir okkur og hljóðrita.  Bubbi spilar akkurat undir.

Kyrrðarstund þar sem við minnumst félaga sem hafa gengið til liðs við önnur lið.

Partýstund í framhaldi, þar sem við fögnum nýjum félögum okkar.


Nú er um að gera að dusta rykið af hnakknum, tannbursta sig og koma á æfingu.  Auðvitað eru ALLIR velkomnir, sem eru búnir að tannbursta sig vel, á hesti eður ei!  Nú er að duga eða drepast...

Baráttukveðjur
Guðrún Ósk Liðstjóri! 

30.01.2010 03:00

Liðsstjórarnir spurðir spjörunum úr :)

Ég tók viðtal við liðsstjórana fjóra og spurði þá sömu spurninganna. Hér koma svörin þeirra og myndir af þeim svo þið vitið nú hverjir þeir eru emoticon Svo flottir liðsstjórar emoticon



Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir liðsstjóri liðs 1, Hvammstangi, Hrútafjörður og Miðfjörður.

 Hvernig leggst Liðakeppnin 2010 í þig? Liðakeppnin leggst einstaklega vel í mig þetta árið, enda nýskriðin undan jólum.
 Er liðið komið með slagorð? Vissulega.... Það hljómar svo. Draumaliðið, þar sem þínir villtustu rætast!
 Á eitthvað annað lið séns í þitt lið í vetur? Það byrja öll liðin á núlli svo í upphafi eiga allir jafnmikin séns. Ég hef samt sem áður ekki áhyggjur á að gengi okkar verði valt, síður en svo. Við byrjum jöfn og endum svoleiðis langt frá því ;)
 Er búið að kaupa einhverja nýja knapa? Tryggvi Björnsson myndi teljast dýrari en Eiður Smári í dag. Við keyptum hann með öllum hans kröfum. Alltaf klakavatn í hesthúsinu, 3 svört handklæði, kattasandur, aðgangur að interneti og engir speglar.
 Helduru að Gunnar sé búin að jafna sig eftir höfuðhöggið? Ég held hann hafi bara batnað við það ef eitthvað er.....
 Er eitthvað snobb í þínu liði? Nibb... Kolla Stella er ekki með okkur í liði ;)
 Verða fleiri aðkomumenn en heimamenn í þínu liði? Klárlega heimamenn....
 Heldur þú að Logi fái stig í ár? (hver man ekki eftir Liðakeppnislaginu og hvernig þetta fór í fyrra) Hans vegna vona ég það innilega, mín vegna vona ég það alls ekki! Hef samt trú á karlinum að næla sér í nokkur, en það mun vera fyrir annað sæti þar sem einhver úr mínu liði verður í því fyrsta...
 Nú er stigahæsti liðsmaður Austur-Húnvetninga frá því í fyrra fluttur til Noregs, teljið þið að þeir séu með einhver önnur tromp á hendi? Já ég myndi halda það, án þess að hafa hundsvit á því...
 Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Megi besta liðið sigra og EF það er ekki mitt lið megi næstbesta liðið sigra og EF það er ekki mitt lið megi næstnæstbesta liðið sigra og EF það er ekki mitt lið megi þá næstnæstnæstbesta liðið sigra.... sem sagt Draumaliðið, þar sem þínir villtustu rætast!




Indriði Karlsson liðsstjóri 2 Goods, liðs 2. Vatnsnes / Vesturhóp

 Hvernig leggst Liðakeppnin 2010 í þig?
Alltaf gaman að vinna :)
 Er liðið komið með slagorð? Engan ungmennafélagsanda
 Á eitthvað annað lið séns í þitt lið í vetur? Gefur augaleið NEI...
 Er búið að kaupa einhverja nýja knapa? Já keyptum Alexander Peterson fyrir Haddý
 Heldurðu að Gunnar sé búin að jafna sig eftir höfuðhöggið? Já, held reyndar að hann hafi aðeins skánað við höggið
 Er eitthvað snobb í þínu liði? Fyrir utan Kollu ????
 Verða fleiri aðkomumenn en heimamenn í þínu liði? Nei ekki nema við kaupum fimmta og öflugasta liðið frá því í fyrra, slökkviliðið.
 Heldur þú að Logi fái stig í ár? (hver man ekki eftir Liðakeppnislaginu og hvernig þetta fór í fyrra) Ertu að tala um Loga í beinni ??
 Nú er stigahæsti liðsmaður Austur-Húnvetninga frá því í fyrra fluttur til Noregs, teljið þið að þeir séu með einhver önnur tromp á hendi? Já þeir hljóta að virkja Dísus kræst from the Hæl
 Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Já eins og Vatnsnesskáldið orðaði það:

Markvisst hross og mannskap allan þjálfum
má því telja víst að sigur er í höfn.
Líklega mun fyrsta sætið lenda hjá mér sjálfum
liðin sem á eftir koma verða nokkuð jöfn.

En kæru vinir ekki verða voðalega tens
verið heldur glöð og sýnið kæti.
Því auðvitað þið eigið alltaf ofurlítinn séns
á öðru, þriðja eða fjórða sæti.




Gunnar Þorgeirsson liðsstjóri liðs 3, Víðidalur / Fitjárdalur

 Hvernig leggst Liðakeppnin 2010 í þig? Vel vonandi að við fáum einhverja keppni í ár.
 Er liðið komið með slagorð? Hobb, hobb ekkert snobb!
 Á eitthvað annað lið séns í þitt lið í vetur? Það á ég ekki von á.
 Er búið að kaupa einhverja nýja knapa? Við höfum aldrei keypt neina knapa, færri komast að en vilja, keyrum liðið áfram á heiðarleika, metnaði og fagmennsku.
 Ertu búinn að jafna þig eftir höfuðhöggið? Hvaða höfuðhögg?
 Er eitthvað snobb í þínu liði? Sjá spurningu 2
 Verða fleiri aðkomumenn en heimamenn í þínu liði? NEI
 Heldur þú að Logi fái stig í ár? (hver man ekki eftir Liðakeppnislaginu og hvernig þetta fór í fyrra) Flest allir liðsmenn mínir fengu stig í fyrra, flestir fleiri en sá sem samdi þennan texta.
 Nú er stigahæsti liðsmaður Austur-Húnvetninga frá því í fyrra fluttur til Noregs, teljið þið að þeir séu með einhver önnur tromp á hendi? Já skytturnar þrjár bræðurnar frá Brekku Hauk, Jósef og Hrein.
 Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?  (ef þú vilt koma með einhverja yfirlýsingu eða eitthvað meira pepp) Hvers konar snobb spurning er þetta manneskja, talaru ekki íslensku. Hvað er pepp? er það eitthvað sælgæti. Fáðu þér svo appelsínugula úlpu og rautt eyrnaband og hættu þessari vitleysu...





Ragnar Stefánsson liðsstjóri liðs 4 - Austur-Húnavatnssýsla

 Hvernig leggst Liðakeppnin 2010 í þig? Vel, verður spennandi að sjá alla útlendingahersveitina mæta.
 Er liðið komið með slagorð? Nei ég get nú ekki sagt það, en það verður búið að finna upp á einhverju slagorði þegar við mætum.
 Á eitthvað annað lið séns í þitt lið í vetur? 3 lið
 Er búið að kaupa einhverja nýja knapa? Vil nú ekkert segja á þessu stigi málsins en það verður mikið í það lagt að fá erlenda knapa td Jóa Skúla, Stian Petersen og Lena Trappe svo dæmi séu tekin. Samningaviðræður í gangi.
 Helduru að Gunnar sé búin að jafna sig eftir höfuðhöggið? Ég tel svo ekki vera.
 Er eitthvað snobb í þínu liði? Það eru nokkrar snobbhænur
 Verða fleiri aðkomumenn en heimamenn í þínu liði? Hvað eru aðkomumenn og hvað eru heimamenn?????
 Heldur þú að Logi fái stig í ár? (hver man ekki eftir Liðakeppnislaginu og hvernig þetta fór í fyrra) Eitt eða tvö
 Nú er stigahæsti liðsmaður Austur-Húnvetninga frá því í fyrra fluttur til Noregs, ertu með einhver önnur tromp á hendi? Við teflum fram Rúnari í Kjalfell
Eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri? Nei nei


28.01.2010 15:01

Hvammstangahöllin




Höllin opnar fyrir korthafa sunnudaginn 31. janúar kl. 15.00. Vinnu verður samt haldið áfram í höllinni og verða korthafar að virða það.

Tímar æskulýðsstarfsins eru:

15.30 - 19.00 á þriðjudögum og miðvikudögum

15.00 - 18.00 á fimmtudögum (höllin verður opið öllum nema ef börn mæta þá ganga þau fyrir)

10.00 - 14.00 á laugardögum 

Stjórn Hvammstangahallarinnar


28.01.2010 09:54

Tryggvi áfram...



Úrtakan fyrir KS deildina var í gærkvöldi og var keppt um sjö laus sæti fyrir keppni vetrarins. Hestakostur var mjög góður og glæsilegar sýningar fengu litið dagsins ljós fyrir þá rúmlega tvöhundruð áhorfendur sem fylgdust með.

Upphaflega átti að keppa um sex sæti en Stefán Friðgeirsson frá Dalvík sem vann sér inn keppnisrétt í fyrra boðaði forföll svo einum var bætt við og því sjö keppendur sem komust áfram.

Eftirtaldir knapar komust áfram í aðalkeppnina.

1-2       Tryggvi Björnsson  
1-2       Elvar E Einarsson
3          Þorsteinn Björnsson
4          Líney Hjálmarsdóttir 
5          Heiðrún Ó Eymundsd   
6          Viðar Bragason 
7          Riikka Anniina



www.feykir.is

27.01.2010 13:07

Liðsfundur hjá LIÐI 2

Viljum minna á liðsfundinn hjá liði 2 sem verður á Gauksmýri á morgun, fimmtudaginn 28.01. kl. 20.00.  Þetta verður bara svona létt spjall um keppnina og farið yfir helstu áhersluatriðin. Nýtt í ár að boðið verður upp á nudd að keppni lokinni ef liðsmenn hafa áhuga á því. Fjárhagsáætlunin verður tilbúin til skoðunar enda eru peysurnar í fyrra ódýrarar miðað við í ár emoticon  Dyggir stuðningsmenn eru líka hjartanlega velkomnir.

Stíllisti félagsins vildi að ég minnti liðsfélaga aftur á að mæta í kvöldklæðnaði við hæfi. Í boði verður fordrykkur og létt 3ja rétta máltíð eins og má sjá hér að neðan :

Pönnusteiktur humar með rósmarín, fíkjuchutney og blóðappelsínufroðu

Pan-fried langoustine with rosemarin, figschutney and bloodoragnefoam

Nauta Carpaccio með truffluolíu og parmesan
Beef  Carpaccio with truffleoil and parmesan


Heit súkkulaðiterta með blautum kjarna borin fram með ís

Síðan er gisting í boði fyrir þá sem vilja.

Gestakokkur næsta funds verður Alexander Petterson en það fer að sjálfsögðu eftir úrslitunum á EM hvort við þiggjum það emoticon


Indriði Karlsson
liðsstjóri liðs 2

27.01.2010 11:03

Húnvetnska liðakeppnin

 


Fyrsta mót í Húnvetnsku liðakeppninni verður föstudagskvöldið 5. febrúar nk. Skráning er hjá Kollu á mail:
kolbruni@simnet.is
og verður að vera búið að skrá á miðnætti þriðjudagsins 02.02. Keppt verður í fjórgangi í 1. flokki, 2. flokki og flokki 17. ára og yngri (fædd 1993 og seinna) Það sem koma þarf fram er knapi, lið, hestur, ætt, litur og aldur og upp á hvora hönd þið viljið ríða. Það verða mjög líklega tveir inn á í einu og er prógrammið, hægt tölt, brokk, fet, stökk og fegurðartölt.

Skráningargjald er 1.500.- fyrir fullorðna en 500 fyrir unglinga 17 ára og yngri. Skráningargjöld verður að greiða inn á reikning 1105-15-200343 kt. 550180-0499 áður en mót hefst.

Aðgangseyrir er 1.000.-


Allt um reglur keppninnar má sjá hér.


 



Mótanefnd Húnvetnsku liðakeppninnar



25.01.2010 15:46

KS deildin



Úrtaka fyrir 6 laus sæti í KS deildinni verður haldin í Svaðastaðahöllinni nk. miðvikudagskvöld og hefst kl 20:00. Ljóst er að hart verður barist um þessi 6 sæti en skráðir eru til leiks 13 keppendur.
Keppt verður i 4-gangi og 5-gangi og ræður sameiginlegur árangur.

Sterkir knapar og hestar eru skráðir og verður spennandi að sjá hverjir komast í deildina. Ráslistann má sjá hér.

Tveir Þytsfélagar eru skráðir til leiks og verður gaman að fylgjast með hvort þeir komist áfram.

24.01.2010 21:34

Vinna strax eftir leik.

Vinna upp í höll strax eftir leik á morgun eða um 17.00. Verkefnin eru að taka allt af hallargólfinu og málningarvinna. Einnig erum við að leita að pípara emoticon  
Svo hægt sé að fara að nota höllina þarf að klára að taka gólfið í gegn en stefnt er að því að opna hana fyrir korthafa í lok vikunnar.

Stjórnin

23.01.2010 21:42

Knapamerkin



Miðvikudaginn 27 janúar mun Helga Thoroddsen halda almennan kynningarfund um Knapamerkin. Fundurinn verður haldinn á Gauksmýri og hefst hann kl. 20:00. Fundurinn er öllum opinn sem hafa áhuga á að kynna sér Knapamerkin markmið þeirra og hugmyndarfræði.

Einnig hvetjum áhugasama um önnur reiðnámskeið að mæta svo við getum skipulagt vetrarstarfið á þessum fundi.

Fræðslunefnd Þyts

19.01.2010 15:52

Járninganámskeiðið

 

Aðra helgina í janúar var haldið járninganámskeið á vegum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri á Gauksmýri. Frumkvæðið átti fræðslunefnd Hestamannafélagsins Þyts og voru þátttakendur 10. Kennari var Sigurður Oddur Ragnarsson bóndi og járningameistari. Þátttakendur fengu sýnikennslu og bóklega kennslu en urðu svo allir að járna sjálfir. 

www.gauksmyri.is

18.01.2010 19:55

Knapamerki byrjar á morgun 19. janúar

Jæja nú er komið að því krakkar sem eruð skráð í knapamerki.
Þetta byrjar allt saman á morgun 19. janúar með bóklegum tímum kl.15.00-17.15 í félagshúsinu.
Endilega munið eftir að hafa nesti með þar sem þetta er langur tími.
kv. æskulýðsnefnd

18.01.2010 18:56

Þetta helst...

  • Vinnan upp í reiðhöll gengur rosalega vel og hér að ofan má sjá vestari stúkuna, fleiri myndir inn í myndaalbúminu.
  • Hægt er að kaupa árskort inn í höllina. Gjald einstaklings er 20.000.- fyrir félagsmenn, fyrir aðra en félagsmenn er gjaldið 25.000.- og má greiða inn á 1105-05-403351 kt. 550180-0499. Nánari upplýsingar veitir Halldór Sigfússon í síma 891-6930.
  • Dagatal Þyts er til sölu hjá Kollu í síma 863-7786 og Þórdísi í síma 867-3346. Einnig er það til sölu á Pósthúsinu.
  • Þeir sem hafa áhuga á að starfa við Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna endilega hafið samband við Sigrúnu í síma 660-5826. Fullt af skemmtilegum verkefnum í boði emoticon



17.01.2010 22:15

60 ára afmælishátíð Þyts og formleg opnun reiðhallarinnar

Verður 27. febrúar nk kl. 15.00 eins og áður hefur komið fram hér á síðunni.

Þeim Þytsfélögum sem vilja koma atriðum og hrossum á sýninguna er bent á að val inn á sýninguna verður á tímabilinu 6. - 12. febrúar.

Frekari upplýsingar hjá Indriða í síma 860-2056, Pálma í síma 849-0752 eða Þóri í síma 899-9570

Nánar auglýst síðar.


Undirbúningsnefnd

15.01.2010 22:15

Stórmót um verslunarmannahelgina

Skagfirsku hestamannafélögin og Gullhylur ætla að halda stórmót um Verslunarmannahelgina.

Um er að ræða opið mót og keppt verður í A og B fl. ungmenna, unglinga og barnaflokkum.

Einnig verður keppt í tölti og skeiði og jafnvel fleiri greinum en það skýrist þegar nær dregur.

Ætlunin er að endurvekja gömlu góðu stemminguna á Vindheimamelum um Verslunarmannahelgina.

Aðstaðan frábær fyrir hestafólk að koma og eyða helginni í Skagafirði og allt í toppstandi á Melunum eftir Landsmót.

Skagfirðingar hafa orðið varir við mikinn áhuga á þessu móti og það verða örugglega margar hestafjölskyldur sem eyða Verslunarmannahelginni í Skagafirði á komandi sumri.

 

Léttfeti, Stígandi og Svaði.

Flettingar í dag: 499
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 966064
Samtals gestir: 50571
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 10:49:17