26.01.2025 15:55

Mótaröð Þyts - fjórgangur, þrígangur og T4

 

Annað mótið í Mótaröð Þyts 2025 verður 8. febrúar og hefst kl 11:00. Skráningu lýkur miðvikudaginn 05.02. 

Keppt verður í V2 í 1., 2. og unglingaflokki. Í V5 í 3. flokki og þrígangi í  barnaflokki. Einnig verður T4  í opnum flokk. ??

Öllu er stjórnað af þul.

Slóðin inn á skráninguna er: Sportfengur og farið undir mót.  Skráningargjaldið er 4.000 fyrir fullorðna, 2.500 fyrir unglinga og börn. Skráningargjöld verður að millifæra svo skráning sé tekin gild. Skráning í pollaflokk fer einnig fram í gegnum Sportfeng. Ef einhver skráir sig eftir að skráningu er lokið er skráningargjaldið 5.000 kr.

Skráningargjald skal greiða um leið og skráð er. kt: 550180-0499 Rnr: 0159-15-200343 Senda skal kvittun fyrir greiðslu skráningargjalds á netfangið thytur1@gmail.com

20.01.2025 18:47

Knapaþjálfun 

                                                                                                            
 

Hestaíþróttir eru ekki frábrugðnar öðrum íþróttum, að því leyti, að til þess að hámarksárangur náist þurfa hestur og knapi að vera í góðu líkamlegu ástandi. Markmið í þjálfun hesta er fyrst og fremst að auka endingu þeirra og að þeir geti stöðugt verið að

bæta sig. Þegar kemur að knöpunum sjálfum er ekki síður mikilvægt að huga að sama markmiði.

 

Hestamennska getur verið krefjandi líkamlega og ef ekki er hugað að réttri líkamsbeitingu er hætt við að ending okkar í faginu verði ekki löng. Jafnvægi, styrkur og þol eru mikilvægir þættir og geta stuðlað að miklum framförum í reiðmennsku, knapar í góðu formi

líkamlega og andlega koma alltaf til með að standa betur að vígi en þeir sem ekki búa yfir sömu eiginleikum.

 

Bergrún er Reiðkennari frá Háskólanum á Hólum ásamt því að vera Einkaþjálfari frá ÍAK 

Hún kenndi Knapaþjálfun við Háskólann á Hólum í fjögur ár og var einmitt hluti af því teymi sem sá um að þróa áfangann.

Síðast liðinn vetur fór hún af stað með námskeiðið í formi helgarnámskeiðs og fékk mjög góðar viðtökur. 

 

Með Knapaþjálfun leggur hún áherslu á líkamsbeitingu knapans með og án hests. Aðstoðar viðkomandi knapa við að finna sína styrkleika og bæta veikleika sem kunna að hafa áhrif á reiðmennsku viðkomandi. Hún horfir mikið til líkamsstöðu, samhæfinguar og hvernig hægt er að bæta sig á hestbaki einfaldlega með því að vera meira meðvitaður um hvað má betur fara.

 

Helgarnámskeiðin er hugsuð þannig að nemandinn fái sem flest "verkfæri" til að bæta líkamsbeytingu sína, bæði á hestbaki en líka í gegnum æfingar/ æfingatækni sem hægt er að nota heima og/eða í ræktinni.

 

Námskeiðið er sett þannig upp að það byrjar á fyrirlestri.

Þar er farið yfir áherslur í kennslu Knapaþjálfunar, hverju ber að huga að þegar bæta á líkamsstöðu sína á hestbaki, orsakir og afleiðingar vissrar líkamsbeytingar og hvernig við gerum varanlegar breytingar.

 

Hver knapi fer í svokallaða líkamsstöðugreiningu þar sem viðkomandi er skoðaður án hests. Horft er í líkamsstöðu, vöðvasamræmi knapa, hreyfifærni liða og annað sem getur mögulega haft áhrif á ásetu knapa og líkamsstöðu dags daglega.

 

Þessu eru svo hvoru tveggja fylgt eftir með tveimur reiðtímum - einkatímum. Þar sem áherslan er líkamsbeyting knapans og stjórn hans á hestinum. 

 

Að auki er einn laufléttur æfingartími, þar sem farið er í styrktarþjálfun og teygjur sem Bergrúnu finnst eiga erindi við alla knapa. Farið í æfingatækni sem getur nýst viðkomandi í ræktinni eða við hreyfingu dags daglega.

 

Námskeið sem þú mátt ekki missa af ! 

 

Dagsetning 5-6 apríl

Verðið á mann er 25.000 kr

Hámarksfjöldi eru 10 nemendur

Skráning evalenalohi@hotmail.com

 

 

20.01.2025 13:06

Hallarþrif !!!

 

Á morgun þriðjudaginn 21.01. kl. 18.00 ætlum við að byrja þrif á reiðhöllinni, margar hendur vinna létt verk.

Ef þú kemst bara í smástund, þá er það bara frábært !!!

19.01.2025 17:43

Fyrsta mót - gæðingatölt

Fyrsta mót vetrarins verður föstudaginn 24. janúar nk kl. 18.00 í Þytsheimum á Hvammstanga, og verður að vera búið að skrá á miðnætti miðvikudaginn 22. janúar. Skráning verður í gegnum skráningakerfi Sportfengs. Keppt verður í gæðingatölti í öllum flokkum. 

Slóðin inn á skráninguna er: Sportfengur og farið undir mót. Keppt verður í  1. flokki, 2. flokki, 3. flokki,  unglingaflokki og í barnaflokki  Þeir sem skrá sig í 3 flokk, skrá sig í gæðingatölt ungmennaflokkur.

Skráningargjaldið er 4.000 fyrir fullorðna, 2.500 fyrir unglinga og börn. Skráningargjöld verður að millifæra svo skráning sé tekin gild. Skráning í pollaflokk fer einnig fram í gegnum Sportfeng. Ef einhver skráir sig eftir að skráningu er lokið er skráningargjaldið 5.000 kr.

Skráningargjald skal greiða um leið og skráð er. kt: 550180-0499 Rnr: 0159-15-200343 Senda skal kvittun fyrir greiðslu skráningargjalds á netfangið thytur1@gmail.com

Ráslistar munu birtast í Horseday appinu á fimmudaginn.

 

ATH !!!! Við ætlum að hafa leikinn Ísland - Króatía á inni á kaffistofu fyrir áhugasama !!!!

05.01.2025 18:30

Járninganámskeið

                                                               
 

Kristján Elvar Gíslason járningameistari mun koma á vegum hestamannafélagsins Þyts á Hvammstanga næstkomandi helgi, 11. og 12. janúar og halda járninganámskeið. Byrjað verður á sýnikennslu á laugardeginum og síðan verður nemendum skipt upp í tvo hópa, 3 tímar á hóp hvorn daginn. Námskeiðið verður haldið í Aðalbóli. 

Verð: 35.000 á mann

Skráning á email: jehu@mail.holar.is (Jessie)

03.01.2025 10:59

Jólarestarhittingur

Á morgunn laugardaginn 4. janúar kl. 12 á hádegi ætlar Nína okkar (Jónína Sigurðardóttir) að bjóða upp á grjónagraut og slátur í Félagshúsinu okkar. 

Verður gaman að sjá ykkur sem flest, kæru félagsmenn. Taka stöðuna á nýju ári, fara yfir gamla árið og venja magann af steikarmáltíðunum.

Um að gera að taka börnin með og leyfa þeim að leika sér í brekkunni og fá grjónagraut og slátur með okkur.

28.12.2024 17:38

Uppskeruhátíð æskulýðsstarfsins

 

                                                                                                  
      

Uppskeruhátíð barna og unglinga sem tóku þátt í keppnum og reiðnámi verður haldin sunnudaginn 12. janúar kl. 13.00 í salnum í reiðhöllinni.

18.12.2024 08:20

Korthafar Þytsheima

 

Nýr búnaður verður fljótlega tekinn í notkun í reiðhöllinni fyrir korthafa til að komast inn í höllina. Sækja þarf app sem heitir Ajax Security System og korthafa þurfa að senda Ragnari Smára tölvupóstfangið sitt til að fá boð inn í appið sem nýr notandi. Senda má netfangið til Ragga á ragnarhelgason@gmail.com eða á messenger.

Einnig voru pantaðir nokkrir lyklar fyrir þá sem treysta sér ekki til að nota appið en lykillinn kostar 5.000 á ári.

Stefnt er að því að byrja strax eftir áramót að nota búnaðinn og því tími núna fyrir korthafa að sækja appið og fá invite. 

09.12.2024 09:02

Íþróttamaður USVH 2024

                                                    
 

26.11.2024 13:36

Leiðin að gullinu - Menntahelgi A landsliðsins, U21 og hæfileikamótunar

 

Leiðin að gullinu verður líka í streymi

Nú styttist í menntahelgi Landsliðsins, U21 og Hæfileikamótunar. Þar sem okkar glæsilegustu knapar gefa innsýn inn í það mikla afrekasstarf sem unnið er innan LH. Á laugardeginum verða sjö A landsliðknapar með sýnikennslur og á sunnudeginum mun hluti þátttakenda úr Hæfileikamótun koma fram með hestana sína og gefa áhorfendum tækifæri til að sjá hvernig vinnuhelgar Hæfileikamótunar fara fram. Í Hæfileikamótun er lögð er áhersla á að höfða til metnaðarfullra afreksknapa á aldrinum 14- 17 ára sem m.a. stefna á að keppa fyrir Íslands hönd í framtíðinni.

U 21 Landsliðið mun svo mæta á staðinn og flestir á þeim hesti/hestum stefnt er með á HM í Sviss 2025. Þau munu bjóða uppá blöndu af sýnikennslu og skrautreið en einnig gefst áhorfendum tækifæri til þessa að sjá hvar pörin eru stödd í undirbúningi sínum fyrir heimsmeistaramótið.

Það er því ljóst að allir hestamenn ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í reiðhöllinni í Víðidal um helgina. Þá verður einnig glæsileg veitingasala á svæðinu, þar sem verður m.a boðið uppá dýrindis jólamat.

Einnig verður hægt að fylgjast með viðburðinum í gegnum streymi í samstarfi við Eiðfaxa TV. Verð fyrir streymi er 6900 kr og tryggir það aðgang að bæði laugardegi og sunnudegi. Hægt er að horfa á efnið fram til 13. desember.

15.11.2024 10:48

Uppskeruhátíð Þyts og HSVH

Uppskeruhátíð Hestamannafélagsins Þyts og Hrossaræktarsamtaka V-Hún fór fram með pompi og pragt laugardaginn 2.nóvember. Dásamlegur matur, góð skemmtiatriði, verðlaunaafhendingar venju samkvæmt og frábær félagsskapur var þetta vel heppnaða kvöld.

Þytur veitti verðlaun og viðurkenningar í eftirfarandi flokkum:

 

Knapi ársins í ungmennaflokki: Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal

 

 

Knapi ársins í 3. flokki: Eva-Lena Lohi

 

 

Knapi ársins í 2. flokki: Halldór P. Sigurðsson

 

 

Skeiðknapi ársins: Jóhann B. Magnússon

 

 

Knapi ársins í meistaraflokki: Elvar Logi Friðriksson

 

 

Sérstaka viðurkenningu hlaut Þorgeir Jóhannesson, sem verður 80 ára á næsta ári en gefur öðrum knöpum ekkert eftir í útreiðum og keppni.

 

 

Þytsfélagi ársins er Herdís Einarsdóttir 

 

 

Nýr heiðursfélagi hjá Þyti var valinn Halldór P. Sigurðsson.

 

 

Hrossaræktarbú ársins hjá HSVH er Lækjamót. Lækjamót komu fram með 13 hryssur til kynbótadóms á árinu og þar af voru 8 þeirra í verðlaunasæti á hátíðinni, ásamt því að ein þeirra stóð uppi sem hæst dæmda hryssa samtakanna. Meðalaldur þessarra hryssna var 5,4 ár og sex þeirra voru með yfir 8,40 í aðaleinkunn aldursleiðrétt.

Önnur tilnefnd bú voru: Bessastaðir, Efri-Fitjar, Grafarkot og Gröf

 

Hæst dæmdi stóðhestur HSVH er Hreggviður frá Efri-Fitjum 5 vetra aðaleinkunn 8,38. 

Hreggviður er myndar hestur afar fótahár og framhár með mjög öfluga fótagerð en hann hlaut 9 fyrir bæði samræmi og fótagerð og 8,5 fyrir háls, bak og lend og hófa. Þess utan er hann einstaklega prúður og hlaut hvorki meira né minna en 10 fyrir prúðleika. Hreggviður er takthreinn, rúmur og viljugur alhliðahestur með 8,5 fyrir tölt, skeið, greitt stökk og samstarfsvilja.

 

Hæst dæmda hryssa HSVH er Olga frá Lækjamóti 6 vetra. Aðaleinkunn 8,53. Olga er óvenjulega há fyrir sköpulag þar sem hún hlaut 9 fyrir höfuð, háls, bak, samræmi og prúðleika, hún er svipgóð, framhá og fótahá með afar góða yfirlínu. Svo er hún taktgóð, skrefmikil, hágeng og yfirveguð alhliðahryssa með 9 fyrir stökk og 8,5 fyrir tölt og hægt tölt, brokk, vilja og fegurð í reið. Olga var í 2.sæti í 6 vetra flokki hryssna á Landsmótinu í sumar

 

Hæst dæmda klárhrossið er Hátíð frá Efri-Fitjum 7 vetra. Aðaleinkunn 8,52. Aðaleinkunn án skeiðs 8,93. Hátíð er úrvals klárhryssa. Hún er vel sköpuð, framhá með afar góða baklínu og öfluga lend en hún hlaut 9 fyrir bæði bak og lend og samræmi og 8,5 fyrir háls/herðar/bóga, hófa og prúðleika. Hún er fótahá, með mikinn fótaburð, mikla þjálni og frábærar gangtegundir og hlaut hún hvorki meira né minna en þrjár 9,5ur í hæfileikum fyrir brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið og þrjár 9ur fyrir tölt, hægt tölt og greitt stökk.

 

Önnur verðlaunahross voru:

4 vetra hryssur:

1. Píla frá Lækjamóti

2. Lukka frá Lækjamóti

3. Vinátta frá Lækjamóti

 

5 vetra hryssur:

1. Ólga frá Lækjamóti

2. Óskastund frá Lækjamóti

3. Hetja frá Bessastöðum

 

5 vetra stóðhestar:

1. Hreggviður frá Efri-Fitjum

2. Frár frá Bessastöðum

3. Skjár frá Syðra-Kolugili

 

6 vetra hryssur

1. Olga frá Lækjamóti

2. Þrá frá Lækjamóti

3. Hekla frá Efri-Fitjum og Olía frá Lækjamóti

 

6 vetra stóðhestar

1. Dimmir frá Stóru-Ásgeirsá

2. Sjarmur frá Fagralundi

 

7 vetra og eldri hryssur

1. Hátíð frá Efri-Fitjum

2. Eind frá Grafarkoti

3. Rauðhetta frá Bessastöðum

 

7 vetra og eldri stóðhestar

1. Brandur frá Gröf

2. Saumur frá Efri-Fitjum

13.11.2024 23:30

Fyrirlestur

Fræðslunefnd auglýsir

 

27. nóvember nk mun Sonja Líndal koma og halda fyrirlestur um heilsu hestsins. Fyrirlesturinn verður haldinn í grunnskólanum og hefst kl. 20.00. 

Kaffi og kaka í boði.

Verð: 1.500

 

28.10.2024 08:18

Þytsheimar

                                                                                                                      
 

Búið er að opna reiðhöllina og því hægt að kaupa sér kort í hana. Frekari upplýsingar hjá Ragnari í síma 869-1727 eða á messenger. 

Um liðna helgi,  25. - 27. október, var Reiðmaðurinn í höllinni en þær helgar sem Reiðmaðurinn verður til viðbótar á þessu ári eru:

15. - 17. nóvember

13. - 15. desember

02.10.2024 09:52

Þytsfélagi ársins og keppnisárangur

Hestamannafélagið Þytur óskar eftir tilnefningum frá félagsmönnum um Þytsfélaga ársins, sendið nafn og stutta skýringu á tilnefningunni á palmiri@ismennt.is.

Einnig óskum við eftir því að knapar sendi inn keppnisárangur ársins vegna knapaverðlauna.

Stjórnin.

Flettingar í dag: 329
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 351
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 1575386
Samtals gestir: 79763
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 08:39:20