05.11.2012 12:21

Ráðstefnan Hrossarækt 2012

"Ráðstefnan Hrossarækt 2012 verður haldin í félagsheimilinu Hlégarði, Mosfellsbæ, laugardaginn 17. nóvember og hefst kl. 13:00. Ráðstefnan er öllum opin sem láta sig íslenska hrossarækt varða jafnt fagfólki sem áhugamönnum. 

Ráðstefnustjóri: Víkingur Gunnarsson.
 
Dagskrá: 
13:00 Setning - Kristinn Guðnason formaður Fagráðs í hrossarækt
13:05 Hrossaræktarárið 2012 – Niðurstöður kynbótamats - Guðlaugur V. Antonsson, hrossaræktarráðunautur BÍ
13:30 Heiðursverðlaunahryssur með afkvæmum 2012 
14:10 Verðlaun, hæsta aðaleinkunn ársins (aldursleiðrétt)
14:15 Verðlaun, knapi með hæstu hæfileikaeinkunn ársins (án áverka)
14:20 Erindi:
- Líkamlegt álag á hross í kynbótasýningum, Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir, Háskólanum á Hólum
15:00 Tilnefningar og verðlaun fyrir ræktunarmann/menn ársins 2012
15:15 Kaffihlé
15:45 Umræður um ræktunarmál almennt
17:00 Ráðstefnuslit"

30.10.2012 18:58

Vöru- og sölukynning

Þann 1. desember nk. verða verslanirnar Kidka, Knapinn Borgarnesi ofl. með kynningu og sölu á vörum sínum í Þytsheimum.  Þetta mæltist vel fyrir í fyrra, nýtið ykkur tækifærið og verslið í heimabyggð! smiley Nánar auglýst síðar.  

Fræðslunefnd

 

30.10.2012 15:45

Sigríður Ólafsdóttir ver meistararitgerð sína

Föstudaginn 2. nóvember n.k. mun Sigríður Ólafsdóttir verja meistararitgerð sína um söluverðmæti íslenskra hrossa við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Athöfnin hefst kl. 14 og verður í Ásgarði. Leiðbeinendur eru Þorvaldur Kristjánsson og Daði Már Kristófersson. Prófdómari er Sveinn Agnarsson, Háskóla Íslands. Helsta takmark búfjárræktar er að auka arðsemi ræktunarstofnsins með því að bæta eiginleika hans. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á því hvaða eiginleikar íslenskra hrossa eru verðmætastir í ræktun. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt. Annars vegar að safna gögnum um eiginleika og söluverð einstakra hrossa til að meta hvernig mismunandi eiginleikar hafa áhrif á verð. Hins vegar að kanna hagfræðilegt vægi þeirra eiginleika sem eru innifaldir í kynbótamati fyrir íslensk hross og bera saman hagfræðilegt vægi og núverandi vægi þessara eiginleika. http://www.lbhi.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6374Rannsóknin fór þannig fram að gögnum var safnað frá hrossabændum víðs vegar um land um seld hross á árunum 2006-2009. Send voru út eyðublöð til útfyllingar, eitt fyrir hvert selt hross, þar sem ræktendur gáfu seldum hrossum einkunn fyrir gangtegundir og sköpulag. Einnig var safnað upplýsingum um aldur, kyn, lit, hvort hrossið var selt innanlands eða erlendis, hvort hestar voru stóðhestar eða geldingar, hver BLUP einkunn hrossanna var, hvort þau voru sýnd eða ekki og hvort þau höfðu tekið þátt í keppni eða ekki, hvort þau voru tamin eða ekki, hvernig skapgerðareiginleikar hestsins voru, fjölda mánaða í tamningu, kynbótadómseinkunn föður og móður ásamt kynbótadómseinkunn einstaklinga sem voru sýndir. Niðurstöður verðlagsgreiningar sýndu að búaáhrif voru langstærsti áhrifavaldur á verð hrossa. Brokk, vilji og geðslag, háls, herðar og bógar og BLUP einkunn höfðu jákvæð áhrif á verð, ásamt því að stóðhestar voru verðlagðir hærra en hryssur og geldingar. Aldur við sölu hafði jákvæð áhrif á verð sýndra hrossa en neikvæð áhrif á verð ósýndra hrossa. Niðurstöður hagfræðigreiningar benda til þess að sköpulag í kynbótadómi eigi að gilda minna en verið hefur, og jafnframt að kostir eigi að gilda meira en verið hefur.

 

29.10.2012 10:13

Reiðnámskeið!

Komnar eru hugmyndir að nokkrum  námskeiðum fyrir fullorðna í vetur. Okkur langar að kanna áhuga ykkar félagsmanna á eftirfarandi námskeiðum:

-Járninganámskeið

-Knapamerki 1 og 2

-Byrjendanámskeið

-Reiðnámskeið fyrir lengra komna

-Viltu læra að leggja á skeið?

-Viltu bæta þig í keppni?

-Frumtamninganámskeið.  Stefnan er að hafa þetta námskeið núna í nóv-des. 

Ef þið hafið aðrar óskir eða hugmyndir að námskeiðum, látið okkur þá endilega vita. 

Til að námskeið verði haldið verður að vera næg þáttaka, því er það mikilvægt að þið látið okkur vita ef áhugi er fyrir hendi! smiley Sérstaklega gildir þetta um frumtamningarnámskeiðið þar sem það yrði vonandi haldið fljótlega.

Maríanna sími:896 3130

Alda sími: 847 8842

 

28.10.2012 20:28

Uppskeruhátíð æskulýðsstarfs Þyts

Í gær var uppskeruhátíð æskulýðsstarfsins hjá hestamannafélaginu Þyti. Þar var farið yfir starf ársins og vetrarstarfið kynnt. Allir þátttakendur fengu viðurkenningu og smá gjöf frá æskulýðsnefndinni. Á myndinni hér að ofan er hluti af krökkunum sem tóku þátt í starfinu, fleiri myndir eru í myndaalbúminu.

Viðurkenningar voru veittar fyrir Knapa ársins í barnaflokki og unglingaflokki.


Karitas Aradóttir var valin Knapi ársins í barnaflokki

 

Hér er Karitas á Gyðju frá Miklagarði á gæðingamóti Þyts.


Helga Rún Jóhannsdóttir var valin Knapi ársins í unglingaflokki.

Hér er Helga Rún á Prins frá Hesti á íþróttamóti Þyts.

 

 

 

 

28.10.2012 14:28

Uppskeruhátíðin í gærkvöldi

Uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtaka Vestur-Húnavatnssýslu og hestamannafélagsins Þyts var haldin laugardagskvöldið 27.október sl. Veittar voru viðurkenningar fyrir hæst dæmdu stóðhesta og hryssur í öllum flokkum.  Hæst dæmda hrysssan og hæst dæmdi stóðhesturinn á árinu hlutu einnig sérstök verðlaun en það voru að þessu sinni Návist frá Lækjamóti (a.e 8,21) Bassi frá Efri-Fitjum (a.e 8,15). 

Ræktunarbú ársins er Efri-Fitjar þeirra Gunnars og Grétu. Gunnar og Gréta tóku við fleiri verðlaunum þetta kvöld m.a sem eigendur heiðursverðlaunahryssunnar Ballerínu frá Grafarkoti, frábær árangur hjá þeim.

Hestamannafélagið veitti síðan stigahæstu knöpum viðurkenningar en það voru í ár, Jónína Lilja Pálmadóttir í ungmennaflokki, Vigdís Gunnarsdóttir í 2.flokki og Ísólfur Þ. Líndal í 1.flokki.

 

Ræktunarbú ársins 2012 er Efri-Fitjar

Knapar ársins eru, í ungmennaflokki Jónína Lilja Pálmadóttir, í 2. flokki Vigdís Gunnarsdóttir og í 1. flokki Ísólfur L Þórisson.

 

myndir frá hátíðinni eru komnar inn í myndaalbúm hér á síðunni.

 

24.10.2012 10:52

Dagatal Þyts 2013

Kæru félagsmenn og aðrir. 

Dagatals Þyts 2013 er nú í vinnslu og óskum við eftir myndum til að skreyta dagatalið. Dagatalið er mikilvægur þáttur í fjáröflun 

fyrir félagið okkar og væri gaman að hafa sem fjölbreyttastar myndir í því. 

Vinsamlegast sendið á isolfur@laekjamot.is.

 

 

 

23.10.2012 08:25

Landsþing Hestamanna hvetur hestamenn að gera athugasemd við frumvarpsdrög að umferðarlögum.

Ekkert varðandi réttarstöðu hestamanna  er í frumvarpi til nýrra umferðarlaga

Afar ötult starf hefur verið unnið í Samgöngunefnd LH undanfarið og skilaði hún af sér veglegri skýrslu samgöngunefndar fyrir árin 2010 og 2012 má m.a. finna samskipti formanns nefndarinnar, Halldór Halldórsson, við alþingismenn vegna reiðvegamál og um óskiljanlega ástæðu að skilgreining á reiðvegi sé dottin úr umferðalögum. 

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til nýrra umferðalaga og þar er ekki að finna neitt er varðar réttarstöðu ríðandi umferðar á skilgreindum reiðvegum. Halldór benti á þetta á Landsfundi LH og vakti athygi á því að frestur til að gera athugasemd við frumvarpið rennur út næstkomandi miðvikudag, 24. október.

Í kvöld barst hvatning til allra sem vilja láta sér málið varða um að gera athugasemd við hið nýja frumvarp. Til glöggvunar hefur verið skrifað skjal sem hægt er að nota við gerð athugasemdarinnar.  Þar sem er feitletrað í textanum breytir fólk í Við ef fleiri en einn eru um póstinn, ekki gleyma að setja undir nafn / nöfn og kennitölu / kennitölur. "Sýnum nú einu sinni mátt okkar hestamanna," segir í pósti frá Halldóri.

Uppkastið fylgir hér með og er ekki úr vegi að hvetja alla hestamenn að sýna samstöðu. Athugasemdum þarf að skila inn til Nefndarsvið Alþingis fyrir 24. október nk.

______________________________________________________________________________________________________________________

Nefndasvið Alþingis
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis
nefndasvid@althingi.is

Frumvarp til umferðarlaga 179. mál.

Í frumvarpi til nýrra umferðalaga er ekki að finna skilgreiningu á reiðvegum eða neitt er varðar réttarstöðu ríðandi umferðar á skilgreindum reiðvegum, stígum eða slóðum og geri ég undirritaður alvarlegar athugasemdir við að svo sé ekki.

Það verður að rúmast í nýjum umferðarlögum ákvæði þess efnis að akstur vélknúinna ökutækja sé óheimill á skilgreindum reiðstígum og slóðum.

Virðingarfyllst

Nafn:

Kt:

_____________________________________________________________________________________________________________________ 


Hestamenn! Ég  hvet ykkur til að senda inn athugasemdina hér að ofan. Hestamenn eru sagðir vera "lélegur þrýstihópur" af embættismönnum, stjórnmálamönnum og sveitarstjórnarfólki, vegna þess hve okkur gengur illa að standa saman að málum.  En nú skulum við öll senda inn athugasemd því það er með öllu óþolandi að  reiðvegir og réttarstaða hestamanna á reiðvegum sé ekki skilgreind í umferðarlögum. Göngustígar og hjólastígar eru hins vegar skilgreindir í þessum frumvarpsdrögum.
Og koma svo!! senda inn athugasemd fyrir miðvikudaginn 24. október.!!
Með kveðju
Ása Hólmarsdóttir, Dreyra og landsþingsfulltrúi í ferða- og umhverfisnefnd 2012.

09.10.2012 10:51

Tillögur birtar fyrir Landsþing

 

44 tillögur liggja fyrir 58. Landsþingi LH sem haldið verður á Reykjavík Natura dagana 19. og 20. október næstkomandi. Tillögurnar hafa nú verið birtar á vef LH sem og dagskrá þingsins. Dagskráin er þó birt með fyrirvara um örlitlar breytingar.

Hestamenn og þingfulltrúar eru hvattir til að kynna sér tillögurnar vel.

Smellið hér til að skoða tillögurnar eða hér til að skoða dagskrána.

04.10.2012 21:24

Uppskeruhátíð Þyts og Hrossaræktarsamtaka V-Hún

 

 

Það styttist gott fólk.............

Hátíðin verður haldin laugardaginn 27. október nk. í félagsheimilinu á Hvammstanga. Þessi frábæra skemmtun hefst kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:30. Okkar ástsæli Þórhallur Magnús Sverrisson sér um að fóðra mannskapinn. Og hljómsveitin Klaufar sjá um að halda uppi stuðinu fram á nótt. Skemmtiatriðin verða á sínum stað eins og vant er :)

Matseðill og miðaverð verða auglýst nánar síðar....

 

TAKIÐ KVÖLDIÐ FRÁ

SKEMMTINEFNDIN

 

04.10.2012 11:40

Uppskeruhátíð barna og unglinga

 

 Laugardaginn 27. október kl. 13-15 verður Æskulýðsnefndin með uppskeruhátíð fyrir börn og unglinga sem tóku þátt í starfinu hjá Þyti síðastliðinn vetur og sumar.

Veittar verðar viðurkenningar fyrir þátttökuna í starfinu, greint frá því hvað verður framundan og tekið við skráningum í námskeið vetrarins. Að venju munum við svo gæða okkur á kræsingum og munum við enn og aftur leita til frábærra foreldra og aðstandenda barnanna um að hjálpa okkur með að gera borðið sem girnilegast. Við getum seint þakkað frábær viðbrögð foreldra og forráðamanna við hvers konar aðstoð sem þeir eru fúsir að veita í æskulýðsstarfinu.

Vonumst til að sjá sem flesta sem tóku þátt í hestafimleikunum, reiðþjálfun, Knapamerkjum, sýningum, keppnum og öðru skemmtilegu sem við gerðum á árinu. Bæði börnin og unglingana og aðstandendur þeirra.

Nefndin

03.10.2012 10:14

Þytsmerki og bindi

 

 

Hægt er að kaupa merki félagsins og bindi hjá Kollu. Merkið kostar 2.300 og bindið 2.500.

24.09.2012 15:16

Uppskeruhátíð 2012

    

Uppskeruhátíð Þyts og Hrossaræktarsamtaka V-Hún verður haldin laugardaginn 27. október nk, TAKIÐ KVÖLDIÐ FRÁ...

nánar auglýst síðar...


Skemmtinefndin

 

19.09.2012 09:37

Húnavatnssýslur bætast við KortasjánaTil viðbótar við reiðleiðir í kortasjánni, sem voru 5586 km af reiðleiðum á suður- og vesturlandi, eru
komnir 1278 km af reiðleiðum í Húnavatnssýslum. Um er að ræða flestar stofn- og héraðsleiðir í sýslunum. Alls eru því 6864 km af reiðleiðum skráðir í kortasjána. Næst verður farið í skráningu á reiðleiðum í Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslum og er ráðgert að þær verði komnar inn fyrir áramót.

Allar ábendingar um hvað eina sem betur má fara við skráninguna eru vel þegnar og sendist á undirritaðan bilamalunh@simnet.is eða á Sæmund Eiríksson klopp@simnet.is

http://www.lhhestar.is/is/moya/news/hunavatnssyslur-baetast-vid

Halldór H. Halldórsson
Samgöngunefnd LH.

Flettingar í dag: 230
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 441
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 1160058
Samtals gestir: 62886
Tölur uppfærðar: 24.7.2024 07:26:51