Færslur: 2008 Október

31.10.2008 09:49

Matseðillinn fyrir Uppskeruhátíðina annaðkvöld

Ef þú ert ekki búin/n að kaupa miða á Uppskeruhátíðina þá ertu alveg að verða of sein/n þar sem miðasölu lýkur á hádegi í dag. Pantanir í síma 451-2465 í Söluskálanum.

Meðseldin verður eins og áður hefur komið fram í höndum meistarakokksins, Þórhalls Magnúsar Sverrissonar.

Forréttahlaðborð þar sem meðal annars er boðið upp á:
Reyktan lunda, maltgljáð sjávarréttar terrina, kjúklingalifur með fíkjum í koníakslegi, egg að hætti bænda, Sirizzo pylsa, gráðostur, olívur, heitreyktur lax, piparrót og caviar. Sjávarréttarsalat, hreindýrapate með berjasultu, antipastó, brauð og aðrar kræsingar.

Aðalréttur:
Reykt andarbringa, hvítlauksmarinerað lamb, kartöflukúlur og margt fleira.

Eftirréttur:
Heit súkkulaðikaka, ís og marineraðir ávextir.

30.10.2008 20:45

Viðtalið


Fanney og Logi í nýju tamningaaðstöðunni
 

Mánaðarlega í vetur mun ég taka viðtöl við hestamenn í Húnaþingi og grafast fyrir um hvað fólk er að sýsla þessa dagana og hvaða hesta fólk er með á húsum hjá sér. Fyrstu viðmælendur mínir eru Fanney og Logi á Hrísum II.

 

Fanney og Logi keyptu í byrjun árs jörðina Hrísa II, þau fengu hana afhenta í maí  og hafa verið að breyta hluta af 530 fermetra fjárhúsi í hesthús. Það verða 19 stíur í hesthúsinu, 13 einhesta og 6 tveggja hesta. Síðan ætla þau að nota 2/3 af 480 fermetra hlöðu sem reiðaðstöðu.

Ég ákvað að kíkja í Hrísa og heyra í þeim hljóðið því ekki er hægt að ná í þau í síma eða senda þeim e-meil.J

 

Hvenær er stefnt að því að fyrsta hrossið verði tekið inn í nýja hesthúsið á Hrísum?

Stefnan er að taka inn í byrjun nóvember.


Verður reisugildi?

Það er aldrei að vita


Hvað verðið þið með marga hesta á járnum í vetur?

Það verða 25 hross inni. 10-12 sem við eigum og afgangurinn verða hross frá öðrum.


Verðið þið með á innanhúsmótunum?

Já, við verðum örugglega með eitthvað til að taka þátt!


Af ykkar hrossum.   hver eru efnilegustu hrossin sem verða í húsinu í vetur?

Við verðum með spennandi hross sem fara á fjórða vetur undan heimahestunum Órator, Gretti og Tvinna frá Grafarkoti og Sædyn frá Múla. Það verður gaman að sjá hvernig þau koma út, undan þessum hestum sem við þekkjum mjög vel og líkar vel við. En ætli við bindum ekki mestar vonir við brúnskjótta 4 vetra hryssu, fyrsta afkvæmið undan 1. verðlauna hryssunni Ásjónu hennar Fanneyjar og Órator. Eins líst okkur vel á bleika Hágangsdóttir sem fer á 4 vetur og Rauðskjótta Rauðskinnadóttir sem fer á 5 vetur. Þannig að við erum spennt fyrir vetrinum og höldum að við verðum bara ágætlega ríðandi.

 

Undan hvaða stóðhestum eru folöldin ykkar sem fæddust síðastliðið vor?

Við fengum þrjú undan Hóf frá Varmalæk og hestfolald undan Geisla frá Sælukoti.

 

Undan hvaða stóðhestum eignist þið folöld á næsta ári?

Við fáum tvö undan Álfi frá Selfossi, þrjú undan Gretti frá Grafarkoti, eitt undan Roða frá Múla og kannski eitt undan Klettsyninum Kufl frá Grafarkoti.

 

Takk fyrir Hrísabændur og gangi ykkur vel!


Fleiri myndir af nýja hesthúsinu má sjá í myndaalbúminu.

29.10.2008 13:02

Kvennareiðin 2008

 
Komnar inn fullt af myndum inn í myndasafnið frá Kvennareiðinni.

26.10.2008 23:01

LH þingi lokið

Friðsamt LH þing, en fimmtugasta og sjötta Landsþing LH tókst prýðilega. Nokkrar tillögur voru samþykktar, sem til framfara þóttu, en margar voru felldar. Allmörgum tillögum var vísað til stjórnar eða í milliþinganefnd. Engin átakamál lágu fyrir þinginu, sem var friðsamt.

Tvær tillögur velgdu þingheima örlítið undir uggum. Var það tillaga Loga um að hestur sem missti skeifu í keppni væri sjálfkrafa úr leik, og tillaga Fáks um að ungmenni fengju að keppa upp fyrir sig í meistaraflokki. Tillaga Loga var samþykkt með breytingu en tillaga Fáks var felld. Einnig hitnaðu mönnum nokkuð í hamsi þegar rædd var tillaga Gusts um að félagsjakkar yrðu skylda. Tillagan var samþykkt með breytingu sem dró úr henni bitið.

Sigrún fékk flest atkvæði í varastjórn LH, 132 atkvæði.

Nánar verður fjallað um einstök mál hér á
www.lhhestar.is á mánudag.

heimild:
www.lhhestar.is

24.10.2008 22:14

VIÐ fengum æskulýðsbikarinn 2008!!!

 

Nú stendur yfir LH þing og á þinginu er æskulýðsbikarinn afhentur. Við val á handhafa æskulýðsbikars LH er horft til þess fjölbreytta starfs sem félögin hafa í boði fyrir börn, unglinga og ungmenni í sínu félagi.

Hestamannafélagið Þytur í Vestur-Húnavatnssýslu hlýtur æskulýðsbikar LH fyrir árið 2008. Er það einróma álit að æskulýðsstarfið í félaginu hafi verið til fyrirmyndar.

Sigrún Kristín Þórðardóttir, formaður Þyts, tók við bikarnum. Hún sagði að mikil alúð væri lögð í æskulýðsstarfið í félaginu. Hestakostur barnanna í Þyti væri ekki endilega alltaf sá besti yfir landið. En áhersla væri lögð á að finna hverjum knapa og hesti hlutverk og það væri aðalatriðið.

Innilega til hamingju með árangurinn ÆSKULÝÐSNEFND ÞYTS og allir hinir sem koma að starfinu. FRÁBÆR árangur!!!!


24.10.2008 16:13

Það styttist...

Uppskeruhátíð  Hrossaræktarsamtaka V-Hún

og Hestamannafélagsins Þyts 2008

Hátíð í heimabyggð

Verður haldin laugardagskvöldið 1.nóvember

 í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Matur, gleði og gaman.

Þessi frábæra skemmtun hefst stundvíslega kl 20:30

 en húsið opnar kl 20:00 og það verður sko stemming.

 

Matseldin verður í höndum meistarakokksins, Þórhalls Magnúsar Sverrissonar Sigrúnarsonar.

 

Veislustjórar þetta árið eru okkar eigin Simmi & Jói.

 

Forsala miða og pantanir fara fram í Söluskálanum á Hvammstanga, sími 4512465 og þarf að vera lokið að kvöldi miðvikudagsins 29.október.

Miðaverð á uppskeruhátíðina er kr 5500 matur, skemmtun og ball, en ef þú vilt hins vegar bara skella þér á dansleik með GHG og Ingibjörgu, sem hefst kl 00:00, þá kostar það litlar 2700 kr.

Enginn posi á staðnum!

 

Eftirfarandi bú eru tilnefnd ræktunarbú ársins 2008 af Hrossaræktarsamtökum V-Hún.

Grafarkot - Lækjamót - Syðri Vellir

           

Athugið að það eru allir velkomnir á þessa frábæru skemmtun .

Siggi prestur kom í fyrra og honum fannst svakalega gaman.

Þú þarft ekki að vera hestamaður

Þú þarft ekki heldur að vera prestur

Svo framarlega sem þú átt lausan dag, láttu sjá þig

Sjáumst nefndin.


Hrannar Haraldsson,
gaufastu til að láta sjá þig!

24.10.2008 11:29

Borga borga borga...

Eftir helgi verða sendir út greiðsluseðlar með tilheyrandi kostnaði til þeirra sem eiga eftir að greiða fyrir Þytspeysurnar sínar. Svo ef þið viljið losna við þennan innheimtukostnað getið þið millifært beint inn á 1105-26-1081 kt. 550180-0499.

20.10.2008 15:04

Dagatal Þyts 2009

Ef þið eigið fallegar myndir til að setja á dagatal Þyts, endilega sendi á mailið sigeva74@visir.is eða á kolbruni@simnet.is fyrir mánudaginn 27. okt. nk.
Myndirnar þurfa að vera í góðri upplausn.

16.10.2008 20:11

Uppskeruhátíð 2008Uppskeruhátíð Æskulýðsnefndar Þyts verður haldin föstudaginn 31.október n.k. í Félagsheimilinu Hvammstanga og hefst hún klukkan 17.00

Við hvetjum alla til að mæta sem hafa verið með okkur á árinu í æskulýðsstarfinu og eiga með okkur skemmtilega stund.
Einnig ræðum við örlítið um komandi vetrarstarf.

Kveðja Æskulýðsnefnd Þyts

16.10.2008 17:42

Þytspeysur

Er líklega að fara að panta fleiri peysur, það eru nokkrir búnir að hafa samband við mig. Ef það eru einhverjir fleiri sem hafa áhuga má senda mér upplýsingar um stærð og fl. á e-mailið kolbruni@simnet.is

11.10.2008 10:25

Uppskeruhátíð Þyts

Nú er að koma að því að hin árlega uppskeruhátíð Þyts og hrossaræktarsamtaka V-Hún verður haldin á laugardagskvöldinu 1. nóvember og stendur skemmtunin til 2. nóvember emoticon  emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon  emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon emoticon

ALLIR AÐ TAKA KVÖLDIÐ FRÁ...........

Uppskeruhátíðin verður auglýst nánar síðar, með tímasetningum og matseðli.

06.10.2008 11:21

Opinn fundur LM 2008

 

Opinn fundur um Landsmót hestamanna 2008 verður haldinn þann 9. október næstkomandi í íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Fundurinn hefst klukkan 17:00 og stendur til 18:30. Frummælendur á fundinum verða Jóna Fanney Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri LM 2008, Sigurður Ævarsson, mótstjóri LM 2008, og Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur.

 

Haraldur Þórarinsson, formaður LH, segir að tilgangur fundarins sé að fá fram skoðanir sem flestra hestamanna á því hvað tókst vel og hvað hefði mátt betur fara á LM2008 á Gaddstaðaflötum.

"Við hefðum gjarnan viljað sjá þarna eigendur og sýnendur keppnishrossa, formenn og stjórnarmenn hestamannafélaganna, og svo auðvitað áhorfendur og gesti; hinn almenna hestamann," segir Haraldur. "Markmið okkar er að Landsmótin haldi áfram að þróast; að næsta mót verði ávallt ennþá betra og glæsilegra en það síðasta. Ég held að opinská og hreinskiptin umræða á málþingi sem þessu komi til með að skila okkur fram á veginn. Ég hvet alla hestamenn til að mæta og láta í sér heyra."

 

02.10.2008 08:40

Víðidalstungurétt á laugardaginn

Laugardaginn 4.október nk.verður stóði Víðdælinga réttað í Víðidalstungurétt sem stendur í landi  Litlu-Ásgeirsár.

Hrossunum er smalað föstudaginn 3.október og rekin til byggða.
Á laugardagsmorgun 4.október  kl 10.00 eru hrossin svo rekin til réttar og réttarstörf hefjast.
Búast má við því að hrossin séu um 500 auk folalda, og hafa Víðdælingar  löngum viljað meina að um stærstu stóðréttir landsins sé að ræða, ekki hvað fólksfjölda snertir heldur fjölda hrossa, en með auknum áhuga fólks á hrossarækt og hestamennsku hefur verið sívaxandi fjöldi gesta sem vilja  taka þátt í þessari hátíð hrossabænda,bæði í smöluninni og réttinni.

Boðið er uppá að fá að fara ríðandi fram í löndin sem smöluð eru, þyggja þar veitingar og fylgja svo gangnamönnum og stóðinu til byggða.
Upplýsingar hjá ferðaþjónustuaðilum héraðsins.

Dagskrá réttardagsins er eftirfarandi.
Kl. 10:00 Stóðið rekið til réttar og réttarstörf hefjast.
Kl. 13:00 Sölusýning við réttina. Eftir sýningu verða hrossin til sýnis og prufu við hesthúsið á Stóru-Ásgeirsá.
Kl.14:30 Uppboð á völdum hrossum. M.a. verður boðið upp merfolald undan Hóf frá Varmalæk og Kilju frá Steinnesi.
Kl. 15:00 Dregið í happdrættinu. Aðalvinningurinn er folald.

Við réttina er kvenfélag sveitarinnar með veitingar og hefð hefur skapast fyrir því að þeir sem versla veitingar taki með því þátt í happdrætti, þar sem m.a. hefur verið folald í vinning.

Loka hnykkur hátíðarinnar er svo Stóðréttardansleikurinn sem haldinn er í Félagsheimilinu Víðihlíð á laugardagskvöldið og þar mun Hljómsveitin Sixties leika fyrir dansi frá kl 23:00 til 03:00.

Allir þeir sem gaman hafa af hrossarækt,hestamennsku, hitta hrossabændur og taka þátt í störfum og gleði þeirra eiga fullt erindi í stóðréttir í Víðidal. 

Verið velkomin.

01.10.2008 11:49

Sölusýning

Það stefnir allt í feykna sölusýningu í stóðréttinni um helgina. Það er búið að skrá fjölda hrossa, þannig að allir ættu að geta fundið sér hest við hæfi.
Áætlað er að sýningin byrji klukkan 13:00 á "nýja" veginum við réttina. (þeim megin sem áin er)
Þá er um að gera að hlaupa og kaupa ;)

Sjáumst!!
  • 1
Flettingar í dag: 199
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 441
Gestir í gær: 74
Samtals flettingar: 1160027
Samtals gestir: 62885
Tölur uppfærðar: 24.7.2024 07:05:36