Færslur: 2013 September

26.09.2013 12:07

Frumtamningarnámskeið og sýnikennsla með Iben Andersen

 

Dagana 9. - 13. október verður haldið námskeið með tamningakonunni Iben Andersen, námskeiðið verður haldið á Gauksmýri. Iben hefur vakið athygli með nýstárlegum aðferðum við frumtamningar og við að leysa vandamál með erfið og spennt hross. Örfá pláss laus. Nánari upplýsingar hjá Tryggva Björnssyni í síma 898-1057.

Sýnikennsla verður síðan haldin sunnudaginn 13. október kl. 16.00 á Gauksmýri, reiknað er með að sýningin taki um það bil 3 tíma.

Allir velkomnir
Verð er 1.500 kr.
Athugið að enginn posi er á staðnum.

http://www.ibenhestar.dk/

25.09.2013 09:06

Stóðrétt og stóðsmölun í VíðidalÞað styttist í eina stærstu stóðrétt landsins en föstudaginn 4. október n.k. verður stóði af Víðidalstunguheiði smalað til byggða. Það er mögnuð sjón að sjá stóðið renna heim í sveitina síðdegis á föstudeginum og eru allir velkomnir að upplifa þessa stemmningu með heimamönnum.

Kaffisala verður í skemmunni á Kolugili milli kl 14 og 17.
Í réttarskúrnum er svo hægt að fá kjötsúpu frá kl 17.Kl. 20:30 verður opið hús í reiðhöllinni á Gauksmýri en þar er verið að vígja nýja aðstöðu.Réttarstörf hefjast svo kl. 10 laugardaginn 5. október þegar stóðið verður rekið er til réttar. Í Víðidalstungurétt má jafnan sjá fjölda efnilegra unghrossa.

Í réttinni á laugardaginn verður uppboð á gæðingsefnum og happdrætti þar sem 1. vinningur er folald. Miði í happdrættinu fæst með því að versla veitingar í réttarskúrnum.

Bændur á Stóru Ásgeirsá bjóða gesti velkomna í hesthúsið milli kl. 15 og 17 á laugardag.

Réttardansleikur í Víðihlíð verður svo á laugardagskvöld.

23.09.2013 09:31

Kennarar fyrir æskulýðsstarf Þyts í vetur.

Nú er verið að skipuleggja vetrarstarfið hjá æskulýðsnefnd Þyts. Það er ljóst að við verðum með kennslu í Knapamerki 3 en okkur vantar fleiri þátttakendur til að geta haft Knapamerki 1 og 2. Einnig stefnum við að því að vera með reiðnámskeið fyrir alla aldurshópa. Mjög gott væri að áhugasamir sendu okkur tölvupóst á thyturaeska@gmail.com og tilgreindu hvernig námskeið þeir vildu helst fá, þannig að við getum skipulagt starfið eins og hentar flestum.

Við erum svo heppin hér í félaginu að hafa mikið af reiðkennurum. Nú langar okkur að fá tilboð frá þeim reiðkennurum sem hafa tök á að aðstoða okkur við æskulýðsstarfið, bæði hvað varðar hugmyndir um hvað er hægt að gera fyrir alla aldurshópa í æskulýðsstarfinu og svo fyrir Knapamerki 3 og hugsanlega Knapamerki 1 ef næg þátttaka fæst þar. Endilega hafið samband við Guðnýju í síma 893 7981 eða sendið tölvupóst á thyturaeska@gmail.com.

20.09.2013 09:48

Nýtt smyrsli - markaðskönnun

Urðaköttur ehf, staðsett á Syðra-Skörðugili í Skagafirði, er fyrirtæki sem á og rekur minkabú. Um 12 tonn af minkafitu falla til við vinnslu minkaskinna árlega og fram til þessa hefur minkafitunni verið fargað með tilheyrandi kostnaði og umhverfisálagi. Á Syðra-Skörðugili hefur einnig verið stunduð hrossarækt, tamningar og þjálfun hesta um áratuga skeið. Ábúendur á Syðra-Skörðugili ákváðu að samtvinna þekkingu sína í þessum tveimur búgreinum og þróa smyrsl úr minkafitu til meðhöndlunar á útbrotum og smásárum á hrossum, t.d. múkki, og einnig leðurfeiti til að setja á reiðtygi.

Markaðskönnun þessi var búin til til þess að átta sig betur á neytendavenjum hestamanna og þörfum.  Biðjum við ykkur um að gefa ykkur nokkrar mínútur til þess að svara könnuninni.

Með fyrirfram þökk, eigendur Urðarkattar ehf.

Slóð inná könnun:

http://tinyurl.com/q4lelbn


11.09.2013 13:01

Vatnsnesvegur 711Verið er að leggja í dag og á morgun klæðningu út Vatnsnesveginn frá Sláturhúsinu og út að Ytri-Kárstöðum. Það má alls ekki fara á hesti inn á malbikið fyrr en í fyrsta lagi eftir helgi.

03.09.2013 22:38

Hestafimleikar !!!


Nú eru hestafimleikarnir að byrja aftur.
Stefnt er á að hafa fyrstu æfingu á föstudag 6. sept. í íþróttahúsinu á Laugarbakka
kl 14:30 - 15:30
Nokkur pláss eru laus og viljum við biðja áhugasama að hafa samband við Irinu í
síma 897 1960 sem gefur allar nánari upplýsingar.
 
Skemmtileg íþrótt fyrir stráka og stelpur.
 
Bestu kveðjur
Irina og Kathrin
  • 1
Flettingar í dag: 241
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 5474
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 1140674
Samtals gestir: 61899
Tölur uppfærðar: 13.7.2024 02:20:49