Færslur: 2008 Nóvember

28.11.2008 20:04

Dagatal Þyts 2009

Dagatalið 2009 er komið í hús, það kostar 2.000.- og er til styrktar félagsstarfi Þyts.
Hægt er að panta það á e-meil
sigeva74@hotmail.com fyrir 10. des og kostar það þá 1.800.- emoticon 
    Myndirnar í dagatalinu eru myndir sem félagsmenn hafa sent okkur og í ár fengum við um 60 myndir og auðvitað allar mjög fallegar og var því valið mjög erfitt!!

26.11.2008 19:42

Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna árið 2010



Hestamannafélagið Þytur mun halda Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna í árið 2010 eins og flestir vita. Það kemur fram í fundargerð Byggðaráðs á heimsíðu Húnaþings vestra að á síðasta fundi var farið yfir hugmyndir um tengingu hesthúsahverfisins og vallarsvæðis félagsins með byggingu reiðleiða og ræsis yfir Ytri-Hvammsá. Fulltrúar félagsins leggja mikla áherslu á mikilvægi þessara breytinga að þeim verið unnið á árinu 2009.

www.hunathing.is

11.11.2008 14:43

Lopapeysa

Eftir kvennareiðina fannst svört rennd lopapeysu með hvítu og gráu munstri í Víðidalstungurétt.sem saknar hennar getur haft samband við Villu í síma 661-4549.

11.11.2008 08:51

Jónas Vigfússon kynnir hugmyndir að kynbótabraut

Jónas Vigfússon, formaður Funa í Eyjafjarðarsveit, hefur sett fram hugmyndir að nýjum útfærslum á sýningarbraut fyrir kynbótahross. Önnur er útfærsla á beinni braut með lykkjum í endum, en hin gerir ráð fyrir áföstum hringvelli.

Jónas kynnti þessar hugmyndir á ráðstefnunni Hrossarækt 2008. Fengu þær góðar undirtektir. Jónas er ekki óvanur hönnun keppnisvalla fyrir hestamann. Hannaði 300 metra hringvöllinn og hinn svokallaða Þ völl á sínum tíma.

Jónas gerir ráð fyrir að í endum sýningarbrautarinnar verði mjúk lykkja, og skógur, svo að hrossin sjái alltaf til lands. Þannig megi koma í veg fyrir, eða í það minnsta minnka, kvíða hjá ungum hrossum. Svar hans við hugmyndum um að færa kynbótasýningar inn á hringvöll er að tengja 300 m hringvöll, eða minni eftir því hvað menn telja heppilegt, við beinu brautina. Hægt er þá að nota bæði formin saman, eða sitt í hvoru lagi, allt eftir kröfum og óskum.

Bein braut eftir teikningu Jónasar er nú í byggingu á Melgerðismelum. Myndirnar sem fylgja hér með eru annars vegar teikningar af umræddum vallarformum, og ein mynd frá byggingu vallarins á Melgerðismelum.

 



Heimild: www.lhhestar.is

10.11.2008 10:00

Knapar ársins ...

Þórður Þorgeirsson knapi ársinns 2008

Þórður Þorgeirsson knapi ársins og konungur kynbótaknapanna, aldrei sterkari. Setti met í fjölda sýndra hrossa og hélt hæstu meðaleinkunn, flest verðlaun á Landsmóti og þrefaldur sigurvegari, náði að slá fyrra met sitt í 7. vetra hryssna og eldri á Lukku frá Sóra-Vatnsgarði.

Einkunnir í hinum flokkunum voru hærri en nokkru sinni fyrr, einnig kom hann við á hringvellinum.
Þórður Þorgeirsson vann þrenn gullverðlaun á Landsmóti á Lukku og hæst dæmdu stóðhestunum, Gaum og Óm. Þórður sýndi tvö kynbótahross í 2. sæti og eitt í 3. sæti. Alls með 7 hross í efstu fimm, 13 í efstu tíu sætunum. Sýndi 49 hross til 1. verðlauna með meðalhæfileikaeinkunn 8,31.

Gæðingaknapi ársins

Árni Björn Pálsson. Kom sá og sigraði í dramatískum A-flokki gæðinga á Landsmóti, á Aris frá Akureyri með 8,86 í einkunn. Árni Björn kom víðar við, sigraði til að mynda í B-flokki í Gæðingakeppni Fáks.

Skeiðknapi ársins

Sigurður Sigurðarson Landsmótsmeistari, Íslandsmeistari og ósigrandi í 100 metra skeiði á Drífu frá Hafsteinsstöðum. Besti tími 7,13 sekúndur, undir heimsmeti en meðvindur of mikill. Góðir skeiðsprettir á öðrum hestum, silfur í 150 metrum á Íslandsmóti

Íþróttaknapar ársins

Þorvaldur Árni Þorvaldsson Íslandsmeistari í tölti á hinum víðfræga Rökkva, annar í landsmótstölti. Sigraði á Ístölti í Laugardal fjórða árið í röð (á alls 3
hestum). Annar í tölti á Reykjarvíkurmeistaramóti.

Viðar Ingólfsson sigurvegari í tölti á snillingnum Tuma á Landsmóti hestamanna, sigraði í spennuþrunginni Meistaradeild VÍS, Reykjavíkur- og Fáksmeistari, vann stóðhestakeppni LH á ís, á Íslandsmóti og annar á Ístölti.

Efnilegasti knapinn

Teitur Árnason, unglingurinn magnaði sem varð annar í gæðingaskeiði á Norðurlandamóti. Íslandsmeistari, samanlagður sigurvegari skeiðleika og sigursælastur í 150 metra skeiði. Var efstur í 150 metra skeiði á Gæðingamóti Fáks, Suðurlandsmóti og á Meistaramóti Andvara.

Ræktunarbú ársins í fjórða sinn með 21 hross sýnd í 1.verðlaun. Gunnar og Krisbjörg, Auðsholtshjáleigu

Heimild: www.hestafrettir.is

06.11.2008 20:37

Samþykktar tillögur á LH þingi

Knapar í úrslitakeppni í A flokki þurfa framvegis að vanda sig meira á brokki en hingað til. Samþykkt var tillaga keppnisnefndar LH sem felur í sér breytingar á reglum þar að lútandi. Tillagan er byggð á tillögu frá Fáki sama efnis.

Hvatinn að tillögunni er sá að fram til þessa hefur dugað að sýna tvær heilar langhliðar á brokki, af þeim fjórum hringjum sem að jafnaði eru riðnir, til að hljóta fullnaðareinkunn. Brokksýningar í úrslitum í A flokki hafa oft á tíðum verið mjög óöruggar, jafnvel í B flokki líka. Útlendingar á LM2008 voru til að mynda mjög hissa að sjá hesta í gæðingakeppni sem brokkuðu lítið fá hærri einkunnir en þeir sem brokkuðu af öryggi. Með breytingunni er reglan um brokk skilgreind á sama hátt og tölt. Setningin um að tvær langhliðar dugi er felld út. Gangöryggi er þar með orðið hluti af mati dómara á gangtegundinni.

Önnur breyting sem samþykkt var á þinginu er að Íslandsmót fullorðinna verði einn flokkur.
Keppt verður í einum flokki á Íslandsmóti fullorðinna á næsta ári, og væntanlega framvegis. Tillaga Léttis þess efnis var samþykkt á 56. landsþingi LH. Einnig var samþykkt að keppnisnefnd LH ákveði lágmörk í keppnisgreinum.

Til að koma þessum breytingum í gegn þurfti að gera breytingu á reglugerð 5.2 fyrir Íslandsmót. Var sú breytingartillaga samþykkt. Hún er svohljóðandi:

"Á Íslandsmóti fullorðinna skal keppt í einum styrkleikaflokki. Á Íslandsmóti skal keppt í þeim greinum hestíþrótta sem skilgreindar eru eru í kafla 8 til 8.8 í alþjóðlegum keppnisreglum LH Íslandsmóti skal skipt upp í mót fullorðinna annars vegar og barna unglinga og ungmenna hins vegar. Á Íslandsmóti barna unglinga og ungmenna skal keppt í keppnisreglum þeim sem skilgreindar eru í hverjum aldursflokki. Heimilt er að veita undanþágu til þess að halda mótin saman, sé þess ekki nokkur kostur að halda þau í sitt hvoru lagi.

Einungis þeir sem náð hafa tiltekinni lágmarkseinkunn (lágmarkstíma í skeiðgreinum) hafa rétt til þátttöku. Keppnisnefnd verði falið að ákveða lágmörk á hverju ári í febrúar, en það verði ekki bundið í lögum, til þess að hægt verði að bregðast við of mikilli/lítilli þátttöku með því að hækka/lækka lágmörk. Þess verði gætt í upphafi að lágmörk verði ekki of ströng. Árangur frá árinu áður telst fullgildur."

Af vef LH

05.11.2008 20:43

Svona til gamans...

Fékk sendar þessar myndir frá gesti Uppskeruhátíðarinnar sem heyrði því skot Slimma og Mjóa á Dóra Fúsa og sögurnar frá Landsmótinu. En þessi aðili var líka á LM og hélt að Dóri hefði nú aldeilis unnið fyrir matnum með gítarspili... Spurningin er kannski bara hvort það sé greiðslan sem Slimmi og Mjói hafi viljað fá fyrir matinn.
Á þessum myndum sýnist manni nú að grillsteikurnar hafa kannski ekki verið þær allra dýrustu og ekki grillaðar á svo dýran hátt. emoticon 



  



02.11.2008 17:43

Uppskeruhátíð Þyts og hrossaræktarsamtaka V-Hún

 Knapar ársins 2008

Jæja þá er uppskeruhátíðin afstaðin þetta árið. Það var mjög þétt og mikil dagskrá og var henni ekki lokið fyrr en um eitt og hófst þá dansleikur með GHG og Ingibjörgu. Hátíðin var auðvitað mjög skemmtileg, um matinn sá Þórhallur M Sverrisson og fékk mikið lof fyrir. Veislustjórar voru Slimmi og Mjói (Kjartan og Stebbi) og þeir voru svo sannarlega flottir, skemmtiatriðin voru frábær, Haddý alveg stórkostleg í sínu hlutverki eða eins og hún segir sjálf þá fer hún alltaf yfir strikiðemoticon  Skemmtinefndin stóð sig því rosalega vel eins og vanalega!!!
Viðurkenningar veittar fyrir knapa ársins í þrem flokkum og þá voru verðlaun veitt af Hrossaræktarsamtökunum fyrir efstu hross í öllum flokkum.
Knapi ársins í unglingaflokki er Aðalheiður Einarsdóttir, knapi ársins í ungmennaflokki er Helga Una Björnsdóttir og knapi ársins í flokki fullorðinna er Ísólfur L Þórisson.
Æskulýðsnefndin fékk viðurkenningu fyrir störf sín og frábæran árangur á árinu en Æskulýðsnefnd Þyts hlaut Æskulýðsbikar LH eins og áður hefur komið fram. Tryggvi Rúnar fékk viðurkenningu fyrir frábært starf í þágu félagsins og Tryggvi Björnsson sem var í 2. sæti í vali á knapa ársins, fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur á landsmótinu (skemmtinefndin kaus hann einnig best klædda Þytsfélagannemoticon )

Verðlaunaafhending hrossaræktarsamtakanna var eftirfarandi:

4 vetra stóðhestar:

Kufl frá Grafarkoti, aðaleink. 7,85
5 vetra stóðhestar:
Ræll frá Gauksmýri, aðaleink. 7,99
Ábóti frá Síðu, aðaleink. 7,82
6 vetra stóðhestar:
Grettir frá Grafarkoti, aðaleink. 8,07
7 vetra og eldri stóðhestar:
Vökull frá Síðu, aðaleink. 8,16
Þrymur frá Þóreyjarnúpi, aðaleink. 7,94
4 vetra hryssur:
Saga frá Þóreyjarnúpi, aðaleink. 7,94
Rödd frá Gauksmýri, aðaleink. 7,85
Vinsæl frá Halakoti, aðaleink. 7,82
5 vetra hryssur:
Líf frá Syðri-Völlum, aðaleink. 8,28
Dröfn frá Síðu, aðaleink. 8,00
Skinna frá Grafarkoti, aðaleink. 7,95
6 vetra hryssur:
Huldumey frá Grafarkoti, aðaleink. 8,33
Birta frá Efri-Fitjum, aðaleink. 8,03
Gulltoppa frá Syðsta-Ósi, aðaleink. 8,02
7 vetra og eldri hryssur:
Erla frá Gauksmýri, aðaleink. 8,23
Rán frá Lækjamóti, aðaleink. 8,22
Rödd frá Lækjamóti, aðaleink. 8,06


Ræktunarbú ársins 2008 er GRAFARKOT

Komnar myndir inn í myndaalbúmið.

02.11.2008 17:20

Uppskeruhátíð Æskulýðsstarfsins

 

Á föstudaginn var uppskeruhátíð Æskulýðsstarfsins, fjöldi fólks mætti og í boði voru pítsur, gos og kökur. Uppskeruhátíðin þetta árið var einstaklega skemmtileg þar sem Æskulýðsnefndin tók á móti Æskulýðsbikar LH en Sigrún afhenti nefndinni hann eftir að hafa sjálf tekið við honum á LH þinginu eins og áður hefur komið fram.
Veittar voru viðurkenningar fyrir knapa ársins í barna- og unglingaflokki. Í barnaflokki var það Eydís Anna Kristófersdóttir sem stóð hæst á árinu og í unglingaflokki var það Aðalheiður Einarsdóttir en hún var ekki viðstödd en tók við viðurkenningunni á Uppskeruhátíðinni á laugardagskvöldinu. Alla fór svo yfir starfið á árinu og síðan veitti Hedda viðurkenningar fyrir þátttöku á námskeiðum ársins og að lokum var tekin hópmynd af öllum með æskulýðsbikarinn. Myndir má sjá hér.
  • 1
Flettingar í dag: 149
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 3243
Gestir í gær: 123
Samtals flettingar: 960977
Samtals gestir: 50282
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 01:14:23