Færslur: 2024 Apríl

30.04.2024 18:08

Reiðmaðurinn I

 
 

Frá því í september hafa 14 félagar í Þyti verið á námskeiðinu Reiðmaðurinn I, sem Landbúnaðarháskóli Íslands stendur fyrir. Reiðkennarinn þeirra var Þorsteinn Björnsson. Kennt var eina helgi í mánuði, alls 8 helgar og endað með útskriftarhelgi í hestamiðstöðinni á Miðfossum, rétt hjá Hvanneyri. Um 200 manns voru í Reiðmannsnámi I og II og keppnisreiðmanni víða á landinu í vetur. Síðastliðna helgi komu þessir nemendur saman á útskriftarhelginni þar sem á laugardeginum fengu tveir efstu frá hverjum námskeiðsstað að keppa um efsta sæti í stöðuprófsverkefninu, annars vegar í Reiðmanni I og Reiðmanni II. Á sunnudeginum var svo Reiðmannsmótið þar sem allir nemendur í Keppnisreiðmanninum áttu að keppa og svo máttu allir í Reiðmanni I og II einnig keppa.

 

Að lokinni keppni á laugardeginum hlutu allir nemendur viðurkenningarskjal og efstu keppendur fengu verðlaun. Þytsfélagar stóðu sig mjög vel. Keppnina í Reiðmanni I sigraði Gréta Brimrún Karlsdóttir með hestinn sinn Brimdal frá Efri-Fitjum og Ingveldur Ása Konráðsdóttir varð í sjöunda sæti með hestinn sinn Tígul frá Böðvarshólum. Ingveldur Ása fékk einnig verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn úr náminu öllu í Reiðmanni I.

 

Á sunnudeginum var íþróttamót á útivellinum við Miðfossa. Þar tóku þátt 5 af Þytsfélögunum og stóðu sig með mikilli prýði. Fjórir af keppendunum komust í úrslit og sá fimmti var næstur við úrslit í sinni grein. Tveir af keppendunum sigruðu sína flokka þær Eva-Lena Lohi með Draum frá Hvammstanga sigraði V5 og Gréta Brimrún Karlsdóttir sigraði F2 á hesti sínum Brimdal frá Efri-Fitjum. Aðrir sem komust í úrslit voru Halldór P. Sigurðsson, sem varð 6. í F2 á Muninn frá Hvammstanga og 13. eftir B-úrslit í V2 á Megasi frá Hvammstanga og Guðný Helga Björnsdóttir varð 8. eftir B úrslit í T3 á Boga frá Bessastöðum.

 

Mikil ánægja ríkir hjá þátttakendunum í þessu námi á Hvammstanga, bæði með námið sjálft, skipulagið og ekki síst kennsluna hjá Þorsteini Björnssyni. Boðið verður upp á Reiðmanninn II á Hvammstanga næsta vetur og er mikill spenningur fyrir því.

 

 

 

26.04.2024 09:50

Styrkur frá Ársól

 

 

Kvenfélagið Ársól veitti æskulýðsstarfi Þyts styrk á reiðhallarsýningunni sem haldin var sumardaginn fyrsta. 

Þóra Kristín Loftsdóttir afhenti styrkinn fyrir hönd kvenfélagsins Ársólar  til Ingu Lindar sem tók við styrknum fyrir hönd æskulýðsnefndar. 

Hestamannafélagið Þytur er ákaflega þakklátt fyrir styrkinn og að okkar góða æskulýðsstarf vekji athygli.

26.04.2024 09:48

Aðalfundur 2024

 

Aðalfundur Hestamannafélagsins Þyts haldinn í Þytsheimum þriðjudaginn 12. mars 2024 kl. 19:30.

Mættir 18 félagar

Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Formaður Pálmi Geir Ríkharðsson, stakk upp á Steinbirni Tryggvasyni sem fundarstjóra og Guðnýju Helgu Björnsdóttur sem fundarritara, var það samþykkt.

 1. Skýrsla stjórnar

Formaður flutti skýrslu stjórnar, haldnir 6 stjórnarfundir á árinu, auk þess að vera í miklum samskiptum í gegnum Messenger. Auk þess haldinn félagsfundur og fundur með foreldrum barna í félagshesthúsi. Engin útimót haldin í sumar vegna dræmrar þátttöku sem er mjög leiðinlegt og þarf að finna út hvað veldur dræmri skráningu yfir sumarið. Æskulýðsstarfið var mjög mikið og gott og á æskulýðsnefndin og reiðkennarar hrós skilið. Vísað til góðrar skýrslu æskulýðsnefndar. Eftir fund með Randi Holaker var farið af stað með námskeiðið Reiðmaðurinn, sem mælist mjög vel fyrir. Fóru fulltrúar Þyts á formannafund LH. Ákveðið að vera með tilraunaverkefni um félagshesthús fyrir börn og unglinga sem ekki hafa aðgang að hestum. Er þetta viðamikið verkefni, þátttökugjald er hófstillt og fengust tveir styrkir til þessa. Þeir sem að þessu verkefni koma eiga mikið hrós skilið. Uppskeruhátíðin var haldin að venju og tókst vel. Úrtaka fyrir Landsmót verður líklega sameiginlega með Neista. Íþróttamótið verður haldið í lok maí, í þeirri von að þátttakan verði meiri þar sem fólk verði ekki búið að sleppa hestunum sínum þá. Stjórnin hefur ákveðið að bæta við flokk í knapaverðlaunum sem er skeiðknapi ársins. Auk þess þarf sá sem hlýtur tilnefningu í alla flokka að hafa keppt á þremur mótum yfir árið, að lágmarki einu úti móti og tveimur inni mótum. Fyrir liggur ýmislegt viðhald í reiðhöllinni, taka félagshúsið í gegn og breikka skeiðbrautina. Að lokum þakkaði hann félagsmönnum fyrir samstarfið og Húnaþingi vestra, ÍSÍ, íþróttasjóði, USVH, Landsbankanum og Líflandi fyrir stuðninginn.

 1. Lagðir fram reikningar félagsins

Hagnaður ársins var 2.517.927, eignir í árslok 21.843.288, þar af handbært fé 10.989.007.

 1. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga

Litlar umræður urðu, helst um það sem þarf að gera í reiðhöll og við reiðvöllinn

 1. Árgjald

Samþykkt að hafa árgjaldið óbreytt kr. 4.500 fyrir fullorðna og 1.000 kr. fyrir 17 ára og yngri.

 1. Kosningar

 1. Þrír meðstjórnendur í stjórn félagsins til tveggja ára

Katarina Borg, Fríða Marý Halldórsdóttir og Gréta Brimrún Karlsdóttir voru kosnar með lófataki.

 1. Tveir varamenn stjórnar til eins árs

Anna Herdís Sigurbjartsdóttir og Valgeir Ívar Hannesson voru kjörin með lófataki.

 1. Tveir skoðunarmenn til eins árs

Matthildur Hjálmarsdóttir og Júlíus Guðni Antonsson voru kjörin með lófataki.

 1. Tveir varamenn skoðunarmanna til eins árs

Halldór Sigfússon og Rangar Smári Helgason voru kjörnir með lófataki.

 1. Fulltrúar á héraðsþing USVH

Samþykkt að stjórn finni fulltrúa til að fara þegar að þinginu kemur.

 1. Önnur mál

Formaður þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið og bauð nýja stjórnarmeðlimi velkomna. Jafnframt fór hann yfir skýrslu reiðveganefndar. Framkvæmdir voru samtals fyrir 2.234.000 kr. fór megnið í ofaníburð og endurbætur á Hvammstangaleið, en rúm hálf milljón fór í girðingaframkvæmdir í Víðidalnum. Halldór Sigfússon fór yfir starf reiðveganefndar og sagðist vonast til að framlag til reiðvega verði aukið.

Formaður fór yfir málefni reiðhallarinnar. Ragnar Smári Helgason, Jóhann Albertsson, Óskar Hallgrímsson, Steinbjörn Tryggvason og Halldór Sigurðsson eru tilbúnir að vinna að málefnum reiðhallarinnar og fengu þeir dynjandi lófatak. Ragnar Smári kynnti ársreikning reiðhallarinnar. Ragnari var þakkað fyrir hans vinnu. 

Svo voru ýmsar umræður, t.d. vantar meira fræðslustarf fyrir hinn almenna félagsmann. Spurning hvort völlurinn sé nógu góður til að vera með mót þar í sumar, hann er eitthvað siginn að sunnan og blautur. Gera þarf plan yfir það sem þarf að gera og forgangsraða. Rætt um mótahald og kostnað við mót

 

Fundargerð upp lesin og fundi slitið kl. 20:45

Guðný Helga Björnsdóttir, fundarritari

 

 • 1
Flettingar í dag: 241
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 5474
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 1140674
Samtals gestir: 61899
Tölur uppfærðar: 13.7.2024 02:20:49