Færslur: 2011 Desember

29.12.2011 22:01

Helga Una í 2. sæti í kjöri íþróttamanns ársins hjá USVH


mynd: www.lhhestar.is

Íþróttamaður USVH árið 2011 er Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir körfubolta- og kraftlyftingarkona. Í öðru sæti varð Helga Una Björnsdóttir okkar og í þriðja sæti Helga Margrét Þorsteinsdóttir frjálsíþróttakona.

Helga stóð sig vel á keppnisvellinum á árinu, stóð sig þó best í kynbótabrautinni. Helga Una var  tilnefnd sem efnilegasti knapi ársins 2011 af Landssambandi hestamanna, fimm einstaklingar voru tilnefndir af landinu og var Helga ein af þeim. Baráttan um titilinn var gríðarlega hörð í ár þar sem bæði var Landsmót og Heimsmeistarmót sem er einsdæmi. Helga er yngsti kynbótaknapi sem hefur keppt fyrir Íslandshönd í kynbótasýningum á Heimsmeistaramóti en hún gerði sér lítið fyrir og sýndi Smá frá Þúfu í fyrsta sætið en hún hlaut 8.03 fyrir byggingu og hvorki meira né minna en 8.59 fyrir hæfileika og 8.37 í aðaleinkunn.

Ritari síðunnar sló á þráðinn til Helgu og fékk að heyra hvað hún væri að bralla þessa dagana. Í haust hefur hún verið í Fjölbrautarskólanum á Selfossi og einnig verið með slatta inni eins og hún orðaði það sjálf í hesthúsi á Selfossi, nokkur í tamningu fyrir aðra og einnig hennar eigin hross. Þar er hún með Bikar sinn, sem er sonur Orðu og Parkers. Hann fékk fínan dóm í vor, mikið efni í alvöru keppnishest. Einnig er hún með graðan Akksson á fjórða vetur undan Nös, sem er mjög efnilegur.
Eftir áramót verður Helga svo að vinna á Blesastöðum hjá systur sinni Hólmfríði og Magnúsi. Gaman verður að fylgjast með Helgu á komandi ári.


Helga Una og Bikar26.12.2011 23:00

Íþróttamaður USVH

Miðvikudaginn 28. desember n.k. verður val á íþróttamanni ársins hjá USVH kynnt, en valið stendur á milli sex íþróttamanna. Athöfnin verður í íþróttamiðstöð Húnaþings vestra á Hvammstanga og hefst kl. 19:00.

Eftirtaldir einstaklingar eru tilnefndir til íþróttamanns USVH árið 2011:

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fyrir kraftlyftingar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir fyrir frjálsar íþróttir
Helga Una Björnsdóttir fyrir hestaíþróttir
Hrund Jóhannsdóttir fyrir körfubolta
Reynir Aðalsteinsson fyrir hestaíþróttir
Tryggvi Björnsson fyrir hestaíþróttir


                                  

 

     


Árangur Helgu á árinu:

Helga Una er frábær reiðmaður sem hefur staðið sig vel á keppnisbrautinni upp alla flokka, er núna að klára sitt síðasta ár í ungmennaflokki. Helga Una var tilnefnd sem efnilegasti knapi ársins 2011 af Landssambandi hestamanna, fimm einstaklingar voru tilnefndir af landinu og var Helga ein af þeim. Baráttan um titilinn var gríðarlega hörð í ár þar sem bæði var Landsmót og Heimsmeistarmót sem er einsdæmi.

Helga er yngsti kynbótaknapi sem hefur keppt fyrir Íslandshönd í kynbótasýningum á Heimsmeistaramóti en hún gerði sér lítið fyrir og sýndi Smá frá Þúfu í fyrsta sætið en hún hlaut 8.03 fyrir byggingu og hvorki meira né minna en 8.59 fyrir hæfileika og 8.37 í aðaleinkunn. Helga sýndi nokkur önnur kynbótahross á árinu með góðum árangri. Meistaramót Andvara: Helga Una og Möller frá Blesastöðum enduðu í 10.-11. sæti í B-flokki á Meistaramóti Andvara með einkunnina 8,66. Á þessu móti keppti Helga ekki í ungmennaflokki heldur var bara einn flokkur svo hún keppti við alla helstu atvinnumenn landsins. Helga Una keppti á Gæðingamóti Þyts á hryssunni Karitas frá Kommu í ungmennaflokki og stóð efst eftir forkeppni með einkunnina 8,36 og fór með hana á Landsmót. Komst þar í milliriðla en þær stöllur náðu ekki að komast lengra en það að þessu sinni. Einnig komst Helga með Fjölni frá Akureyri í B-flokk á Landsmót en þau fengu einkunnina 8,13 á Gæðingamóti Þyts sem var jafnframt úrtaka fyrir Landsmót.Á Reykjavíkurmeistaramóti lenti Helga í 5. sæti í fjórgangi ungmenna á hryssunni Karitas frá Kommu.


Árangur Reynis á árinu:

Reynir er maður sem hiklaust má kalla einn af guðfeðrum íslenskrar reiðmennsku. Ferill hans sem reiðkennara, tamningamanns og keppanda er glæsilegur og fáir sem búa yfir meiri reynslu og þekkingu á íslenska hestinum og reiðmennsku. Reynir hefur verið á keppnisbrautinni síðan 1970, svo ferillinn er orðinn langur og góður.

Árangur Reynis á keppnisbrautinni í ár er mjög góður, hann keppti á nokkrum sterkum mótum og er hans besti árangur í ár á Íslandsmóti fullorðinna. Þar var hann í þriðja sæti í fimmgangi með 7,55, síðan keppti hann í forkeppni í T2 (slaktaumatölt) og varð fimmti inn í úrslit en tók ekki þátt í úrslitunum.

Annar árangur Reynis á árinu eru að hann var í fjórða sæti í fjórgangi, fimmta sæti í fimmgangi og fjórða sæti í tölti í Húnvetnsku liðakeppninni, efstur á Gæðingamóti Þyts í forkeppni en tók ekki þátt í úrslitum. Númer 1 í forkeppni í fimmgangi á Gullmóti í Hafnarfirði en tók ekki þátt í úrslitum. Númer eitt í fimmgangi á opna íþróttamótinu í Borgarnesi , númer þrjú í forkeppni í fimmgangi og númer fjögur í forkeppni T2 (slaktaumatölt) í úrtöku fyrir heimsmeistarmót.

Árangur Tryggva á árinu:

Tryggvi er knapi ársins 2011 í opnum flokki hjá Þyt. Tryggvi er búinn að vera afkastamikill á keppnisvellinum í ár eins og síðustu ár. Hefur staðið sig vel á mörgum sviðum, sýnir fjöldan allan af kynbótahrossum á ári hverju og keppir á íþrótta- og gæðingamótum.

Árangur Tryggva á árinu er í fyrsta lagi Húnvetnska liðakeppnin þar varð Tryggvi í sjötta sæti í fjórgangi, fyrsta sæti í smala, fyrsta sæti í skeiði og öðru sæti í fimmgangi. Í öðru lagi er það Meistaradeild Norðurlands, þar varð Tryggvi í öðru sæti í fjórgangi, sjötta sæti í tölti, sjöunda sæti í smala og fimmta sæti í skeiði. Á Stjörnutölti í Skautahöllinni á Akureyri varð Tryggvi í fimmta sæti í tölti, á Ís-landsmótinu á Svínavatni varð hann í öðru sæti í B-flokki og 8 sæti í B-flokki (kom tveimur hestum í úrslit) og í fjórða sæti í A-flokki. Á Ísmóti á Hnjúkatjörn varð Tryggvi í öðru sæti í tölti, á Fákaflugi á Vindheimamelum í sjöunda sæti í tölti og í 5.-6. sæti í 100 metra skeiði. Á Íþróttamóti Þyts í þriðja sæti í tölti, þriðja sæti í fjórgangi, fyrsta sæti í gæðingaskeiði og fyrsta sæti í 100 m skeiði. Á Metamóti Andvara í Kópavogi varð Tryggvi í öðru sæti í B-flokki og níunda sæti í A-flokki.


22.12.2011 12:47

Gleðileg jól


Stjórn Þyts sendir Þytsfélögum sem og öllum Húnvetningum bestu óskir um gleðileg jól og farsældar á komandi ári með þökk fyrir samstarf, ánægjuleg samskipti og stuðning á árinu sem er að líða.19.12.2011 21:48

Landsmót 2014 og 2016


Á stjórnarfundi Landssambands hestamannafélaga 19.desember 2011 var tekin ákvörðun staðarval fyrir Landsmót 2014 og 2016.

Ákvað stjórn LH að ganga að samningsborði fyrir Landsmót 2014 við Rangárbakka (Hella) og fyrir Landsmót 2016 við Gullhyl (Vindheimamelar).

Stjórn Landssambands hestamannafélaga

18.12.2011 21:11

Kíkt á Þytsfélaga sem búsettur er á Akureyri


Tign 1. verðlauna Hugadóttir, með Héðinsdóttur.


Aldrei hefur verið jafn mikið rætt um nýjan meðlim hestamannafélagsins eins og þegar viðmælandi minn skráði sig í félagið. Það var í mars sl að formaðurinn fór yfir félagatalið eins og hún gerir alla mánudagsmorgna að hún sá nýtt nafn, auðvitað varð hún mjög spennt yfir nýjum félagsmanni enda allir velkomnir í félagið. Í þetta skiptið var það enginn annar en leynivopn liðs 1 sem kom sá og sigraði fyrir liðið árið á undan, Pétur Vopni Sigurðsson.

Ritara síðunnar langaði til að kynnast þessum eftirsótta félaga örlítið betur og spurði hann aðeins út í hestamennskuna hans. Pétur býr ásamt fjölskyldu sinni á Akureyri.


Þú ert búinn að vera að byggja hesthús á Akueyri, hvernig ganga framkvæmdirnar? Ég er að byggja nýtt 19 hesta hús. 15 eins hesta stíur og tvær tveggja hesta. Framkvæmdir liggja niðri sem stendur. Ég er búinn að steypa upp húsið. Ekkert liggur á að klára þetta því ég á mjög fínt 12 hesta hús sem ég er ekki búinn að selja.

Er öll fjölskyldan í hestamennskunni? Já öll fjölskyldan er í hestamennsku. Stelpurnar mínar Berglind og Valgerður eru að taka knapamerkja námskeið í vetur en Inga gamla mín verður nú eitthvað frá hnakknum í bili. Hún á von á sér í janúar. Það má samt alltaf nota hana í að moka og gefa :-):-)

Ertu að rækta hross? Já ég er aðeins að dunda við ræktun. Hélt þremur merum í fyrra sumar en fékk aðeins eitt folald. Reyndi aftur í sumar og vonast til að fá eitthvað fleiri folöld næsta sumar. Fékk fallegt merfolald undan 1. verðlauna Hugadóttir og Héðni frá Feti. Merin fór svo til Orra í sumar, en ég hélt ekki út að bíða eftir fyli og hélt henni undir Gamm frá Þúfu.

Hvaða hross eru komin á hús hjá þér núna? Þau hross sem eru komin inn eru Silfurtoppur, móálóttur Aronssonur sem ég hef keppt á fyrir vestan, Hildigunnur Geisladóttir, Gustsdóttir á fimmta vetur sem við Maggi í Steinnesi eigum saman, tvö grá tryppi á fjórða vetur sem eru undan Gustssyni sem ég átti, Ármanni frá Hrafnsstöðum. Ég er mjög spenntur fyrir þeim, þó sérstaklega fyrir merinni. Hún er virkilega þroskuð og hreyfingarfallegt tryppi.  Svo er kominn á hús gamall höfðingi sem hefur fengið 7,5 í tölti og 8,60 í B-flokki sem allir geta riðið á. Þetta verður vonandi hestur Berglindar í vetur. Restin af hestunum verður svo tekin inn rétt fyrir jól.

Nú hefur þú mætt tvisvar sinnum og keppt í Húnvetnsku liðakeppninni, hver er þín upplifun af því að mæta í Húnavatnssýsluna? Ég hef oft komið vestur og keppt. Ég mætti í nokkur skipti í reiðhöllina á Blönduósi og hafði alltaf gaman af. Ég er svakalega hrifinn að keppnisfyrirkomulaginu hjá ykkur. Mikil stemming og góður andi. Held að það hafi verið mistök hjá ykkur að reyna að loka á þátttöku knapa utan héraðs fyrir lokamót. Það er ekkert nema jákvætt að fá fleiri skráningar og góða hesta á svæðið. Stemmingin í höllinni hjá ykkur er engu lík. Ekkert smá gaman að ríða úrslit í svona stemmingu.

Ætlar þú að mæta og keppa í Húnvetnsku liðakeppninni í vetur? Já vonandi sé ég mér fært að mæta í vetur. Þó hef ég aldrei verið mikið fyrir að keppa. Ef hrossin eru í standi þá get ég hugsað mér að vera með. Ég hef þó orðið meiri metnað fyrir því að dæma. Kannski kem ég bara og dæmi fyrir mitt nýja félag og get þá kvittað fyrir mig :-):-)

Ertu með eitthvað nýtt vopn fyrir árið? Nýja vopnið hjá Vopna er Hildigunnur frá Kollaleiru, 1. verðlauna Geisladóttir sem stórvinur minn Hans Kjerúlf seldi mér sem ræktunarmeri. Hann var svo góður að fjarlægja legið úr merinni áður en ég fékk hana svo folaldaseignir verða ekkert að þvælast fyrir. Nú á ég fría tolla hjá honum og Tryggva Björns fyrir þessa meri á meðan hún lifir.

Vissir þú að þú varst leikinn á uppskeruhátíð félagsins? Já ég vissi að eitthvað grín var í gangi á árshátíð. Hefði verið gaman að sjá það.

Að lokum svona til gamans, munt þú lána Guðrúnu Ósk, liðsstjóra þínum, rugguhest þetta árið? Að sjálfsögðu mun ég bjóða liðsfélögum hesta. Það eru 6 pláss á kerrunni minni svo það er aldrei að vita hvað verður sett á hana !


 

Mynd úr gamla hesthúsinu á Akureyri


                   Silfurtoppur kominn inn

 

07.12.2011 14:14

Jóla jóla jóla

 

Ó já, jólastemningin læddi sér inn um bréfalúguna á skrifstofu Landsmóts í morgun með jólatónlist, kertaljósi og piparkökum í bunkum. Við viljum því endilega minna ykkur á jólaleikinn okkar sem fór í gang um leið og miðasalan hófst.

Veglegir vinningar bíða í pottinum en allir seldir miðar fram að jólum fara sjálfkrafa í pottinn. Athugið að á forsöluverði kostar vikupassi aðeins 10.000 krónur með LH/BÍ afslætti og N1 korts afslætti, en fullt verð er 18.000 krónur.

Á Þorláksmessu förum við í sparifötin, fáum okkur smákökur, malt & appelsín og drögum út heppna vinningshafa. Það er til mikils að vinna því meðal vinninga eru flugmiðar til Evrópu með Icelandair, gjafabréf í Kringluna, leikhúsmiðar, inneign hjá N1, Mountain Horse úlpa, hótelgisting í 2 nætur á Hilton Reykjavík Nordica og endurgreiðsla á keyptum landsmótsmiðum.

Potturinn bíður því stútfullur af glæsilegum vinningum sem væri ekki amalegt að fá sem auka jólagjafir þetta árið. Smelltu þér á miðasöluvef landsmóts á www.landsmot.is svo þú eigir möguleika á vinningi! Ekki klúðra þessu tækifæri. Taktu þátt. Núna.


www.landsmot.is

07.12.2011 14:13

Dagatal Þyts 2012
Dagatal Þyts 2012 er komið út og er til sölu hjá Árborgu, hægt er að panta það á tölvupóstfangið: tunga2@simnet.is eða í síma 863-6016. Dagatalið kostar kr. 2.000 og er það prýtt myndum frá félagsmönnum ásamt því að helstu viðburðir ársins hjá hestamannafélaginu koma þar fram. Einnig er hægt að nálgast það hjá Dóra og Kollu í Landsbankanum.


06.12.2011 20:04

Þóranna á Gauksmýri


Afslöppun                                                            Þóranna og Asja með Raka frá Valdasteinsstöðum


     Á Gauksmýri eru 15 hross inni núna, þar af 8 frumtamningartryppi og 7 hross sem eru lengra komin. Þetta eru efnileg og vel ættuð tryppi, meðal annars undan Ræl f. Gauksmýri, Borða f. Fellskoti, Geisla f. Sælukoti, Kraft f. Efti-Þverá, Gretti f. Grafakoti og Roða f. Múla. Af hrossunum sem eru lengra komin er stefnt með eitthvað á kynbótasýningar í vor og svo er stór hluti af þeim geldingar sem eiga að vera í hestasýningum hér á Gauksmýri næsta sumar, segir Þóranna Másdóttir tamningarkona á Gauksmýri.
     Sjálf er ég með 2 hross, gelding heiman frá mér Dalbæ og eina meri frá Leysingjastöðum svo verð ég með 2 önnur líka heiman frá mér sem koma á næstu dögum segir Þóranna. Graðhestarnir Stúdent og Ræll verða svo teknir inn á næstu dögum og geldingarnir Viðburður og Tvistur og að ógleymdum sparimerunum þeim Carmen og Maríuerlu.
     Þóranna lýsir vinnudeginum þannig að hann hefst á gjöfum og hirðingum svo skellir hún bara hjálmnum á hausinn og byrjar að temja og þjálfa. Jói aðstoðar hana við frumtamningarnar, Sigga tekur út þjálfunina á tömdu hrossunum, þúsundþjalasmiðurinn hann Hjalti Júl sér um viðhald og að segja brandara. Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma hundunum Tý og Tíbrá sem aðstoða við að smala inn úr gerðunum og chihuahua hundinum henni Ösju sem sér um að temja köttinn hann Bjart.


2 Roðadætur frá Hólmavík                              Sálmur frá Gauksmýri

06.12.2011 09:52

Ráðstefna um dómaramál

Þriðjudaginn 6. desember verður haldin opin ráðstefna um dómaramál. Ráðstefnan verður haldin í félagsheimili Fáks og hefst kl. 19:00 - 22:00

Fjölbreitt framsöguerindi en flutningsmenn verða í þessari röð:

1. Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur

2. Pjetur Pjetursson, stjórnarmaður og formaður fræðslunefndar í HIDI

3. Sigurbjörn Bárðarson, formaður fræðslunefndar GDLH

4. Olil Amble, keppnisknapi

5. Lárus Ástmar Hannesson formaður GDLH

Að loknum framsöguerindum verða umræður.

Umsjón með ráðstefnunni hefur Landbúnaðarháskóli Íslands.

Allir hjartanlega velkomnir!

------------------

Nánari upplýsingar veitir Lárus Hannesson, s: 8980548


05.12.2011 08:58

Fréttir frá Syðri-Völlum,, Þetta er alltaf spennandi tími hjá tamningarfólki þegar farið er að eiga við tryppi sem búið er að  fylgjast með í uppvexti og miklar vonir bundnar við" segir Pálmi en á Syðri-völlum eru 23 hross komin á hús. Þetta eru flest allt ung tryppi á 4 og 5 vetur. Sum þeirra voru gerð bandvön í sumar en hin voru að mestu ósnert. Óvenju mikið er um merar í hópnum að þessu sinni eða alls tíu og ekki ólíklegt að bætist við þann hóp er líður á desember. Af þessum tíu merum eru 5 á fjórða vetur og 4 á fimmta vetur þannig að tilhlökkunin er mikil og ekki síður væntingarnar. Einnig eru á húsi ungfolar undan Dofra frá Steinnesi og síðan bætast svo þau hross við sem verða tekin í tamningu fyrir aðra. Mæður tryppanna eru m.a. Heiður, Mánadís, Þöll, Venus og Prúð allar frá Sigmundarst. Feður eru m.a. Kraftur frá Efri-Þverá, Gammur frá Steinnesi, Sikill, Biskur og Oliver frá Sigmundarst., og Grettir og Tvinni frá Grafarkoti og síðast en ekki síst Kramsi frá Blesastöðum. Þess má svo geta í lokin að Jónína Lilja er að klára stúdentsprófið um jólin og verður heima eftir áramót við tamningar og önnur bússtörf.


02.12.2011 17:52

Kort í höllina frá 1. des 2011 - 10.sept 2012

Búið er að taka upp gólfið í höllinni og slétta það, höllin er því opin fyrir þá sem vilja nýta sér hana. Vinsamlegast hafið samband við Ragnar í síma 869-1727 upp á lykla þar sem ekki er komin á hefðbundin rútína umsjónarmanna. 

3. des verður höllin lokuð fyrir korthafa þar sem nýju ljósin verða sett upp í höllina og verður gaman að sjá hvað lýsingin mun breytast. Ef einhverjir sjá sér fært að aðstoða þá væri það vel þegið. Einnig verða 3. des verslanirnar Kidka og Knapinn Borgarnesi með kynningu og sölu á vörum sínum í Þytsheimum frá kl. 13:00 - 19:00. Einnig verður kynning á spæni frá Skógarvinnslunni og dagatal hestamannafélagsins til sölu frá kl. 13:00 - 16:00 .

Notið ykkur þetta tækifæri til að versla í heimabyggð.     Heitt á könnunni :)

Hægt er að kaupa kort í höllina núna sem gildir frá 1. desember 2011 til 10. september 2012. Gjald Þytsfélaga er 20.000.- og má greiða inn á 1105-05-403351 kt. 550180-0499. Þar sem samningur var gerður við Sláturhúsið um leigu á höllinni þegar hún er lítið notuð hefur stjórn Þytsheima ákveðið að halda gjaldskránni óbreyttri þriðja árið í röð. Frekari upplýsingar hjá Ragnari í síma 869-1727.

Notendur þurfa að kveikja og slökkva ljós, hreinsa eftir sig í skemmunni og ganga rosalega vel um. Einnig þurfa umsjónaraðilar hverrar viku að sjá um að stúkurnar séu í góðu standi. Korthafar þurfa að sjá um að opna húsið og loka því einhvern tímann á tímabilinu. Tímabilinu verður skipt á milli korthafa og kemur í ljós hvað það kaupa margir kort hversu marga daga hver korthafi þarf að sjá um höllina.

Ef skipulögð dagskrá eins og mót eða sýningar eru í reiðhöllinni þá getur þessi tími minnkað sem korthafar hafa fyrir sig.

Reykingar eru bannaðar og hundar eru ekki leyfðir í Reiðhöllinni - vinsamlega takið tillit til þess.

Verðskrá vegna notkunar í Þytsheima er eftirfarandi:

Kort fyrir meðlimi Þyts                                         20.000 kr
Kort fyrir aðra                                                      25.000 kr
Dagpassi                                                              2.000 kr
Einkatími-klukkutími milli 14-16:30 og 20-24:00      5.000 kr
Einkatími-klukkutími milli 9-14 virka daga                3.000 kr
Einkatími-klukkutími um helgar                               5.000 kr
Einnig er hægt að leigja, sal, eldhús og kaffiaðstöðu og hljóðkerfi og þarf að borga fyrir það aukalega.
Ekki er opið fyrir einkatíma á milli klukkan 16:30-20:00 á virkum dögum.

Stéttarfélagið Samstaða endurgreiðir 50% af íþróttakortum en þó að hámarki 8.000 kr á hvern félagsmann á hverju 12 mánaða tímibili. Einnig eru mörg önnur stéttarfélög að bjóða félagsmönnum sínum einhvers konar endurgreiðslu og því um að gera fyrir alla að kanna sinn rétt

Stjórn Þytsheima


01.12.2011 19:30

EFRI-FITJAR


Brennir frá Efri-Fitjum u. Krák og Ballerínu.Á Efri-Fitjum eru inni eins og er sex hross. Hesthúsið á bænum er nýuppgert og var það tilbúið í janúar 2010, hesthúsið er fyrir 14 hross. Hrossin sem eru inni núna eru Nepja frá Efri-Fitjum sem er Bliku og Rökkvadóttir, Krummadís frá Efri-Fitjum Brimrúnar og Krummadóttir, Díva frá Blönduósi Geisla og Dimmudóttir, Katla frá Kommu Kjarnorku og Blæsdóttir, Brennir frá Efri-Fitum Ballerínu og Kráksson, Dropi frá Áslandi Byltinga og Krummason. Þetta er allt frekar ung hross eða á fjórða til sjötta vetur. Brennir sem er graðhestur var bara byrjað að temja núna um miðjan nóvember er mjög efnilegur. ,,Tryppin fara vel af stað og verður gaman að sjá hvernir þau þróast áfram í vetur" segir Gréta.

Í dag skruppu svo hjónin ásamt Hrísabændum til London í helgarferð og Gréta sagði ritara síðunnar frá því að eftir London (eins og Logi orðar hlutina þessa dagana) verður tekið meira inn. Þá verður tekinn inn stóðhesturinn Bassi frá Efri-Fitjum Ballerínu og Aronssonur, hann er graðhestur á fimmta vetur. Spennandi verkefni þar á ferð. Einnig verða tekin inn eldri og meira tamin hross eins og Hula, Næmni, Kátína, og ekki má gleyma Dívuhestinum Þrótti.


  • 1
Flettingar í dag: 59
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 5474
Gestir í gær: 210
Samtals flettingar: 1140492
Samtals gestir: 61891
Tölur uppfærðar: 13.7.2024 00:55:50