30.10.2008 20:45

Viðtalið


Fanney og Logi í nýju tamningaaðstöðunni
 

Mánaðarlega í vetur mun ég taka viðtöl við hestamenn í Húnaþingi og grafast fyrir um hvað fólk er að sýsla þessa dagana og hvaða hesta fólk er með á húsum hjá sér. Fyrstu viðmælendur mínir eru Fanney og Logi á Hrísum II.

 

Fanney og Logi keyptu í byrjun árs jörðina Hrísa II, þau fengu hana afhenta í maí  og hafa verið að breyta hluta af 530 fermetra fjárhúsi í hesthús. Það verða 19 stíur í hesthúsinu, 13 einhesta og 6 tveggja hesta. Síðan ætla þau að nota 2/3 af 480 fermetra hlöðu sem reiðaðstöðu.

Ég ákvað að kíkja í Hrísa og heyra í þeim hljóðið því ekki er hægt að ná í þau í síma eða senda þeim e-meil.J

 

Hvenær er stefnt að því að fyrsta hrossið verði tekið inn í nýja hesthúsið á Hrísum?

Stefnan er að taka inn í byrjun nóvember.


Verður reisugildi?

Það er aldrei að vita


Hvað verðið þið með marga hesta á járnum í vetur?

Það verða 25 hross inni. 10-12 sem við eigum og afgangurinn verða hross frá öðrum.


Verðið þið með á innanhúsmótunum?

Já, við verðum örugglega með eitthvað til að taka þátt!


Af ykkar hrossum.   hver eru efnilegustu hrossin sem verða í húsinu í vetur?

Við verðum með spennandi hross sem fara á fjórða vetur undan heimahestunum Órator, Gretti og Tvinna frá Grafarkoti og Sædyn frá Múla. Það verður gaman að sjá hvernig þau koma út, undan þessum hestum sem við þekkjum mjög vel og líkar vel við. En ætli við bindum ekki mestar vonir við brúnskjótta 4 vetra hryssu, fyrsta afkvæmið undan 1. verðlauna hryssunni Ásjónu hennar Fanneyjar og Órator. Eins líst okkur vel á bleika Hágangsdóttir sem fer á 4 vetur og Rauðskjótta Rauðskinnadóttir sem fer á 5 vetur. Þannig að við erum spennt fyrir vetrinum og höldum að við verðum bara ágætlega ríðandi.

 

Undan hvaða stóðhestum eru folöldin ykkar sem fæddust síðastliðið vor?

Við fengum þrjú undan Hóf frá Varmalæk og hestfolald undan Geisla frá Sælukoti.

 

Undan hvaða stóðhestum eignist þið folöld á næsta ári?

Við fáum tvö undan Álfi frá Selfossi, þrjú undan Gretti frá Grafarkoti, eitt undan Roða frá Múla og kannski eitt undan Klettsyninum Kufl frá Grafarkoti.

 

Takk fyrir Hrísabændur og gangi ykkur vel!


Fleiri myndir af nýja hesthúsinu má sjá í myndaalbúminu.

Flettingar í dag: 240
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 1141
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 985666
Samtals gestir: 51206
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 05:52:14