13.01.2015 12:54

Húnvetnska liðakeppnin 2015

Reglur Húnvetnsku liðakeppninnar 2015


Sjöunda mótaröðin að hefjast í Húnvetnsku liðakeppninni. Sömu reglur og í fyrra en nú bætist barnaflokkur við eins og rætt var um á félagsfundi í haust. Engin fyrirfram ákveðin lið eru skráð til leiks, skrá þarf öll lið inn í mótaröðina, tilkynna þarf liðin til mótanefndar í síðasta lagi fyrir lokaskráningardag fyrsta móts á netfangið thytur1@gmail.com ásamt liðsstjóra liðsins.

Dagssetningar fyrir mót vetrarins eru: 14. feb smali, 6. mars fjórgangur, 20. mars fimmgangur og tölt, 17. apríl tölt. 

Reglur:

Liðakeppni:


1) Liðin þurfa að hafa nafn og sérkenni, þannig að liðsmenn þekkist.

2) Lágmark 3 í liði, ótakmarkaður fjöldi.

3) Knapar verða að vera í sama liðinu allt tímabilið, þ.e. bannað að skipta um lið á miðju tímabili. Einnig verður hver og einn knapi að velja sér hvort hann ætlar að keppa í 1. 2. eða 3. flokki í upphafi tímabils.

4) 3 efstu knapar úr forkeppni telja til stiga fyrir hvert lið, stigin eru einkunnir hvers knapa. Hver knapi getur aðeins skilað stigum fyrir sitt lið fyrir 1 hest.

5) 3 efstu knapar sem komast í úrslit í hverju liði telja til stiga.

6) 1 sæti = 10 stig, 2 sæti = 8 stig, 3 sæti = 6 stig, 4 sæti = 4 stig, 5 sæti = 2 stig, 6 sæti = 2 stig (ef B-úrslit), 7-10 = 1 stig

7) Ekki er nauðsynlegt að vera í liði til að taka þátt í mótaröðinni.

8) Flokkar; Barnaflokkur (börn fædd 2002 - 2005 ), unglingaflokkur (börn fædd 1998 - 2001), 3 flokkur, flokkur sem er ætlaður þeim sem eru að byrja að keppa eða hafa litla keppnisreynslu. 2 flokkur, fyrir þá sem hafa nokkra keppnisreynslu en eru ekki að stunda keppni að neinu ráði. 1. flokkur er ætlaður þeim sem eru mikið í keppni.

9) Hver keppandi má keppa á fleiri en einum hesti í hverri grein, en ef keppandi kemst með tvo hesta í úrslit verður hann að velja á milli þeirra og aðeins keppa á öðrum í úrslitum. Ekki hægt að fá aukaknapa til að ríða úrslit fyrir sig.

10) Í skeiði má hver knapi keppa á eins mörgum hrossum og hann vill en getur aðeins fengið stig fyrir einn hest eins og í öðrum greinum.

11) Smalinn: Riðin er braut sem mörkuð er keilum sem ná upp á síður hests. Keilurnar skulu vera þannig útbúnar að þær falli við litla snertingu. Árangurinn ræðst af brautartíma og felldum keilum. Reiknireglur eru þær sömu og í tímabraut torfærunnar. Smalinn er hrein grein í þeirri merkingu að árangurinn er mælanlegur án frávika, þ.e. hann ræðst eingöngu af tíma og felldum keilum en ekki mati dómara. Dómarar eru engu að síður til staðar og meta hvort knapinn fari gegnum öll hlið, telja felldar keilur og hafa eftirlit með reiðmennsku knapa líkt og í öðrum keppnisgreinum.

Stigin telja þannig að knapar raðast í sæti eftir besta tímanum, sá sem er fyrstur fær 300 stig, sá næsti 280, 270 o.s.frv. Við hverja fellda keilu dragast frá 14 stig. Fyrir sleppt hlið eru 28 refsistig. Yfir brúnna er ekki leyft að fara á stökki þ.e.a.s allur annar gangur er í lagi. Ef brúnni er sleppt þá er það 4x28 refsistig Gult spjald= gróf reiðmennska 30 refsistig Rautt spjald= MJÖG gróf reiðmennska ÚR LEIK!
Stigin í smala inn í liðakeppnina í forkeppni eru þannig að 300 stig gefa 6 stig, 290 - 299 stig gefa 5,8 stig, 280 - 289 stig gefa 5,6 stig, 270 - 279 stig gefa 5,4 stig osfrv.

12) Einstaklingskeppni:
1.sæti - 10 stig
2.sæti - 8 stig
3.sæti - 7 stig
4.sæti - 6 stig
5.sæti - 5 stig
6.sæti - 4 stig
7.sæti - 3 stig
8.sæti - 2 stig
9.sæti - 1 stig

13) Skráningargjöld verður að greiða inn á reikning 0159-15-200343 kt. 550180-0499 áður en mót hefst.

Einnig ætlum við að leyfa pollum að taka þátt í mótaröðinni en þeir munu ekki keppa til stiga en spreyta sig í að koma inn á völlinn og fá því að öðlast smá reynslu.

Mótanefndin

Aðalstyrktaraðili Húnvetnsku liðakeppninnar

12.01.2015 08:58

Námskeiðin að byrja

Núna eru námskeiðin að hefjast í reiðhöllinni, fyrsta námskeið vetrarins var sl helgi. Fanney var þar með nokkra nemendur  þar sem farið var  yfir liðkunar- og styrktaræfingar sem notaðar eru til þess að bæta hestinn.  

Markmið var einnig að bæta samskipti knapa og hests og fá góðar hugmyndir fyrir vetrarþjálfunina.   

  

Fanney kennari

Áhugasamir nemendur á sýnikennslu hjá Fanney föstudagskvöldið sl.

 

Frumtamningarnámskeið hefst síðan í kvöld, 12. janúar í Þytsheimum og knapamerkjanámskeiðin byrja líka í dag.

Önnur námskeið fyrir krakka hefjast 19. janúar. Hægt er að fylgjast með dagskrá hallarinnar á heimasíðu hennar: http://hvammstangahollin.bloggar.is/ 

 

 

12.01.2015 08:49

Þorrablót 24. janúar nk

Ágæta hestafólk.


ein gömul mynd af þorrablóti emoticon

Ætlum að hafa upp í Þytsheimum ,,þorrablótið okkar" laugardagskvöldið 24. janúar nk, kl. 19:00 - 23:00. Hver kemur með sinn þorramat eða mat og drykk að eigin vali og eigum saman skemmtilegt kvöld í leik og spjalli, öll fjölskyldan.

Þar sem við þurfum að greiða leigu fyrir Þytsheima verður aðgangseyrir kr. 500, - 14 ára og eldri emoticon


Hvetjum alla til að mæta á þennan fyrsta viðburð ársins.


Sjáumst hress og kát !!!


(Það kom upp sú hugmynd á félagsfundinum að hafa firmakeppnina okkar sama dag og þorrablótið, enn ekki alveg komið á hreint hvort hún verði þennan dag eða seinna. Verður auglýst hér í vikunni !!!)

07.01.2015 13:35

Frumtamningarnámskeiðið hefst mánudagskvöldið nk 12.01.2015



Frumtamningarnámskeiðið hefst mánudagskvöldið nk 12.01.2015. Kennari verður Þórir Ísólfsson. Komnir eru 2 hópar og hægt að bæta fleirum við, áhugasamir hafi samband við Evu í síma 868 2740 eða Esther í síma 661 6170 fyrir mánudaginn nk.


05.01.2015 15:35

Járningar

 

Tek að mér járningar fyrir kr. 5000- per hross. Er búsettur á Akureyri, frekari upplýsingar hjá Kristjáni í síma 845-5461

 

31.12.2014 08:59

Gleðilegt nýtt ár



Stjórn Þyts sendir Þytsfélögum sem og öllum Húnvetningum bestu óskir um gleðileg jól og farsældar á komandi ári með þökk fyrir samstarf, ánægjuleg samskipti og stuðning á árinu sem er að líða.

28.12.2014 22:04

Ísólfur íþróttamaður ársins 2014



Íþróttamaður USVH árið 2014 var kynntur í gær á Staðarskálamótinu. Þann titil hlýtur sá einstaklingur sem sýnt hefur góðan árangur í sinni keppnisgrein á árinu.Samkvæmt reglugerð um kjör á íþróttamanni ársins hafa allir stjórnarmenn USVH og stjórnarmenn aðildarfélaga USVH kosningarrétt. Tilnefnd voru 4 frábærir íþróttamenn, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir körfuknattleikskona, Hannes Másson körfuknattleiksmaður, Ísólfur L Þórisson hestaíþróttir og Salbjörg Sævarsdóttir körfuknattleikskona, Stjórn Þyts er ákaflega stolt af því að Ísólfur hlaut titilinn þriðja árið í röð og er þetta hans besta ár til þessa. Innilega til hamingju Ísólfur. 

1. sæti
Ísólfur Líndal Þórisson hestaíþróttir

Á árinu 2014 toppaði Ísólfur Líndal enn fyrri árangur á keppnisvellinum. Ef tekin er saman helsti árangur á stærri mótum ársins þá sigraði Ísólfur samanlagt sterkustu mótaröð innanhús norðan heiða. Þá keppti hann í fyrsta sinn í sterkustu inni mótaröð sunnan lands og stóð sig mjög vel, komst í nokkur úrslit og endaði í 6.-7.sæti í samanlögðum árangri.
Sumarið 2014 fór fram Landsmót á Hellu, þar keppti Ísólfur í nokkrum greinum auk þess að sýna kynbótahross. Þar bar hæst árangur Ísólfs í tölti þar sem hann var í A-úrslitum og endaði í 5.sæti. En Ísólfur var einnig í úrslitum í B-flokki gæðinga og A-flokki gæðinga.
Að lokum tók Ísólfur þátt á Íslandsmóti sem er sterkasta íþróttamót ársins. Þar var hann í úrslitum í öllum greinum sem hann tók þátt í.
Ísólfur er góð fyrirmynd, drekkur hvorki né reykir og sýnir íþróttamannslega hegðun utan vallar sem innan.

Keppnisárangur Ísólfs árið 2014:
Vís meistaradeild  4-gangur 4. Sæti
Vís meistaradeild Gæðingafimi 7. Sæti
Húnvetnska liðakeppnin 4-gangur 1. Sæti
Vís meistaradeild 5-gangur 5. Sæti
K.S liðakeppnin Sauðárkróki 4-gangur 1. Sæti
Ísmótið á Svínavatni  B-flokkur 3. Sæti
Ísmótið á Svínavatni  A-flokkur 2. Sæti
Húnvetnska liðakeppnin  5-gangur 1. sæti
Karlatölt Spretts Tölt 4. Sæti
KS. liðakeppni Sauðárkróki   Tölt 2. Sæti
VÍS meistaradeild   Flugaskeið 8. Sæti
Vís meistaradeild   Samnalagður 7. Sæti
Húnvetnska liðakeppnin  Tölt 2. Sæti
Húnvetnska liðakeppnin Samanlagður 1. Sæti
KS liðakeppni Sauðárkróki   T2 2. Sæti
KS liðakeppni Sauðárkróki   Skeið 3. Sæti
KS liðakeppni Sauðárkróki   Samanlagður 1. sæti
Íþr.mót Glaðs T1 2. sæti
Íþr.mót Glaðs 4-gangur 1. sæti
Íþr.mót Glaðs 5-gangur 1. sæti
Íþr.mót Skugga T1 1. sæti
Íþr.mót Skugga 4-gangur 1. sæti
Íþr.mót Skugga 5-gangur 1. sæti
Íþr.mót Skugga gæðingaskeið 1. sæti
Íþr.mót Skugga 100 m skeið 4. sæti
Olísmótið T2 2. Sæti
Gæðingamót Þyts A flokkur 5. sæti
Gæðingamót Þyts B flokkur 1. sæti
Gæðingamót Þyts Skeið 1. sæti
Gæðingamót Neista B flokkur 2. sæti
Landsmót B flokkur 14. sæti ( b-úrslit )
Landsmót A flokkur 15. sæti (b-úrslit )
Landsmót Tölt 5. sæti
Íslandsmót 4 gangur 7. sæti
Íslandsmót T2 5. sæti
Íslandsmót 5-gangur 4. sæti


2. sæti

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir körfuknattleikskona.

Guðrún lék með liði Snæfells fyrripart árs 2014. Hún var með 10,4 stig, 7,3 fráköst og 2,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í Domino´s deild kvenna. Guðrún var einnig valin besti varnarmaður í Domino´s deild kvenna, auk þess að vera valin í úrvalslið deildarinnar. Snæfell varð Íslandsmeistari árið 2014 og þar gegndi Guðrún lykilhlutverki.


3. sæti
Hannes Másson körfuknattleiksmaður


Hannes hefur spilað körfubolta með Umf.Tindastól undanfarin ár og staðið sig geysivel í sterkum hóp ungra drengja frá Tindastól sem eru að stela senunni í íslensku körfubolta lífi í dag.
Hannes spilaði með drengja flokk og unglingaflokk síðasta vetur ásamt því að fá nokkrar mínútur með meistarflokk. Drengjaflokkur lenti í 3.sæti í 1.deild og unglingaflokkur í 4. sæti í 1.deild.
Í vetur er Hannes að spila með unglingaflokk sem er í 1.sæti í 1.deild og hefur líka verið að spila nokkuð mikið í meistaraflokki Tindastóls sem er í 2.sæti í Dominos deild karla.
Hannes er góð fyrirmynd og yndislegur drengur.

28.12.2014 21:55

UPPSKERUHÁTÍÐ HESTAMANNA - MIÐASÖLU LÝKUR 6. JANÚAR!

Uppskeruhátíð hestamanna verður haldin á Gullhömrum í Grafarholti 10. janúar næstkomandi. Gullhamrar er einn glæsilegasti veitinga- og veislustaður á landinu í dag og ætti því enginn að láta sig vanta á þessa frábæru hátíð okkar. Dagskráin verður með sama móti og venjulega. Verðlaunaafhendingin verður á sínum stað, dýrindis þriggja rétta máltíð og að sjálfsögðu dönsum við saman langt fram eftir nóttu eins og okkur hestamönnum er einum lagið.

 

Viðburðinn er hægt að finna á facebook:https://www.facebook.com/events/395865530579934/


Hinn þjóðþekkti sjónvarpsmaður Gísli Einarsson verður veislustjóri og svo mun hljómsveitin Rokk halda uppi fjörinu en í henni eru þeir:

Hreimur Örn - gítar og söngur

Pálmi Sigurhjartarson - píanó og söngur

Benedikt Brynleifsson - trommur

Róbert Þórhallsson - bassi

Vignir Snær - gítar og söngur


Þriggja réttar máltíðin verður með glæsilegu móti:

Forréttur - Austurlensk sjávarréttasúpa með karrí og kókos

Aðalréttur - Lambahryggvöðvi með kartöfluköku, steiktum skógarsveppum og lambasoðsósu

Ábætisréttur - Suðrænn kókosdraumur með berjablöndu og crumble.


Ekki láta þig vanta á eina glæsilegustu uppskeruhátíð til þessa!

Fyrstir koma fyrstir fá!

Miðasalan fer fram á gullhamrar@gullhamrar.is eða í síma 517-9090

Miða og borðapantanir verða til kl. 18, þriðjudaginn 6. janúar.

Miðar verða afhentir miðvikudaginn 7. janúar í Gullhömrum.

Verð: 9600 kr.

Selt inn á dansleik frá 23.30. Verð 2.500 krónur

Gestir þurfa að senda kvittun á gullhamrar@gullhamrar.is og þá verður tekið frá borð á þeirra nafni.

Borðaröðun fer fram þegar miðasölu lýkur!

30.11.2014 17:02

Námskeið í janúar

 
 

Upphaf þjálfunar 9.-10. Janúar 2015

 

Námskeið þar sem farið verður  yfir nokkrar liðkunar- og styrktaræfingar sem notaðar eru til þess að bæta hestinn.  

Markmið er einnig að bæta samskipti knapa og hests og fá góðar hugmyndir fyrir vetrarþjálfunina.   

  • Staðsetning: Reiðhöllin á Hvammstanga

     

  • Sýnikennsla og spjall föstudagskvöldið kl. 20:00
  • Laugardagur: byrjar kl. 09:30. Hóptími, 3-4 saman fyrir hádegi í 50 mín. (fer eftir fjölda á námskeiði).
  • Einkatími 30 mín, byrjar kl. 13:00
  • Verð: 10.000 kr. á mann
  • Kennari: Fanney Dögg Indriðadóttir reiðkennari.
  • skráning á thytur1@gmail.com - Hámarksfjöldi er 10 manns

 

Gangsetning og þjálfun ungra hrossa 23.-24. janúar 2015

Námskeið fyrir knapa með reiðfær hross sem þurfa hugmyndir og hjálp með áframhaldandi þjálfun og til að bæta gangtegundir og þjálni reiðhestsins.

  • Staðsetning: Reiðhöllin á Hvammstanga
  • Sýnikennsla og spjall föstudagskvöldið kl. 20:00
  • Laugardagur: byrjar kl. 09:30. Hóptími, 3-4 saman fyrir hádegi í 50 mín. (fer eftir fjölda á námskeiði).
  • Einkatími 30 mín, byrjar kl. 13:00
  • Verð: 10.000 kr. á mann
  • Kennari: Fanney Dögg Indriðadóttir reiðkennari.
  • skráning á thytur1@gmail.com - Hámarksfjöldi er 10 manns

26.11.2014 19:42

Nýliðun


Kæru félagar. 

Á síðasta fundi hestamannafélagsins sem haldin var 19. nóvember sl í félagshúsi Þyts kom upp mikil og góð umræða hvernig auka ætti nýliðun í greininni. Þetta er ekki nýtt vandamál né staðbundið og verðum við því að vera vakandi og opin fyrir öllum hugmyndum. Ein hugmyndin sem kom á þessum fundi er að félagsmenn myndu "taka í fóstur hestabarn" þ.e.a.s. að eigandi hests myndi veita aðgang að hrossi, aðstöðu og aðstoð þeim börnum og unglingum sem hafa áhuga en vantar tækifærið til að ríða út. 

Við leitum því til félagsmanna, átt þú hestamaður góður, þægan og traustan hest sem er tilbúinn í nýtt hlutverk og ala upp ungan knapa? 

Þytur myndi aðeins vera tengiliður og milligönguaðili, strax á fundinum voru 2 félagsmenn sem sögðu líklegt að þau gætu boðið uppá þetta. Fyrirkomulagið mætti svo ræða bara í hverju tilviki fyrir sig t.d. gætu kannski 2-3 krakkar skipt með sér einum hesti því ekki er víst að allir séu tilbúnir að binda sig daglega yfir þessu svona til að byrja með. Ef þú heldur að þú getir "taka í fóstur hestabarn" skaltu endilega hafa samband við Kollu á netfangið kolbrunindrida@gmail.com eða í síma 863-7786.

Foreldrar barna sem langar að stunda hestamennsku en hafa ekki aðgang að hesti mega einnig endilega hafa samband við Kollu eða einhvern í stjórn Þyts.

stjórnin


25.11.2014 09:51

Skýrsla æskulýðsnefndar 2013 - 2014

 

Æskulýðsstarf

Hestamannafélagsins Þyts

                                                             

Starfsskýrsla 2013-2014.

 

 

Æskulýðsnefnd Þyts 2013-2014.

Guðný Helga Björnsdóttir, formaður

Helga Rós Níelsdóttir

Irena Kamp

Þóranna Másdóttir

Þórdís Helga Benediktsdóttir, tengiliður við stjórn

 

Uppskeruhátíð.

Í lok október 2013 var haldin uppskeruhátíð barna og unglinga á Sveitasetrinu Gauksmýri.  Að venju var vel mætt af unglingum, börnum og foreldrum þeirra.  Hestamannafélagið bauð upp á kaffi að hætti Gauksmýrarverta. Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir knapa ársins í unglinga- og barnaflokki. Karitas Aradóttir var knapi ársins í barnaflokki og Kristófer Smári Gunnarsson í unglingaflokki. Öll börn sem tekið höfðu á einhvern hátt þátt í vetrarstarfinu fengu gjafir frá Æskulýðsnefndinni.  Formaður fór yfir starf liðins árs og það sem væri á döfinni á komandi ári. Æskulýðsnefndin þakkaði að lokum iðkendum kærlega fyrir samstarfið og foreldrum og aðstandendum sérstaklega fyrir frábæra þátttöku og viðtökur við hverskonar beiðni um aðstoð.

Þrettándagleði.

Æskulýðsnefndin stóð að venju fyrir Þrettándagleði í sveitarfélaginu. Vegna veðurs var ekki farin hópreið um Hvammstanga, heldur fór gleðin öll fram inni í reiðhöllinni Þytsheimum á Hvammstanga. Þar mættu álfakóngur og -drottning, ásamt álfameyjum, Grýlu, Leppalúða og nokkrum jólasveinum.  Allt voru það krakkar úr æskulýðsstarfi félagsins sem tóku hlutverkin að sér.  Í Þytsheimum var öllum gefið kakó, kaffi og kökur sem foreldrar og aðstandendur í æskulýðsstarfinu höfðu framreitt. Þar voru gengnir nokkrir hringir á eftir álfahirðinni, farið í leiki og teymt undir börnum. Þessi skemmtun tókst mjög vel þrátt fyrir leiðindaveður, og stóðu krakkarnir sig vel að vanda.

Fundir.

Nokkrir fundir voru haldnir á starfsárinu, bæði foreldrafundir um starfið og nefndarfundir.

Reiðþjálfun og fimleikar á hesti (voltigieren).

Mikill áhugi var á reiðþjálfun og fimleikum á hesti. Um 60 börn á öllum aldri tóku þátt í reiðþjálfun, fimleikum á hesti, reiðsýningu, keppni og Knapamerki í vetur. 2 unglingar luku prófi í Knapamerki 1 og 6 luku prófi í Knapamerki 3. Fanney Dögg Indriðadóttir sá um reiðkennsluna og Knapamerkin. Irina Kamp og Kathrin Schmitt sáu um fimleika á hesti.  Þátttakan í reiðþjálfuninni var það mikil að hóparnir voru sex, mislangt komnir krakkar í þeim og fengu þjálfun við hæfi hvers hóps. Svo vorum við með þjálfun fyrir allra yngstu knapana, um hana sáu krakkarnir í Knapamerki 3. Sú þjálfun var á laugardögum og komu foreldrarnir með, því það þurfti að hjálpa sumum knöpunum, sem ekki voru háir í loftinu.

Mjög mikil þátttaka var í námskeiðinu fimleikar á hesti. Það eykur mjög jafnvægi krakkanna að taka þátt í æfingum sem þessum, einnig er það mjög gott fyrir þau sem hafa ekki aðgang að hestum að geta verið á þessum námskeiðum og eflir þetta mjög áhuga þeirra á hestamennskunni. Í fimleikum á hesti var byrjendahópur og svo hópur fyrir lengra komna. Bæði var kennt í íþróttahúsinu á fimleikahestum og í reiðhöllinni á alvöruhestum.

Á haustin fara hestafimleikarnir allir fram í íþróttahúsinu á Laugarbakka. Þar var verið að æfa krakkana í grundavallaratriðum fimleika og undirbúa þau undir að gera æfingar á lifandi hesti.

 

Grunnskólamótin.

Æskulýðsnefndir hestamannafélaganna á Norðurlandi vestra halda þrjú mót yfir veturinn, sem þau kalla Grunnskólamót. Þá keppa krakkarnir fyrir þann skóla sem þau eru í og safna stigum. Mótin voru haldin í Arnargerði á Blönduósi, í Svaðastöðum á Sauðárkróki og í Þytsheimum hér á Hvammstanga. Góð þátttaka var í þessum mótum. Þau eru byggð upp á því að allir geti tekið þátt og æft sig í að keppa. Keppt er í þremur aldursflokkum. Elsti hópurinn 8. - 10. bekkur keppa í tölti, fjórgangi, smala og skeiði. 4.-7. bekkur keppa í smala, tölti, og tví- eða þrígangi. Í tvígangi sýna þau fet og tölt eða brokk, í þrígangi sýna þau fet, tölt og brokk. Ekki þurfa þessi aldursflokkar að sýna stökk, enda getur það verið erfitt fyrir lítið reynda knapa inni í reiðhöllunum. Yngsti aldursflokkurinn í 1. - 3. bekk keppa í þrautabraut og fegurðarreið. Þetta árið var vont veður þegar smalakeppnin fór fram á Blönduósi þannig að Skagfirðingarnir komu ekki til keppni þá.

Sýningar.

Hestamannafélagið stóð þann 29. mars fyrir reiðhallarsýningu sem hét Hestar fyrir alla. Þar tóku krakkar úr æskulýðsstarfinu virkan þátt. Kappkostað var að á sýningunni væri hægt að sjá sem fjölbreyttasta nýtingu á hestinum, frá þægum fjölskylduhesti yfir í stólpa keppnishest og allt þar á milli. Börn og unglingar úr æskulýðsstarfinu voru með opnunaratriðið og mörg atriði úr æskulýðsstarfinu voru inn á milli atriða fullorðna fólksins. Fullt af myndum má sjá af sýningunni á þessum slóðum: http://thytur.123.is/photoalbums/259344/

http://thytur.123.is/photoalbums/259259/

Hestafimleikahópurinn fór á vorsýningu Sleipnis á Selfossi og sýndu atriði. Það var mjög skemmtileg sýning og skemmtileg ferð. Jafnframt því að æfa fyrir sýninguna og taka þátt í sýningunni var ýmislegt skemmtilegt gert í ferðinni, t.d. farið í reiðtúr á hestaleigu í nágrenni Selfoss.

Sumarið.

Krakkarnir og unglingarnir voru dugleg og að taka þátt í ýmsum keppnum í sumar bæði í heimahéraði og nálægum héruðum.  Þó eru þau ekki eins mörg sem taka þátt í keppnum yfir sumarið eins og í reiðhallarmótunum á veturna. Þeim börnum og unglingum sem komust á Landsmótið stóð til boða að fá leiðbeiningar og aðstoð frá Fanneyju Dögg Indriðadóttur. Flottir fulltrúar frá okkar félagi mættu svo galvaskir á Landsmótið og stóðu sig mjög vel í keppni þrátt fyrir úrhellis rigningu og rok. Þau voru einnig fulltrúar Þyts í hópreiðinni og stóðu sig með stakri prýði þar eins og ávalt.

Við í æskulýðsnefnd Þyts erum mjög ánægð með árið hjá okkur. Foreldrar hafa verið mjög duglegir eins og áður að aðstoða við það sem þarf, enda gengi ekki svona starf nema með virkum foreldrum því margir eiga um langan veg að fara til að mæta á námskeið, æfingar eða keppni allan veturinn, einnig þurfa yngstu þátttakendurnir digga aðstoð við að komast upp í hesthús og leggja á.  Vonum við að starfið haldi áfram að blómstra eins og verið hefur undanfarin ár.

Mikið af myndum er hægt að sjá úr starfinu í myndaalbúmi á heimasíðu Þyts: thytur.123.is.

Kær kveðja

Æskulýðsnefnd Þyts.

20.11.2014 08:15

Punktar úr fundargerð

Almennur félagsfundur var haldinn í gærkvöldi, 19.nóv í félagshúsi Þyts. Mæting ágæt en góðar umræður sköpuðust.

Punktar úr fundargerð:
  • Kolla kynnti hugmynd stjórnar um stækkun á hringvelli þeas bæta við hann þannig að það sé einnig 300 m völlur. Komu góðar umræður í kjölfarið, er þetta nauðsyn? hvað er hagkvæmast að gera? Komu fram hugmyndir um að gera frekar upphitunarvöll en að stækka hringvöllinn. Stjórn fundar um þetta, etv sniðugt að koma með tillögu á aðalfund.
  • Einnig hugmynd stjórnar að laga svæðið austan við völlinn, taka dómhúsin og slétta svæðið svo auðveldara sé að slá.
  • Fyrirhugaðar breytingar á dagssetningum móta næsta sumar þeas fyrst verður íþróttamót 13. og 14. júní og gæðingamót 15. og 16. ágúst.
  • Kolla fór aðeins yfir Húnvetnsku liðakeppnina, farið yfir dagsetningar hennar. 14. febrúar verður Smali, 27. febrúar fjórgangur, 20. mars fimmgangur og tölt í 3. fl og yngri flokkunum, 17. apríl tölt og skeið. Breyting frá því sem verið hefur er að börn og pollar fá að koma inn í mótið. Tilkynnt að liðin verða lögð niður og skrá þarf öll lið til leiks fyrir lokaskráningardag fyrsta móts. 
  • Kolla sagði frá því að sýningin verður ekki í ár, ákveðið að hafa sýninguna annað hvert ár.
  • Stefnt að ferð í Borgafjörðinn, tímasetningin ekki komin á hreint en verður auglýst mjög fljótlega. Tillaga var að fara á sýningu vestlendinga en kom fram athugasemd að þá hefði fólk etv ekki tíma til að taka á móti gestum vegna undirbúnings fyrir sýningu. Stjórn heyrir í Borgfirðingum með þetta og setur inn auglýsingu. 
  • Eva sagði frá námskeiðum vetrarins, frumtamningarnámskeið í janúar. Nefndin að skoða fræðslur og áframhaldandi námskeið af frumtamningarnámskeiði.
  • Dagatal laust til umsóknar, ef einhver hefur áhuga á að vinna að því endilega hafið samband við Vigdísi í síma 8951146
  • Firmakeppnin, spurning að breyta sniðinu á henni, kom hugmynd að sameina þorrablótið sem við höfum haldið seinnipartinn í janúar og firmakeppnina. Verður skoðað og auglýst.
  • Kolla sagði frá dagssetningum Grunnskólamótanna. 15 feb á Blönduósi, 15. mars á Sauðárkróki og 12. apríl á Hvammstanga.
  • Aðrar umræður á fundinum, kom upp sú umræða hvernig auka ætti nýliðun í greininni. Þetta er ekki nýtt vandamál né staðbundið og verðum við því að vera vakandi og opin fyrir öllum hugmyndum. Ein hugmyndin sem kom á þessum fundi er að félagsmenn myndu "ættleiða hestabarn" þ.e.a.s. að við myndum veita aðgang að hrossi og veita aðstöðu og aðstoð þeim börnum og unglingum sem hafa áhuga en vantar tækifærið til að ríða út. Stjórn Þyts er farin að skoða þessi mál og voru strax tveir á fundinum sem sögðust til í að skoða þetta fyrirkomulag. Þytur yrði þá etv einhversskonar milligönguaðili.

19.11.2014 21:05

Námskeið veturinn 2015

Nú erum við að skipuleggja vorönnina og þurfum við því að vita hvaða börn vilja fara á reiðnámskeið. Sumir hafa nú þegar skráð sig, þegar uppskeruhátíðin var haldin, en óskum við eftir að þeir sem ekki eru búnir að því skrái sig fyrir 5. desember nk. á netfangið thyturaeska@gmail.com. Nánari upplýsingar má fá þar eða hjá Helgu Rós í síma 848-7219.

Þau reiðnámskeið sem við viljum bjóða upp á eru;

-yngsti hópurinn (kennt aðra hverja helgi og foreldrar eða einhver fullorðinn þarf að vera með hverju barni og hesti)

-reiðnámskeið

-keppnisþjálfun

-knapamerki

-TREC

Ef lítil skráning er í einhverja hópana gæti þurft að fella það námskeið niður.

TREC:

TREC er vaxandi grein hér á landi enda fellur hún vel að okkar hestamennsku og íslenska hestinum. Greinin er hestvæn og styrkir samspil hests og knapa en er allt í senn spennandi, skemmtileg, fjölbreytt og fræðandi. Áherslan verður á ásetu og stjórnun þar sem markmiðið er að komast í gegnum TREC braut eða keppa í greininni og er reiknað með að kennt verði á hálfsmánaðar fresti. Hér meðfylgjandi er myndband frá Hestamannafélaginu Funa, https://www.youtube.com/watch?v=pJMyL4fwdNs#t=29

 

 

Þeir sem hafa áhuga á að fara á Æskan og hesturinn sem halda á í byrjun maí 2015 á Sauðárkróki endilega skráið sig og ef þið eruð með hugmyndir að atriði þá koma þeim á framfæri.

 

Komnar eru dagsetningar fyrir Vinamót hestamannafélaganna Norðurlandi vestra (sem áður hét Grunnskólamót), birt með fyrirvara um breytingar;

15. febrúar - Blönduós

15. mars  - Sauðárkrókur

12. apríl - Hvammstangi

Mótin verða haldin með sama sniði á áður.



--

Kveðja
Æskulýðsnefnd Þyts

 

17.11.2014 13:15

Almennur félagsfundur

Almennur félagsfundur verður haldinn í félagshúsi Þyts, miðvikudaginn 19. nóvember og hefst kl. 20.30


Dagskrá fundarins er:

1. vetrarstarfið

 2. önnur mál

Stjórn Þyts

Flettingar í dag: 332
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 711
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 1355088
Samtals gestir: 71416
Tölur uppfærðar: 26.10.2024 06:21:25