28.09.2009 15:22

Brotist inn í hesthús á Blönduósi

Brotist var inn í hesthús á Blönduósi um helgina og stolið þaðan hnakki og þremur beislum að verðmæti á fimmtahundrað þúsund. Að sögð eiganda hesthússins, Skarphéðins Einarssonar, eru innbrot í hesthús á Blönduósi að verða árlegur viðburður helgina sem Laufskálaréttin fer fram. 

-Ég varð fyrir því fyrir tveimur árum að farið var inn í húsið hjá mér þessa helgi og járningargræjunum mínum var stolið. Núna tóku þeir hnakk og þrjú beisli. Það voru fjórir hnakkar í húsinu en aðeins var tekinn sá sem einhver verðmæti voru í. Það lítur því út fyrir að þarna séu hestamenn sem eiga leið í gegn að stela frá öðrum hestamönnum. Ég veit til þess að hestamenn á Hvammstanga hafa líka verið að lenda í þessu. Þetta er mikið tjón fyrir okkur og sárt til þess að vita að þarna séu hestamenn á ferð, segir Skarphéðinn.

Skarphéðinn segist hafa tekið eftir þjófnaðinum í gær og þá hafi hann látið aðra hesthúseigendur vita um innbrotið en ekki hafi orðið vart við að stolið hafi verið úr fleiri húsum. -Ég mun ekki láta taka mig svona í bólinu aftur og er ákveðin í því að tæma allt úr húsinu fyrir næstu Laufskálaréttarhelgi.

www.feykir.is

Flettingar í dag: 1286
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 1418473
Samtals gestir: 74871
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:50:38