09.02.2010 12:30

Hýruspor eru samtök um hestatengda þjónustu á Norðurlandi vestra

Tilkynning frá Vaxtarsamningi Norðurlands vestra

Hýrusporið
er heiti samtaka um hestatengda þjónustu á Norðurlandi vestra. Þau voru stofnuð snemma árs 2009 og frá upphafi hefur verið horft á þau sem klasa rekstraraðila er byggja afkomu sína að einhverju leyti á íslenska hestinum, annað hvort beint eða með afleiddri þjónustu. Þarna geta t. d. bæði hrossaræktandinn og hótelhaldarinn  átt samleið því  báðir eiga þeirra hagsmuna að gæta að laða áhugafólk um íslenska hestinn inn á svæðið. Samtökin eru opin öllum er telja sig eiga samleið með þeim og reka sína starfsemi á Norðurlandi vestra.

Norðurland vestra hefur lengi verið þekkt fyrir hross og hestamennsku og til að mynda eru allar helstu stóðréttir landsins annað hvort í Skagafirði eða Húnaþingi. Héðan koma margir af þekktustu hrossastofnunum, og hér voru fyrstu hrossaræktarfélögin stofnuð. Víða um Norðurland vestra hafa verið reistar veglegar reiðhallir og ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi Hólaskóla, háskólans á Hólum í tengslum við hestamennskuna. Auk kennslu tengdri bæði reiðmennsku og ferðaþjónustu, er þar heimfrá lögð stund á ýmiss konar rannsóknir tengdar íslenska hestinum og þar er meðal annars að finna Sögusetur íslenska hestsins og aðsetur dýralæknis hrossasjúkdóma. Landsmót hestamanna verður haldið á Vindheimamelum í Skagafirði sumarið 2010 og svona mætti áfram telja.

Helstu markmiðin með klasanum eru:

·         Að fjölga ferðamönnum sem sækja hestatengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra og efla um leið afleidda þjónustu (gistingu, veitingar o. s. frv.)

·         Að fjölga störfum tengdum íslenska hestinum, á Norðurlandi vestra

·         Að auka samstöðu meðal aðila í hestatengdri ferðaþjónustu sem og annarri hestatengdri atvinnustarfsemi á Norðurlandi vestra

·         Að auka gæði hestatengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra

·         Að efla ímynd Norðurlands vestra, með tilliti til íslenska hestsins

·         Að fjölga möguleikum/auka fjölbreytni í hestatengdri ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra, m. a. með það fyrir augum að lengja hið hefðbundna ferðamannatímabil

Meðal fyrstu verkefna klasans var að koma sér upp sameiginlegum vef sem er ætlað að koma samtökunum á framfæri, og þá um leið því sem félagar bjóða falt. Enn fremur gegnir vefurinn því hlutverki að vera nokkurs konar regnhlíf yfir heimasíðum Hýrusporsfélaga. Vefinn er að finna á www.icehorse.is.

Einnig hafa verið stigin fyrstu skrefin í sameiginlegri markaðssetningu, með því að bjóða upp á samsettan ferðapakka í tengslum við Ísmót á Svínavatni í mars 2010. Ferðaþjónusta bænda hefur tekið að sér sölu og aðra umsýslu með þessum ferðum, enda er Hýrusporið ekki enn komið á þann rekspöl að tímabært sé að sækja um ferðaskrifstofuleyfi, hvað sem síðar kann að verða. Ferðirnar eru fyrst og fremst markaðssettar á vefnum og bera yfirskriftina Events & Breeders.

Fyrsti formaður Hýrusporsins er Páll Dagbjartsson This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it í Varmahlíð. Félagar eru þegar orðnir yfir 20 talsins, af öllu Norðurlandi vestra.

Vaxtarsamningurinn hefur styrkt verkefnið, bæði með fjármunum og sérfræðiframlögum, auk þess sem framkvæmdastjóri VNV hefur unnið með samtökunum frá upphafi.

Flettingar í dag: 497
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 351
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 1575554
Samtals gestir: 79763
Tölur uppfærðar: 5.2.2025 09:22:17