04.06.2010 16:08

Sumarsæla

 
Frestun Landsmóts hestamanna sem fara átti fram 27. júní - 5. júlí á Vindheimamelum í Skagafirði er mikið áfall fyrir hestamennsku og ferðaþjónustu í landinu og samfélagið allt, þó sérstaklega í Skagafirði, þar sem búið var að skipuleggja móttöku þúsunda gesta.  Sumarsæla í stað Landsmóts hestamanna.

Sveitarfélagið Skagafjörður, Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði, hestamannafélögin í Skagafirði og Hrossaræktarsamband Skagafirðinga hafa hins vegar ákveðið að snúa vörn í sókn og blása til Sæluviku að sumri á þeim tíma sem halda átti landsmótið.  

Meðal þess sem í boði verður fyrir þá sem sækja Skagafjörð heim þessa viku verða Lummudagar með glæsilegum skemmtiatriðum, knattspyrnumót fyrir stúlkur á Sauðárkróki, rútuferðir og gönguferðir um slóðir Sturlunga, Barokkhátíð á Hólum, afmælismót Golfklúbbs Sauðárkróks á Hlíðarendavelli og stórdansleikir með hestamannaívafi í Miðgarði. 

Kynbótasýning mun fara fram á Vindheimamelum á vegum Hrossaræktarsambandsins.  Þá er ótalin sú fjölbreytta afþreying sem alla jafna er boðið er upp á í Skagafirði s.s. flúðasiglingar, skipulagðar gönguferðir, siglingar út í hinar glæsilegu eyjar Drangey og Málmey.  Þá bíður Skagafjörður upp á glæsilega flóra safna s.s. Vesturfarasetur, Samgönguminjasafn, Byggðasafnið í Glaumbæ, Víðimýrarkirkju og Minjahúsið á Sauðárkróki, þar sem m.a. er hægt að berja augum ísbjörninn sem gekk á land í Skagafirði árið 2008. 
Gestastofa sútarans hefur verið opnuð á Sauðárkróki þar sem hægt er að fræðast um sútun á skinnum og roði og þær afurðir sem hönnuðir vinna úr því hráefni.   Ný og glæsileg sundlaug á Hofsósi hefur bæst í hóp sundlauga og heitra náttúrulauga sem finna má um allan Skagafjörð.  Í Skagafirði eru einnig frábærir veitingastaðir sem m.a. bjóða upp á kræsingar úr afurðum úr héraðinu og gistimöguleikarnir eru fjölbreyttir og margir, m.a. á nýju og glæsilegu tjaldstæði í Varmahlíð og endurbættu tjaldstæði á Sauðárkróki.
Skagfirðingar munu því leggja sig sérstaklega fram við að taka vel á móti og skemmta gestum sínum þá daga sem ætlaðir voru fyrir Landsmót hestamanna.  Áætlað er að Landsmót verði haldið sumarið 2011 í Skagafirði.
Ennfremur ætla hestamenn í Skagafirði að blása til hestamannamóts um Verslunarmannahelgina, Fákaflugs, þar sem boðið verður upp á gæðingakeppni, kynbótasýningar, töltkeppni og kappreiðar auk þess sem áhersla verður lögð á að skapa skemmtilega umgjörð í anda gömlu hestamannamótanna sem haldin voru þar áður fyrr.

  • Allar nánari upplýsingar munu birtast á www.visitskagafjordur.is
  • Nánari upplýsingar veita:
    Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri Markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sími: 8626163
  • Guðrún Brynleifsdóttir, verkefnastjóri Menningar- og ferðamála hjá Sveitarfélaginu Skagafirði,  sími: 898 9820
  • Pétur Grétarsson, fulltrúi hestamannafélaganna í Skagafirði, sími:  863 5653  
  • Svanhildur Pálsdóttir, formaður Félags ferðaþjónustunnar, sími: 846 2582
Flettingar í dag: 1286
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 1418473
Samtals gestir: 74871
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:50:38