28.01.2011 22:58

Vel sótt sýnikennsla í Þytsheimum


Um 80 manns mættu á sýnikennslu sem haldin var í gærkvöldi í Þytsheimum á Hvammstanga, reiðkennararnir Ísólfur Líndal og Guðmar Þór ásamt reiðkennaraefninu James Faulkner fóru yfir notkun reiðhalla og kerfisbundna uppbyggingu reiðhestsins. James byrjaði og heyra mátti mörg kvenhjörtun í stúkunni slá örar er hann fór yfir notkunarmöguleika reiðhalla, helstu ,,umferðarreglur" og sýndi nokkrar einfaldar æfingar sem hægt er að æfa inní höllinni. Það kom skýrt fram að James sé á lausu og þykir það með hreinum ólíkindum.


Næst var komið að Ísólfi, hann ræddi meðal annars um mikilvægi góðs sambands milli hests og knapa, að þeir mynduðu sameiginlegt ,,tungumál" sem báðir skildu. Einnig fór hann yfir mikilvægi fótastjórnunar, andlegs og líkamlegs heilbrigðis hests og knapa og einnig hvernig örvun, umbun og eftirgjöf er mikilvægur þáttur í tamningaferlinu. Ísólfur sýndi ýmsar æfingar og hvernig hægt væri að búa til sameiginlegt tungumál, "lyklaborð" til bættra samskipta milli manns og hests.


Síðastur kom svo Guðmar Þór og var með þjálfunarstund þar sem hann lagði áherslu á taumsamband, stjórn á yfirlínu hestsins, beitingu líkama hans og slökun. Talaði Guðmar um hversu mikilvægt er á að hafa stjórn á orku hestsins. Síðan sýndu þeir allir þrír hvernig orkustig hestsins er hækkað og afköst aukin.  Enduðu svo á að sýna hestana slaka og sátta í lok þjálfunarstundar.


Áhorfendur virtust mjög ánægðir með sýninguna og vonandi koma þeir kappar aftur með frekari fróðleik handa knöpum sýslunnar.

Vigdís tók myndir og settum við nokkrar hér inn á síðuna.
Flettingar í dag: 749
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 1417936
Samtals gestir: 74854
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37