26.12.2011 23:00

Íþróttamaður USVH

Miðvikudaginn 28. desember n.k. verður val á íþróttamanni ársins hjá USVH kynnt, en valið stendur á milli sex íþróttamanna. Athöfnin verður í íþróttamiðstöð Húnaþings vestra á Hvammstanga og hefst kl. 19:00.

Eftirtaldir einstaklingar eru tilnefndir til íþróttamanns USVH árið 2011:

Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fyrir kraftlyftingar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir fyrir frjálsar íþróttir
Helga Una Björnsdóttir fyrir hestaíþróttir
Hrund Jóhannsdóttir fyrir körfubolta
Reynir Aðalsteinsson fyrir hestaíþróttir
Tryggvi Björnsson fyrir hestaíþróttir


                                  

 

     


Árangur Helgu á árinu:

Helga Una er frábær reiðmaður sem hefur staðið sig vel á keppnisbrautinni upp alla flokka, er núna að klára sitt síðasta ár í ungmennaflokki. Helga Una var tilnefnd sem efnilegasti knapi ársins 2011 af Landssambandi hestamanna, fimm einstaklingar voru tilnefndir af landinu og var Helga ein af þeim. Baráttan um titilinn var gríðarlega hörð í ár þar sem bæði var Landsmót og Heimsmeistarmót sem er einsdæmi.

Helga er yngsti kynbótaknapi sem hefur keppt fyrir Íslandshönd í kynbótasýningum á Heimsmeistaramóti en hún gerði sér lítið fyrir og sýndi Smá frá Þúfu í fyrsta sætið en hún hlaut 8.03 fyrir byggingu og hvorki meira né minna en 8.59 fyrir hæfileika og 8.37 í aðaleinkunn. Helga sýndi nokkur önnur kynbótahross á árinu með góðum árangri. Meistaramót Andvara: Helga Una og Möller frá Blesastöðum enduðu í 10.-11. sæti í B-flokki á Meistaramóti Andvara með einkunnina 8,66. Á þessu móti keppti Helga ekki í ungmennaflokki heldur var bara einn flokkur svo hún keppti við alla helstu atvinnumenn landsins. Helga Una keppti á Gæðingamóti Þyts á hryssunni Karitas frá Kommu í ungmennaflokki og stóð efst eftir forkeppni með einkunnina 8,36 og fór með hana á Landsmót. Komst þar í milliriðla en þær stöllur náðu ekki að komast lengra en það að þessu sinni. Einnig komst Helga með Fjölni frá Akureyri í B-flokk á Landsmót en þau fengu einkunnina 8,13 á Gæðingamóti Þyts sem var jafnframt úrtaka fyrir Landsmót.Á Reykjavíkurmeistaramóti lenti Helga í 5. sæti í fjórgangi ungmenna á hryssunni Karitas frá Kommu.


Árangur Reynis á árinu:

Reynir er maður sem hiklaust má kalla einn af guðfeðrum íslenskrar reiðmennsku. Ferill hans sem reiðkennara, tamningamanns og keppanda er glæsilegur og fáir sem búa yfir meiri reynslu og þekkingu á íslenska hestinum og reiðmennsku. Reynir hefur verið á keppnisbrautinni síðan 1970, svo ferillinn er orðinn langur og góður.

Árangur Reynis á keppnisbrautinni í ár er mjög góður, hann keppti á nokkrum sterkum mótum og er hans besti árangur í ár á Íslandsmóti fullorðinna. Þar var hann í þriðja sæti í fimmgangi með 7,55, síðan keppti hann í forkeppni í T2 (slaktaumatölt) og varð fimmti inn í úrslit en tók ekki þátt í úrslitunum.

Annar árangur Reynis á árinu eru að hann var í fjórða sæti í fjórgangi, fimmta sæti í fimmgangi og fjórða sæti í tölti í Húnvetnsku liðakeppninni, efstur á Gæðingamóti Þyts í forkeppni en tók ekki þátt í úrslitum. Númer 1 í forkeppni í fimmgangi á Gullmóti í Hafnarfirði en tók ekki þátt í úrslitum. Númer eitt í fimmgangi á opna íþróttamótinu í Borgarnesi , númer þrjú í forkeppni í fimmgangi og númer fjögur í forkeppni T2 (slaktaumatölt) í úrtöku fyrir heimsmeistarmót.

Árangur Tryggva á árinu:

Tryggvi er knapi ársins 2011 í opnum flokki hjá Þyt. Tryggvi er búinn að vera afkastamikill á keppnisvellinum í ár eins og síðustu ár. Hefur staðið sig vel á mörgum sviðum, sýnir fjöldan allan af kynbótahrossum á ári hverju og keppir á íþrótta- og gæðingamótum.

Árangur Tryggva á árinu er í fyrsta lagi Húnvetnska liðakeppnin þar varð Tryggvi í sjötta sæti í fjórgangi, fyrsta sæti í smala, fyrsta sæti í skeiði og öðru sæti í fimmgangi. Í öðru lagi er það Meistaradeild Norðurlands, þar varð Tryggvi í öðru sæti í fjórgangi, sjötta sæti í tölti, sjöunda sæti í smala og fimmta sæti í skeiði. Á Stjörnutölti í Skautahöllinni á Akureyri varð Tryggvi í fimmta sæti í tölti, á Ís-landsmótinu á Svínavatni varð hann í öðru sæti í B-flokki og 8 sæti í B-flokki (kom tveimur hestum í úrslit) og í fjórða sæti í A-flokki. Á Ísmóti á Hnjúkatjörn varð Tryggvi í öðru sæti í tölti, á Fákaflugi á Vindheimamelum í sjöunda sæti í tölti og í 5.-6. sæti í 100 metra skeiði. Á Íþróttamóti Þyts í þriðja sæti í tölti, þriðja sæti í fjórgangi, fyrsta sæti í gæðingaskeiði og fyrsta sæti í 100 m skeiði. Á Metamóti Andvara í Kópavogi varð Tryggvi í öðru sæti í B-flokki og níunda sæti í A-flokki.






Flettingar í dag: 749
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 1417936
Samtals gestir: 74854
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37