04.03.2014 14:00
Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina.
Unglingalandsmótin sem eru vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð þarf vart að kynna. Mótin eru haldin árlega og ætíð um verslunarmannahelgina. Mótshaldari í sumar er UMSS en mótið verður haldið á Sauðárkróki. Öll íþróttaaðstaða er þar til fyrirmyndar og tjaldsvæðið í göngufæri.
Íþróttagreinarnar eru margar en samhliða þeim er boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Keppendur eru á aldrinum 11 - 18 ára og er mótið öllum opið á þeim aldri. Keppendur greiða eitt keppnisgjald sem er kr. 6.000.- Frítt er á tjaldsvæðin en rukkað er fyrir afnot af rafmagni.
Keppnisgreinar á þessu móti eru: BOGFIMI, DANS, FRJÁLSÍÞRÓTTIR, GLÍMA, GOLF, HESTAÍRÞÓTTIR, KNATTSPYRNA, KÖRFUBOLTI, MOTOCROSS, SIGLINGAR, SKÁK, STAFSETNING, STRANDBLAK, SUND, TÖLVULEIKUR OG UPPLESTUR. Fötluðum einstaklingum er boðið að keppa í frjálsíþróttum og sundi.
Að þessu sinni mun mótið hefjast á fimmtudegi með tveimur keppnisgreinum; dansi og golfi. Aðrar keppnisgreinar hefjast á föstudagsmorgni eða síðar. Mótssetningin verður eins og hefð er fyrir á föstudagskvöldið en mótinu verður slitið um miðnætti á sunnudag.
Ýmsar upplýsingar er komnar á heimasíðu okkar umfi.is og þær verða síðan uppfærðar jafnt og þétt fram að móti.
Það er okkur mikilvægt að þið komið þessum upplýsingum áfram til ykkar eins og kostur er.
Við hvetjum til þátttöku og hlökkum til að taka á móti ykkur á Sauðárkróki.
Frekari upplýsingar gefur:
Ómar Bragi Stefánsson
Gsm:898 1095
Netfang: omar@umfi.is