19.03.2014 11:52
Æskulýðsstarf
Hestamannafélagsins Þyts
Starfsskýrsla
2012-2013.
Æskulýðsnefnd
Þyts 2012-2013.
Guðný Helga
Björnsdóttir, formaður
Helga Rós
Níelsdóttir
Irena Kamp
Þóranna
Másdóttir
Þórdís Helga
Benediktsdóttir, tengiliður við stjórn
Uppskeruhátíð.
Þrettándagleði.
Æskulýðsnefndin stóð að venju fyrir
Þrettándagleði í sveitarfélaginu á. Farin var hópreið með álfakóng og
drottningu í fararbroddi, ásamt álfameyjum, Grýlu, Leppalúða og nokkrum
jólasveinum, margir tóku einnig þátt fótgangandi á eftir hersingunni. Allt voru það krakkar úr æskulýðsstarfi
félagsins sem tóku hlutverkin að sér. Hópreiðin
fór frá Kaupfélagsplaninu og stoppaði við sjúkrahúsið þar sem sungnir voru
áramótasöngvar, þaðan var farið upp í reiðhöllin
Þytsheima þar sem öllum var gefið kakó, kaffi og kökur sem foreldrar og
aðstandendur í æskulýðsstarfinu höfðu framreitt. Þar voru tónlistaratriði,
leikir og teymt undir börnum í reiðhöllinni. Þessi dagur tókst mjög vel í alla
staði, og stóðu krakkarnir sig vel að vanda.
Fundir.
Nokkrir fundir voru haldnir á
starfsárinu, bæði foreldrafundir um starfið og nefndarfundir.
Reiðþjálfun og fimleikar
á hesti (voltigieren).
Mikill áhugi var á reiðþjálfun og
fimleikum á hesti. Um 60 börn á öllum aldri tóku þátt í reiðþjálfun, fimleikum
á hesti eða Knapamerki í vetur. 5 unglingar luku prófi í Knapamerki 2. Fanney
Dögg Indriðadóttir sá um reiðkennsluna og Knapamerkin. Irina Kamp og Kathrin Schmitt
sáu um fimleika á hesti. Þátttakan í
reiðþjálfuninni var það mikil að hóparnir voru fjórir, mislangt komnir krakkar
í þeim og fengu þjálfun við hæfi hvers hóps. Svo vorum við með þjálfun fyrir
allra yngstu knapana, um hana sá Aðalheiður Einarsdóttir. Sú þjálfun var á
laugardögum og komu foreldrarnir með því það þurfti að hjálpa sumum knöpunum,
sem ekki voru háir í loftinu.
Í desember í lok haustannar hestafimleikanna var hópurinn með mjög skemmtilega sirkussýningu í íþróttahúsinu á Laugarbakka þar sem krakkarnir voru með mörg mjög flott atriði. Þar fengu allir skemmtileg hlutverk sem hæfðu þeirra stöðu í þjálfunarferlinum. Þó eðlilega væri ekki verið með lifandi hest í íþróttahúsinu þá er hluti æfinganna að þjálfa jafnvægi, fimi og aga og fer sá hluti til að byrja með fram í íþróttahúsinu, enda eru hestafimleikahestarnir í fríi á haustin þar sem þeir þurfa sitt frí eins og aðrir. Mikið af skemmtilegum myndum eru frá sýningunni á heimasíðu Þyts (bein slóð: http://thytur.123.is/photoalbums/238091/
Grunnskólamótin.
Æskulýðsnefndir hestamannafélaganna á Norðurlandi vestra halda þrjú mót
yfir veturinn, sem þau kalla Grunnskólamót. Þá keppa krakkarnir fyrir þann
skóla sem þau eru í og safna stigum. Mótin voru haldin í Arnargerði á
Blönduósi, í Svaðastöðum á Sauðárkróki og í Þytsheimum hér á Hvammstanga. Góð
þátttaka var í þessum mótum. Þau eru byggð upp á því að allir geti tekið þátt
og æft sig í að keppa. Keppt er í þremur aldursflokkum. Elsti hópurinn 8. - 10.
bekkur keppa í tölti, fjórgangi, smala og skeiði. 4.-7. bekkur keppa í smala,
tölti, og tví- eða þrígangi. Í tvígangi sýna þau fet og tölt eða brokk, í
þrígangi sýna þau fet, tölt og brokk. Ekki þurfa þessi aldursflokkar að sýna
stökk, enda getur það verið erfitt fyrir lítið reynda knapa inni í reiðhöllunum.
Yngsti aldursflokkurinn í 1. - 3. bekk keppa í þrautabraut og fegurðarreið. Að
venju vann Varmahlíðarskóli stigakeppnina, Húnavallaskóli varð í öðru sæti og
Grunnskóli Húnaþings vestra í því þriðja, en þar eru Þytskrakkarnir.
Sýningar.
Hestamannafélagið hélt í páskavikunni sýningu sem hét Hestar fyrir alla.
Þar tóku krakkar úr æskulýðsstarfinu virkan þátt. Kappkostað var að á
sýningunni væri hægt að sjá sem fjölbreyttasta nýtingu á hestinum, frá þægum
fjölskylduhesti yfir í stólpa keppnishest og allt þar á milli. Veglegt
opnunaratriði var þar sem yngstu krakkarnir tóku virkan þátt ásamt hluta af
þeim eldri. Svo voru allmörg atriði úr æskulýðsstarfinu inn á milli atriða
fullorðna fólksins. Fullt af myndum má sjá af sýningunni á þessari slóð: http://thytur.123.is/photoalbums/246463/
Í
byrjun maí var farið með skrautreiðaratriði á sýninguna Æskan og hesturinn á
Sauðárkróki. Það er mjög skemmtileg sýning þar sem hópar úr æskulýðsstarfi hestamannafélaganna
á Norðurlandi koma saman með nokkur sýningaratriði. Einnig taka öll félögin
þátt í hópreið í upphafi sýningar. Mjög gaman að koma saman og sjá hvað hin
félögin eru að gera og kynnast krökkunum og foreldrunum úr æskulýðsstarfinu hjá
öðrum félögum.
Sumarið.
Krakkarnir og unglingarnir voru dugleg og að taka þátt í ýmsum keppnum í
sumar bæði í heimahéraði og nálægum héruðum. Þó eru þau ekki eins mörg sem taka þátt í
keppnum yfir sumarið eins og í reiðhallarmótunum á veturna. Þeim börnum og
unglingum sem komust á Fjórðungsmót stóð til boða að fá leiðbeiningar og aðstoð
frá Fanneyju Dögg Indriðadóttur. Flottir fulltrúar frá okkar félagi mættu svo
galvaskir á Fjórðungsmótið og komust mörg þeirra í úrslit í sínum greinum. Þau
voru einnig fulltrúar Þyts í hópreiðinni.
Mikið af myndum er hægt að sjá úr starfinu í myndaalbúmi á heimasíðu Þyts
thytur.123.is.
Kær kveðja
Æskulýðsnefnd
Þyts.