03.05.2017 10:02
Fjórðungsmót Vesturlands
Eins og ykkur er kunnugt verður Fjórðungsmót Vesturlands haldið í Borgarnesi 28. júní til 2. júlí 2017. Framkvæmdaaðilar mótsins eru hestamannafélögin fimm á Vesturlandi en auk þeirra eiga keppnisrétt á mótinu félagsmenn í hestamannafélögunum á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslum og í Skagafirði.
Keppt verður í hefðbundnum greinum gæðingakeppninnar þ.e. A og B-flokki gæðinga, ungmennaflokki, unglingaflokki og barnaflokki
Þá verður tölt opinn flokkur og tölt 17 ára og yngri. Þá er stefnt að keppni í 100 m fljúgandi skeiði, 150 og 250 m skeiði. Vegleg verðlaun verða fyrir fyrsta sætið í tölti og 100 m skeiði.
Keppendur skrá sig sjálfir í tölt opinn flokk, tölt 17 ára og yngri og skeiðgreinar.
Sýning á kynbótahrossum verður í umsjá RML en fjöldi þeirra verður þessi:
Stóðhestar 4 v., 5 v. og 6 v. verða 8 í hverjum flokki en 6 í flokki 7 v. og eldri eða samtals 30 stóðhestar.
Hryssur 4 v. verða 8, 5 v. verða 14, 6 v. verða 10 og 7 v. og eldri verða 6 eða samtals 38.
Samtals munu því 68 kynbótahross eiga rétt til að mæta á fjórðungsmótið.
Miðað er við að kynbótahross verði að lágmarki að vera í 25% eigu aðila sem á lögheimili á svæði þeirra hestamannafélaga sem eiga keppnisrétt á mótinu (Vesturland, Vestfirðir, Húnavatnssýslur og Skagafjörður).
Þess skal getið að nú er verið að endurbyggja gömlu kynbótabrautina í Borgarnesi en margir hafa talað um að hún hafi á sínum tíma verið ein sú besta á landinu. Stefnt er að því að prufukeyra hana á kynbótasýningu í byrjun júní.
Stefnt er að því að sem flestir geti fengið pláss fyrir sín hross í hesthúsum í Borgarnesi en einhverjir geta þurft að vera í næsta nágrenni. Þó verður mikilvægt að þau hross sem lokið hafa keppni fari strax að lokinni keppni frá Borgarnesi þannig að rými verði fyrir þá sem eftir eiga að keppa. Tekið skal fram að stefnt er að því að hvert félag sem eigi keppnisrétt á fjórðungsmótinu fái ákveðin hesthús til umráða og það verði síðan þeirra að ákveða um nýtingu á viðkomandi húsi/húsum þannig að einstakir keppendur eiga ekki sjálfir að útvega sér hesthúspláss í Borgarnesi. Nánar verður tilkynnt um fyrirkomulag hvað þetta varðar síðar.
Vekja má athygli á því að aðgangseyri verður mjög í hóf stillt eða 2.500 kr. og síðan getur hver og einn ákveðið hvað hann verður lengi á mótinu t.d. einn dag eða allt mótið. Tjaldstæði með rafmagni verða á Kárastaðatúni (milli þéttbýlisins í Borgarnesi og mótssvæðisins). Selt verður sérstaklega inn á tjaldstæðið og fyrir afnot af rafmagni.