17.02.2023 07:50

Minningar sem ylja

                                                    
 

Í dag er sorgardagur hjá okkur Þytsfélögum, sem og í Húnaþingi vestra öllu þegar við fylgjum okkar kæru vinkonu og mætum Þytsfélaga, Vigdísi Gunnarsdóttur, til hinstu hvílu eftir stutta og erfiða baráttu við krabbamein.

Vigdís okkar kom inn í líf okkar Húnvetninga fyrir um aldarfjórðungi síðan þegar Ísólfur Líndal steig hið gæfuríka spor að næla í hana, ekki bara honum til heilla heldur samfélaginu öllu. Vigdís var allar götur síðan mikill máttarstólpi í starfi Þyts og sömuleiðis öðrum þáttum samfélagsins okkar. Einlægur hestaunnandi, félagsvera og samfélagsvera sem veitti félagsstarfinu alla sína krafta. Það voru nú ekkert litlir kraftar því hún var einstaklega drífandi manneskja sem með jákvæðni sinni og dugnaði heillaði alla í kringum sig og náði að virkja ótrúlegasta fólk með sér til góðra verka. Samstarf og samvinna var Vigdísar aðalsmerki, alltaf lausnamiðuð hversu erfitt sem verkið var og einhvern veginn náði hún alltaf að smita þessu allt að því kyngimagnaða jákvæðnishugarfari yfir á alla í kringum sig. Iðulega fylgdi bros með enda alltaf stutt í hláturinn og lífsgleðina hjá Vigdísi.

Vigdís tók mikinn þátt í félagsstarfi Þyts, var í mótanefnd í mörg ár og sömuleiðis í stjórn Þyts. Stóð sig þar með stakri prýði eins og í öllum öðrum störfum sem hún kom að. Hún fylgdi strákunum sínum sömuleiðis alltaf með í keppnir á milli þess sem hún keppti sjálf og skipti þá engu máli hvort það voru þeir eða aðrir félagar sem þurftu einhvers liðsinnis við, alltaf var Vigdís okkar tilbúin til aðstoðar við það sem þurfti við.

Alltaf var gott að leita til Vigdísar, sama hvert málefnið var, enda hafði hún djúpa sýn og skilning á ýmsum mannlegum þáttum í gegnum menntun sína, störf og ekki hvað síst náttúrulega samskiptahæfileika.

Elsku Vigdís

Samfélagið okkar er sannarlega fátækara eftir að þú kvaddir okkur

Innilegar samúðarkveðjur færum við aðstandendum þínum

Þínir félagar og vinir

Hestamannafélagið Þytur

Flettingar í dag: 2099
Gestir í dag: 64
Flettingar í gær: 2761
Gestir í gær: 101
Samtals flettingar: 1247040
Samtals gestir: 66808
Tölur uppfærðar: 8.9.2024 05:30:42