Færslur: 2010 Maí
31.05.2010 16:01
Landsmóti 2010 hefur verið frestað
Landsmóti 2010 hefur verið frestað. Endanleg ákvörðun var tekin um það á fundi hagsmunaaðila sem nú er að ljúka í Landbúnaðarráðuneytinu. Nánar verður skýrt frá fundinum með fréttatilkynningu LH sem er nú verið að semja. þetta staðfesti Haraldur Þórarinsson formaður LH í samtali við Hestafréttir rétt í þessu.
29.05.2010 10:35
Mikil samstaða á formannafundi LH
Formannafundur Landssambands hestamannafélaga var haldin í dag, 28.maí, í húsakynnum ÍSÍ. Fundurinn var vel sóttur en auk formanna og fulltrúa hestamannafélaganna sátu fundinn: stjórn LH, fyrrverandi formenn LH, formaður FHB og formaður FT. Fyrir hönd Landsmóts hestamanna ehf. mættu: stjórn Landsmóts ehf., framkvæmdastjóri, mótsstjóri og hluti framkvæmdanefndar.
Umræðuefni fundarins var áhrif kvefpestar á Landsmót 2010. Fundurinn hófst með því að Vilhjálmur Svansson dýralæknir og veirufræðingur og Gunnar Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir héldu stutt erindi um veikina. Að því loknu voru fyrirspurnir fundargesta úr sal leyfðar.
Hér að neðan má sjá þær spurningar og svör sem dýralæknarnir sátu fyrir:
Sigurður Ævarsson - LH: Vísar í fyrirlestur Gunnars og spyr hvort að þeir hestar sem búið var að sleppa út hvort þeir hafi verið í upphafi eða enda veikinda?
GÖG: Hestarnir voru búnir að vera veikir og veiktust aftur. Fengu hita og hor.
Mælir með því að byrja ekki að þjálfa hrossin aftur fyrr en 2 vikum eftir síðasta hósta. Byrja mjög rólega.
Ómar Didriksson - Geysi: Hefur veikin áhrif á sæði/frjósemi stóðhesta?
GÖG: Langvinnur sótthiti í stóðhestum hefur áhrif á sæðisgæði, en svona skammvinnur hiti eins og nú er í gangi hefur ekki áhrif.
Kristinn Guðnason - FHB: Sem dæmi; hestur sem er búin að vera veikur í 3 vikur og er einkennalaus í dag, hvað er eðlilegt að líði langur tími þar til hesturinn sé tilbúin til að þola þau átök sem hann verður fyrir í keppni?
GÖG: Það er mjög misjafnt eftir hrossum. Það var skoðað ofan í barka á nokkrum hrossum sem voru á mismunandi stigum veikinnar. Sum þeirra voru með roða og stækkaðan eitlavef. Sást slím í barka. Slímið virðist koma mest frá slímhimnum nefs, en ekki ofan úr lungunum. Ef einkennin eru horfin en hesturinn samt með einstakan hósta þá getur það tekið 3-6 vikur, misjafnt eftir einstaklingnum, að komast aftur í þjálfun.
Kristinn Guðnason - FHB: Ef farið er of geyst af stað að nýju getur það haft varanleg áhrif á hestinn?
GÖG: Ég hef ekki trú á því að hesturinn beri varanlegan skaða.
Guðni Árnason - Smára: Er það möguleiki að hross sem hefur verið stopp í 7-8 vikur og er komið í þjálfun, hittir hross á LM sem er smitað, getur verið að það smitist aftur?
VS: Tekur sem dæmi kverkeitlabólgu að það sé möguleiki á endursmiti 6 mánuðum seinna.
Oddur Hafsteinsson - LH: Vísar til prófana á lyfjum í Steinsholti og í Ingólfshvoli, vitið þið eitthvað um það?
VS og GÖG: nei, ekki neitt.
Haraldur Þórarinsson - LH: er sannað að hross séu að smitast aftur og aftur?
VS: hross sem eru í mjög smituðu umhverfi, þá já.
Valgerður Sveinsdóttir - Fákur: Þegar hross eru að endursmit, smitast aftur og aftur, er þetta þá sama bakterían sem er að koma aftur eða er þetta ný baktería?
VS: Þekkjum það bara frá mönnum að við fáum króníska streptokokka, semsagt sama bakterían aftur.
Jón Albert - fyrrv. form. LH: Er til einhver áætlun fyrir næsta áfall? Því mér sýnist að við eigum von á fleiri veirum á næstunni til landsins ef ekkert verður að gert.
GÖG: Já það er til grunnur að viðbragðsáætlun. Eitt stærsta áfallið væri ef inflúensan myndi berast til landsins. Hún er svo feiknalega smitandi.
Jón Albert - fyrrv. form. LH: Eru hestamenn með í því eða er þetta bara innan skrifstofunnar?
GÖG: Byrjar innan skrifstofunnar og svo eru fengnir til liðs hestamenn sem þekkja vel til. Ekki hægt að búa til viðbraðgsáætlun fyrir allar veirur, en grunnurinn er til.
Sveinbjörn Sveinbjörnsson fundarstjóri: Hverjar eru smitvarnirnar á Keflavíkurflugvelli?
GÖG: Tollverðir vita að það má ekki koma inn með hestabúnað. Innflutningur með pósti er allur tjékkaður af. Hestamenn sjálfir verndi búin sín. Stoppi sína gesti líka sjálf. Varðandi þessa veiru voru viðbrögðin ekki samræmd í upphafi meðal manna.
Jón Albert - fyrrv. form. LH: Greinin er í molum útaf kvefpest, hvað gerist þá ef verri veira berst til landsins? Leggur áherslu á að ítreka smitvarnir!
GÖG: hefur verið reynt að fá fjármagn til þess að dreifa bæklingum/einblöðungum í t.d. flugvélum en ekki fengist.
Óþekktur fundargestur: Afhverju er fræðsla meðal þeirra sem koma til landins ekki betri?
GÖG: segir að ekki hafi fjárveiting fengist til þess að kynna svona til erlendra ferðamanna um borð í flugvélum.
Guðmundur Sveinsson - Léttfeti: Segir að dæmi úr Skagafirði hafa sýnt að fúkkalyf, astmalyf og slímlosandi lyf hafa lítið hjálpað veikum hrossum og engin áhrif haft á veikina.
GÖG: sumum hrossum virðist batna og líða betur við fúkkalyfsmeðferð. Hversu vel þeim batnar, upp á að geta farið að æfa þau aftur vill hann þó ekki fullyrða um.
Jónína Stefánsdóttir - Stígandi: Getur krónískur hósti, líkt og virðist hafa komið fram hjá Gísla Gíslasyni í Þúfum Skagafirði, komið fram ef hross eru hreyfð of snemma og hvort þau séu þá ekki orðin verðlaus?
GÖG: Fullyrði ekki um þetta en segir þó að dæmi séu um hross sem hóstað hafa í margar vikur hafa hætt því eftir fimm daga fúkkalyfsmeðferð.
Jónína Stefánsdóttir - Stígandi: Hvernig fer influensan með okkur fyrst þessi væga kvefpest er að setja allt á hausinn núna? Hvað getum við gert til að fyrirbyggja að influensan nái til okkar, kannski með bóluefni?
VS: Ekki eru til góð bóluefni við influensu, því miður. Þó að influensan sé endilega ekki það versta, það versta við hana er hversu þrælsmitandi hún er. Ef influensa nær til landsins verður hún ekki landlæg heldur einn snarpur faraldur sem nánast ógjörlegt verður að stoppa.
Sigurður Ævarsson - LH: Hefði fólk áttað sig á því fyrr, hvað um var að ræða, hefði verið farið í lokanir á svæðum, og þá hvað lengi?
GÖG: Svíar hafa góða reynslu af slíkum lokunum, þeir loka hrossabúgörðum í 2-3 mánuði. Vandræði okkar Íslendinga er að þessi hesthúsahverfi okkar eru einsdæmi, þekkjast ekki erlendis, mjög flókið að loka þeim.
Ómar Diðriksson - Geysir: Hafa einhverjir hestar sloppið við pestina?
GÖG: Hugsanlegt er að einhverjir sleppi, það er ekki vitað.
Björn Bjarnason - Sörli: Það eru margir hestamenn mjög svartsýnir á að halda LM2010 en vill benda á að um 120 hross hafa verið sýnd á kynbótasýningu á Sörlastöðum. Þar á meðal var 1 hestur sýndur frá Þúfum, Kappi frá Kommu, og fór í góðar tölur.
Guðmundur Sveinsson - Léttfeti: Vill taka það fram að Gísli Gíslason Þúfum tók það sérstaklega fram að hann hefur ekki séð Kappa frá Kommu veikjast.
Gunnari og Vilhjálmi þakkað fyrir fyrirlestrana og góð svör við spurningum fundargesta.
Á fundinum voru eftirfarandi tvær ályktanir samþykktar:
1) Ályktun til Matvælastofnunnar
Formannafundur LH haldinn 28.maí 2010 skorar á Matvælastofnun að hún láti rannsaka með hvaða hætti sjúkdómur sá sem herjar á íslenska hrossastofninn barst til landsins. Þá krefst fundurinn þess að stofnunin leiti þegar allra leiða til að koma í veg fyrir að aðrir sjúkdómar berist hingað. Telur fundurinn að núverandi framkvæmd sjúkdómavarna sé verulega ábótavant.
2)Formannafundur LH haldinn 28.maí 2010 hvetur stjórnir Landssambands hestamannafélaga, Bændasamtaka Íslands og Landsmóts hestamanna ehf. að hafa eftirfarandi þætti að leiðarljósi við ákvarðanatöku um hvort halda eigi Landsmót hestamanna á Vindheimamelum 2010 í ljósi þess sjúkdóms sem nú herjar á íslenska hrossastofninn:
- Velferð hestsins
- Ímynd hestamennskunnar og Landsmóts til framtíðar.
Nánar verður greint frá fundinum og niðurstöðum hans síðar.
www.lhhestar.is
27.05.2010 22:00
Bakteríusýking
Nú liggur fyrir að smitandi hósti er ekki af völdum neinna af þeim alvarlegu veirusýkingum sem þekktar eru og leggjast á öndunafæri hrossa. Bakterían Streptococcus zooepidemicus hefur hins vegar ræktast úr öllum sýnum sem tekin hafa verið úr hrossum með hósta og graftarkenndan hor, en ekki úr hrossum sem eingöngu hafa verið með nefrennsli eða heilbrigð.
Ljóst er að bakteríusýkingin er afgerandi fyrir sjúkdómsmyndina og að hún er bráðsmitandi. Rannsóknirnar hafa verið unnar á Tilraunastöðinni á Keldum í samstarfi við hérlendar og erlendar rannsóknarstofnanir.Bakterían hefur nokkrum sinnum ræktast úr veikum hrossum á Íslandi, t.d. úr hópsýkingu folalda í stóðhestagirðingu sem voru með graftarkenndan hor og stækkaða kverkeitla. Hún er því ekki ný af nálinni í umhverfi hestanna okkar og ætla mætti að ónæmi gegn henni væri nokkurt. Hún hefur aldrei áður valdið faraldri hér á landi svo vitað sé. Almennt er talið að bakterían nái sér fyrst og fremst á strik í kjölfar annara sýkinga, einkum veirusýkinga, en einnig í einstaklingum með litla mótstöðu. Hún er algeng ástæða öndunarfærasýkinga í hrossum erlendis en leiðir alla jafna ekki til faraldurs þar sem mótstaðan gegn henni er meiri.
Enn er gert ráð fyrir að óþekkt og þá væntanlega tiltölulega væg veira hafi borist til landsins og komið faraldrinum af stað. Sú staðreynd að allir hestar virðast næmir fyrir sjúkdómnum styður þá kenningu. En sá möguleiki er einnig fyrir hendi að einhverjar aðrar ástæður hafi orðið þess valdandi að bakteríusýkingin blossaði upp og varð að þeim faraldri sem raun ber vitni.
Komið hefur í ljós við rannsókn á uppruna veikinnar að nokkuð hefur verið um hósta í hesthúsum víða um land undanfarin tvö ár. Grunur um smitsjúkdóm vaknaði þó ekki fyrr en nú í apríl. Ekki er ljóst hvort um sömu veiki var að ræða og nú geisar enda hafa þessi hross öll veikst aftur meira eða minna.
Möguleikinn á að bakterían hafi búið um sig í nokkuð langan tíma er fyrir hendi. Mikill þéttleiki hrossa, innistaða, álag og streita í tengslum við þjálfun, sýningar og keppni, auk lítillar mótstöðu í stofninum í heild sinni, eru þættir sem gætu hafa gert það að verkum að smitið magnaðist upp og faraldur braust út.
Að lokum má geta þess að nú er verið að rannsaka hvort um sé að ræða nýjan stofn af bakteríunni og hvort það geti útskýrt faraldurinn.
Hvað svo sem setti þennan faraldur af stað er verkefnið núna að vinna úr afleiðingunum.
Reynslan hefur sýnt að smitefnið magnast upp í hesthúsunum og einkenni sjúkdómsins verða alvarlegri eftir því sem hestum er haldið meira á húsi. Útigangshrossin veikjast venjulega vægar. Þetta gefur vonir um að vandamálið minnki eftir því sem fleiri hrossum er sleppt út á rúmt land.
Mikilvægast er að koma sem flestum hrossum út en þeir sem telja sig þurfa að hýsa áfram þurfa að hreinsa og háþrýstiþvo húsin, jafnvel sótthreinsa. Einnig er áríðandi að hvíla hross sem sýna einkenni sjúkdómsins. Ef það tekst að fyrirbyggja að smitið magnist upp og hrossin verða aðeins fyrir vægu smiti (eins og gerist úti) styttist tíminn sem hrossin bera einkenni veikinnar og þar með tíminn sem þau missa úr þjálfun.
Auka þarf eftirlit með fylfullum hryssum, nýköstuðum hryssum sem og folöldum og varast að halda þennan hóp á þröngu landi eða við aðrar þær aðstæður sem magna smitið upp. Ef hryssur kasta í mjög sýktu umhverfi aukast líkurnar á naflasýkingum í folöldum sem geta haft slæmar afleiðingar.
Ekki er tryggt að hross myndi ónæmi gegn veikinni og því verður að minnka smitálagið með því að koma hrossunum í hreint umhverfi. Mælt er með því að hestamenn þrífi hesthús sín vel eftir að hrossum hefur verið sleppt í sumarhaga.
Hægt er að meðhöndla hross ef alvarleg einkenni koma fram en annars er æskilegt að hestarnir vinni sjálfir á sýkingunni. Það eykur mótstöðu þeirra seinna meir.
Sigríður Björnsdóttir
Vilhjálmur Svansson
Eggert Gunnarsson
/mast.is
27.05.2010 15:26
Viðtal við Gunna Arnars á www.eidfaxi.is
Vegna umræðu um áhrif veirusýkingar á landsmót hafði Eiðfaxi samband við Gunnar Arnarsson hrossaræktanda og spurði hann álits.
Hvernig er staðan hjá þér?
Hér erum við með alla flóruna, það er að segja hrossin eru á öllum stigum sýkingar. Einhver eru búin að ná sér, og erum við að sýna þessa dagana það sem er í lagi. Einhver eru á batavegi og verða klár næstu daga eða í öllu falli á næstu tveimur vikum.
Er hægt að halda Landsmót?
Að sjálfsögðu er hægt að halda Landsmót, jafnvel þótt það verði aðeins minna að hestakosti heldur en það hefði orðið undir venjulegum kringumstæðum. Það eru til lausnir ef menn vilja opna augun og sjá þær. Til dæmis er vel hægt að nota kynbótadóma frá því í fyrra og hitteðfyrra til þess að taka hross inn á mótið. Við hljótum að geta treyst dómgreind eigenda þessara hrossa til að koma aðeins með þau séu þau í góðu lagi. Þau hross sem fóru í lágmarkseinkunnir til inntöku á LM eru búin að sanna að þau eru góð.
Nú virðist umræðan hneigjast að því að LM verði blásið af. Hvað finnst þér um það?
Það er dapurlegt að þeir sem stjórna umræðunni tali eins og engir hagsmunir séu í húfi. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að halda landsmót og það er óþolandi að stýrimennirnir skuli vera meðal þeirra fyrstu sem leggja árar í bát og gefast upp. Skipstjóri yfirgefur ekki skipið fyrr en það er sokkið. Við verðum að sjálfsögðu að hafa velferð hestsins í fyrirrúmi og efst á forgangslistanum. Þeir sem eiga og eru með þessi hross eru undantekningalaust fagfólk og því er algerlega treystandi fyrir velferð hrossa sinna. Nú eru tamningamenn með fullt af gæðingum á húsi, hross sem búið er að undirbúa í langan tíma fyrir þetta landsmót. Fjárhagslegt tjón eigenda þessara hrossa verður gífurlegt og ekki bætandi á allt annað sem mæðir á þessu þjóðfélagi. Mörg þessara hrossa eru að komast útúr þessu ástandi og þann fyrsta júlí verða mörg hross komin í feikna form spái ég.
Hverjar geta orðið afleiðingar þess, verði hætt við að halda LM?
Það mun taka áratugi að rétta af greinina aftur. Allir þeir sem hafa verið að fjárfesta í henni undanfarin ár munu verða fyrir miklu tjóni, það unga fólk sem hefur varið tíma sínum og fjármunum í menntun í þessu fræðum verður fyrir miklu tjóni. Skólarnir sem eru að mennta þetta fólk munu líka líða er fólk hættir að mennta sig vegna doða í greininni. Atvinna með hross mun að miklu leyti leggjast útaf. Áhrif þessa á markaðina okkar bæði hvað varðar útflutt hross og þekkingu eru algerlega óþekkt.
Hvað er til ráða?
Ég vil hvetja þá sem um taumana halda að átta sig á afleiðingum þess að blása mótið af og snúa sér frekar að því verkefni að peppa upp fólkið og hvetja það til dáða. Það gera almennilegir stjórar.
www.eidfaxi.is
27.05.2010 15:22
Einbeita sér að mótshaldi
Uggur er í mörgum vegna hestapestarinnar sem herjað hefur á hross víða undanfarið.
Á morgun munu formenn hestamannafélaga hittast og bera saman bækur sínar. Á mánudaginn kemur munu þeir sem eiga hagsmuna að gæta og sérfræðingar funda um framhaldið og meta stöðuna.
www.hestafrettir.is
27.05.2010 08:37
Frá Félagi tamningamanna
Félag tamningamanna lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem er upp er komin varðandi smitandi kvefpest í hrossum. Þar sem ekki hefur tekist að greina veiruna eru afleiðingar pestarinnar enn óljósar og hún virðist þrálát og erfið viðureignar. Því vill Félag tamningamanna hvetja hesteigendur til að huga fyrst og fremst að velferð hrossa sinna og hafa hag hestsins ávallt að leiðarljósi.
FT hvetur félagsmenn sína og alla hestamenn til að fara varlega hvað þjálfun hrossa varðar og flýta sér hægt enda dæmi um hörmulegar afleiðingar ef of snemma er farið af stað. Samkvæmt siðareglum FEI, sem er alþjóðlegt stjórnvald hestaíþrótta og Landssamband hestamannafélaga er aðili að, skal velferð hestsins ætíð vera í fyrirrúmi. Í siðareglum FEI/LH segir m.a. að "á öllum stigum undirbúnings og þjálfunar keppnishrossa skal velferð hrossins hafa forgang fram yfir allt annað" og FEI geri þær kröfur að " allir þeir sem taka þátt í alþjóðlegum hestaíþróttum fari að siðareglum FEI og viðurkenni og virði öllum stundum að velferð hestsins skuli alltaf hafa forgang fram yfir keppnis-eða auglýsingakröfur." Um aðbúnað og þjálfun segir svo "Hesthús, fóðrun og þjálfun skulu uppfylla kröfur um góða meðferð hrossa og mega ekki stefna velferð þeirra í tvísýnu. Allt sem orsakað getur andlegar eða líkamlegar þjáningar, í keppni eða utan hennar verður ekki liðið" og "Hross skulu ekki vera þjálfuð á þann hátt að það stefni líkamlegri eða andlegri getu og/eða þroska í voða." Þessar reglur er rétt að hafa í huga í ljósi núverandi aðstæðna og muna alltaf að hafa hagsmuni hestsins í fyrsta sæti.
FT hefur miklar áhyggjur af afkomu tamningamanna um þessar mundir og hvetur fólk til að huga vel að hrossum svo lágmarka megi skaðann og hægt verði að vinna sig út úr þessum vanda sem fyrst.
Stjórn FT hvetur sína félagsmenn til að hafa samband og kynna sín sjónarmið þannig að stjórnina geti sem best beitt sér í þeirra þágu.
Einnig minnir Félag tamningamanna á reglur um smitvarnir, en þær má m.a. skoða á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is. Gríðarlega mikilvægt er að hestamenn sem ferðast á milli landa til vinnu eða samskipta við hross fylgi reglum um smitvarnir ítarlega. Ekki síður að hestamenn og ferðaþjónustuaðilar hér á landi fræði viðskiptavini sína um þessar reglur. Heilbrigði íslenska hrossastofnsins er í húfi.
Stjórn Félags tamningamanna.
26.05.2010 21:25
Kynbótasýning á Blönduósi 3. og 4. júní 2010
Að öllu óbreyttu er stefnt að því að halda kynbótasýningu á Blönduósi fimmtudaginn 3. júní og yfirlitssýningu að morgni föstudags 4. júní.
Tekið er á móti skráningum hjá Búnaðarsambandinu á Blönduósi á netfanginu rhs@bondi.is eða í síma 451-2602 / 895-4365.
Síðasti skráningardagur er mánudagur 31. maí.
Sýningargjald er 14.500 kr en 10.000 ef bara er annað hvort byggingadómur eða reiðdómur og þarf að greiðast samhliða skráningu inn á reikning 307-26-2650 á kt: 471101-2650 og senda kvittun á netfangið rhs@bondi.is með upplýsingum um fyrir hvaða hross er verið að greiða.
Munið að kynna ykkur reglur um einstaklingsmerkingar, járningar, blóðsýni, dna-sýni og spattmyndir.
Nánari upplýsingar um tímasetningar verða á heimasíðu Búnaðarsambandsins www.rhs.is
Búnaðarsamband Húnaþings og Stranda
26.05.2010 21:23
Opinn fundur á Norðurlandi um hestapestina
Næstkomandi Sunnudag (30. maí) munu hrossaræktarsamböndin á Norðurlandi standa fyrir opnum fundi á Hótel Varmahlíð vegna hinnar svokölluðu hestapestar. Tilgangur fundarins er að miðla upplýsingum til hrossaræktenda og tamningamanna vegna veikinnar og gefa mönnum færi á að skiptast á skoðunum um stöðu mála.
Gestir fundarins verða Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir á Keldum og Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur BÍ. Fundurinn hefst kl: 20:00.
Hrossaræktarsamband Skagfirðinga
Hrossaræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga
Hrossaræktarsamtök V-Húnavatnssýslu
Samtök hrossabænda í A-Húnavatnssýslu
26.05.2010 11:15
Hrossapestin, einu fréttirnar þessa dagana.
visir.is greinir frá því að hrossapestin sem geisað hefur hér á landi virðist ekki í rénun. Stór hrossabú eru víða óstarfhæf og þekkt að folöld hafi fæðst veik. Grunur leikur á að hross sem flutt var út til Þýskalands nýlega hafi smitað hross á búgarði þar. Þetta segir Björn Steinbjörnsson dýralæknir sem kortlagt hefur útbreiðslu pestarinnar.
"Mér er sagt að pestin breiðist hraðar út í Eyjafirði en áður og að nú sé mikið um nýsmit þar," segir Björn. "Skagafjörður er langt kominn, en þar hefur pestin staðið frá því í mars og dreifst um fjörðinn. Enn er mikið smit á búum á Vesturlandi og enn meira á Suðurlandi. Í síðarnefnda fjórðungnum eru heilu búin óstarfhæf og sér ekki enn fyrir endann á því."
Björn kveðst ekki geta fullyrt hvort pestin hafi náð hámarki.
"Við Susanne Braun dýralæknir eyddum allri hvítasunnuhelginni í að meðhöndla hross á þremur stórum ræktunarbúum. Þar eru flest hross sjúk, misjafnlega mikið að vísu, en það lítur ekki vel út með það að þau fari á landsmót. Þó að þessi hross yrðu reiðfær eftir tvær vikur þá er þjálfunartíminn skammur fram að landsmóti."
Björn segist alls ekki geta séð að hross sem veikst hafa hafi komið sér upp ónæmi fyrir veirunni.
"Ég hef séð þó nokkuð af hrossum sem eru að smitast í annað sinn. Þau hafa veikst og náð sér, en virðast svo hafa fengið nýsmit aftur. Ég þori ekki að fullyrða þetta en það er eins og þau hafi smitast aftur, áður en brúkun hófst eftir fyrri pestina."
Björn segir að Herpes 4-vírusinn hafi verið í íslenska hrossastofninum og talinn meinlaus. Til séu aðrir herpesvírusar sem geti smitað aftur og aftur. Full ástæða sé til að rannsaka hvort þeir hafi breytt sér og séu að framkalla þessa sýkingu. Björn segir frjósemi hjá stóðhestum í sumar áhyggjuefni. Fái þeir veikina og hita eyðileggist sæðið í eistunum á þeim. Hann varar einnig við útflutningi hrossa meðan ekki er vitað hvaða smitbera sé um að ræða.
"Meðgöngutími virðist vera tvær vikur, eða lengri, áður en einkenni koma í ljós. Hross er smitberi á þessum tíma. Ég þekki dæmi þess að hross sem kom frá Íslandi til Þýskalands virðist hafa smitað önnur hross á búgarðinum þar þannig að þau hross virðast hafa fengið sömu sjúkdómseinkenni og hrossapestin framkallar á Íslandi."
Björn og Susanne Braun vinna saman að rannsókn pestarinnar. Þau eru í sambandi við tvær rannsóknarstofur í Þýskalandi. Önnur er með efni til greiningar í leit að veirunni, en hin ráðleggur um meðferð.
21.05.2010 09:26
Hestamenn funda um pestina
Hagsmunahópar í hestamennsku ætla í dag að eiga fund með landbúnaðarráðherra og ráðuneytismönnum vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin, vegna kvefpestar og hita sem herjar á hross um allt land.
Um sex hundruð manns sóttu fund um álið í reiðhöllinni í Víðidal í gærkvöldi þar sem meðal annars kom fram að allt sýningarhald lægi niðri og viðskipti með hross sömu leiðis.
Þá lítur út fyrir að landsmóti hestamanna,sem átti að halda í Skagafirði í sumar, verði jafnvel frestað,hrossaræktendum og ferðaþjónustufyrirtækjum til mikils skaða.
12.05.2010 09:42
Leikjakvöld
Leikjakvöldið sem var fyrirhugað að hafa í kvöld, miðvikudagskvöldið 12. maí er frestað vegna hóstapestarinnar um óákveðinn tíma.
11.05.2010 16:05
Kiljan frá Steinnesi 8,96 f. hæfileika
Núna stendur yfir héraðssýning kynbótahrossa í Víðidal og í dag var Kiljan frá Steinnesi í dómi og hlaut hann í aðaleinkunn 8,71. Fyrir hæfileika, vígalega einkunn eða 8,96 og fyrir sköpulag 8,33. Þessi dómur gerir hann að 8. hæsta stóðhesti í heimi.
Sköpulag
|
Kostir
|
09.05.2010 22:12
Kynbótahross komin inn á LM
Unun frá Vatnshömrum og Jóhann Magnússon
Eftir fyrstu kynbótasýningar vorsins eru komin fjögur hross inn á Landsmót úr sýslunni eða í eigu Vestur-Húnvetninga. Tvær fjögurra vetra hryssur, ein fimm vetra og ein sex vetra. Hér má sjá myndir af þeim og þeirra einkunnir.
Sýn frá Grafarkoti, 4 vetra
M. Ásjóna frá Grafarkoti
F. Sólon frá Skáney'
Eigendur: Elvar Logi Friðriksson og Fanney Dögg Indriðadóttir
Sýn hlaut í aðaleinkunn 8,12. Fyrir sköpulag 8,11 og fyrir hæfileika 8,13.
Höfuð: 8,0 Háls/herðar/bógar: 8,5 Bak og lend: 8,0 Samræmi: 8,0 Fótagerð: 8,0 Réttleiki: 7,5 Hófar: 8,0 Prúðleiki: 8,5 |
Tölt: 8,0 Brokk: 8,0 Skeið: 8,0 Stökk: 8,0 Vilji og geðslag: 8,5 Fegurð í reið: 8,5 Fet: 7,5 Hægt tölt: 8,5 Hægt stökk: 7,5 |
Unun frá Vatnshömrum, 4 vetra
M. Iða frá Vatnshömrum
F. Aron frá Strandarhöfði
Eigandi: Jóhann Birgir Magnússon
Unun hlaut í aðaleinkunn 7,93. Fyrir sköpulag 8,09 og fyrir hæfileika 7,82
|
|
Birta frá Sauðadalsá, 5 vetra
M. Brá frá Sauðadalsá
F. Sædynur frá Múla
Eigendur: Elvar Logi Friðriksson, Fanney Dögg Indriðadóttir, Herdís Einarsdóttir og Indriði Karlsson
Birta hlaut í aðaleinkunn 8,16. Fyrir sköpulag 8,38 og fyrir hæfileika 8,00.
|
|
Brimkló frá Efri-Fitjum, 6 vetra
M: Ballerína frá Grafarkoti
F: Keilir frá Miðsitju
Eigendur: Gunnar Þorgeirsson og Gréta Karlsdóttir
Brimkló hlaut í aðaleinkunn 8,15. Fyrir sköpulag 8,07 og fyrir hæfileika 8,20
|
|
Brimkló frá Efri-Fitjum og Tryggvi Björnsson
Birta frá Sauðadalsá og Elvar Logi Friðriksson
06.05.2010 11:04
Stefnum ótrauð á Landsmót hestamanna
"Við munum halda okkar striki í undirbúningi Landsmóts og stefnum ótrauð á að það verði haldið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá dýralæknum er hrossapestin frekar í rénun og þeir vonast til að hún muni fjara út á næstu tveimur til þremur vikum, um leið og hlýnar meira," segir Haraldur Þórarinsson, formaður LH og stjórnarformaður Landsmóts ehf..
Verðum að gera tilslakanir
"Það er hins vegar skynsamlegt og nauðsynlegt að gera viðbragðsáætlun til að fara eftir ef mál fara á versta veg, sem aldrei er hægt að útiloka. Það er ljós að það þarf að gera ráðstafanir og tilslakanir varðandi úrtökur og kynbótasýningar. Eins og dæmið lítur út núna þá geta sennilega ekki öll hross mætt til úrtöku samkvæmt dagskrá.
Viðbragðsáætlun eftir helgi
Það er fundur hjá stjórn LH í dag þar sem farið verður yfir stöðuna og á morgun mun framkvæmdanefnd Landsmóts funda í Varmahlíð í Skagafirði. Eftir þessa fundi munum við væntanlega senda frá okkur fréttatilkynningu um hvaða stefna verður tekin og hvort gefin verður út sérstök viðbragðsáætlun. Það ætti að liggja fyrir um helgina eða strax eftir helgi. Aðalatriðið nú er að menn haldi ró sinni og séu bjartsýnir.
Áður staðið í sömu sporum
Við höfum áður staðið í svipuðum sporum. Hrossapestin 1998 var ennþá verri en sú sem nú er í gangi og þá tókst okkur að halda gott Landsmót í Eyjafirði. Við skulum stefna á að gera það líka núna þrátt fyrir smá mótbyr," segir Haraldur Þórarinsson.
www.vb.is
05.05.2010 16:04
Undirbúningur í fullum gangi - fylgst vel með líðan hrossa
Á morgun, fimmtudag, er fyrirhugaður stjórnarfundur hjá Landssambandi hestamannafélaga (LH) þar sem staðan verður rædd. Þá fundar framkvæmdanefnd og mótsstjórn Landsmóts á föstudag, ásamt dýralæknum, þar sem farið verður yfir alla þætti málsins sem snerta heilsufar hrossanna. Yfirlýsingar er að vænta eftir þann fund.
"Við reynum að taka á öllum aðstæðum og svara þeim spurningum sem þarf að svara. Við erum meðvituð um að væntanlegir keppendur hafa miklar áhyggjur af hestum sínum og úrtökunum sem framundan eru. Menn hafa verið að velta upp ýmsum möguleikum í því sambandi, til dæmis að hafa tvöfalda umferð í úrtökum eða fresta þeim, en engar ákvarðanir hafa hins vegar verið teknar enn og við bíðum eftir niðurstöðunni af fundinum í lok vikunnar. Þangað til höldum við okkar striki og vonum að með hlýnandi veðurfari fari hrossin okkar að ná fyrri styrk," segir Sigurður að lokum.
www.landsmot.is
- 1
- 2