Færslur: 2007 Nóvember

27.11.2007 09:25

JAKO

...er að senda íþróttagallana suður í dag. Voru ekki örugglega allir búnir að panta sem vilja galla?

Kolla s. 863-7786

06.11.2007 12:46

Starfsskýrsla Æskulýðsnefndar Þyts 2007

Vetrarstarfið hófst með þrettándagleði sem æskulýðsnefnd stóð fyrir. Farið var í skrúðgöngu um Hvammstanga og voru alskyns fígúrur á ferð, á hestum jafnt sem gangandi. Endað var á Höfðabakka og var boðið uppá vöfflur og kakó og veitt voru verðlaun fyrir bestu búningana.


Farið var í dósasöfnun um sveitina í febrúar. Og safnaðist vel. Einnig voru seld dagatöl sem hestamannafélagið gefur út.


Í apríl varð breyting á stjórn æskulýðsnefndar og því var lítið starf búið að vera fram að því.


Almennur fundur var haldinn 1.maí 2007. Kannaður var áhugi fyrir því að fara með atriði á Æskan og hesturinn á Sauðárkróki sem halda átti 17. maí. Reyndist áhugi vera mikill og ákveðið var að fara með 2 atriði. Eldri stelpurnar í hópnum sem voru 8 voru til í að fara með atriði sem þær sýndu á sýningu á Blönduósi fyrr um vorið. Hinn hópurinn saman stóð af 17 krökkum frá 6 ára uppí 17 ára.


Þar sem ekki mikill tími var til stefnu byrjuðu æfingar strax eftir fundinn. Æft var nánast á hverjum degi. Byrjað var á æfingum gangandi og svo þegar líða tók á voru hestarnir teknir inní. Gekk þetta allt saman vel þrátt fyrir kulda og rok, þar sem æfingar fóru fram utandyra. Foreldrar voru duglegir að fylgja börnum og aðstoða.


Mæður og ömmur voru fengnar í saumaskap þegar búið var að kaupa efni í búninga. Og tókst það með eindæmum vel.


Þá var komið að ferðinn sjálfri. Lagt var af stað seinnipart dags 16.maí og komið á Sauðárkrók um kl 18:00. Vorum búin að fá Tjarnarbæ, félagsheimili hestamanna á Sauðárkróki, á leigu og dótið var týnt inn þar sem við gistum þar. Hestum komið í hús. Æfingar voru um kvöldið, svolítil viðbrigði voru að koma í svona stóra höll þar sem æft hafði verið í litlu gerði allan tímann. En allt gekk svona ljómandi vel. Búið var að panta pizzur og þegar æfingar voru búnar var öllum komið í hús, borðaðar pizzur og svo fór fólk bara að týnast í háttinn þar sem mikil spenna var búin að vera fyrir því að fara í þessa ferð. Og allir orðnir frekar þreyttir.


Þá rann upp blíðskapar dagur. Aðstandendur barnanna voru duglega að koma með bakkelsi sem var lagt á hlaðborð og morgunverður snæddur í sameiningu. Farið var að undirbúa sýningarnar þrjár yfir daginn og mætti segja að allt hafi tekist eins og best væri kosið. Allt gekk glimrandi vel, samstaða mikil í hópnum, allir hjálpuðust að og engin óhöpp urðu. Allavega fór þreyttur hópur barna og aðstandenda heim um kvöldið þegar búið var að ganga frá öllu og koma hestum á kerru.


Ekki var hægt að stoppa í starfinu á þessum tímapunkti þar sem svona stór hópur barna var kominn af stað. Þannig að ákveðið var að halda reiðnámskeið í byrjun júní. Fengum Herdísi Einarsdóttir í Grafarkoti til að koma og kenna börnunum, einnig var hún fengin til að leiðbeina þeim börnum sem vildu fyrir gæðingamót félagsins. Alls mættu 30 börn á námskeiðin. Farið var í einn góðan reiðtúr með börnin eftir námskeiðið einn daginn. Gott veður var og fór stór hópur barna frá 6 ára til 15 ára. Síðasti dagur námskeiðisins var notaður til æfinga fyrir 17 júní hátíðina á Hvammstanga, þar sem börnin sem fóru á Sauðárkrók og þau sem bættust inní á námskeiðinu sýndu atriðið sitt. Og einnig var mikið um glens og grín þar sem farið var í leiki og borðaðar pulsur. Foreldrum var boðið með í fjörið. Og var þetta hin mesta skemmtun.


Á 17.júní sýndu svo krakkarnir atriðin sín og kom mikill fjöldi fólks að horfa á. Einnig tóku þau mörg þátt í Firmakeppni félagsins sem haldin var eftir atriðin.


Ekki var meira gert þetta sumarið þar sem allir fóru að gera eitthvað annað. En núna 2. nóvember næstkomandi verður haldin uppskeruhátíð barna og unglinga í félaginu og á einnig að ræða um áframhaldandi starf fyrir næsta vetur. Þannig að hægt sé að byrja strax á öllu fjörinu.


Æskulýðsnefnd Þyts

05.11.2007 10:27

Uppskeruhátíð Þyts

 Knapar ársins í 1.flokki, áhugamannafl og ungmennaflokki.

Uppskeruhátíðin var síðasta laugardagskvöld og var hún auðvitað mjög góð skemmtun, maturinn var fínn, skemmtiatriðin mjög skemmtileg að vanda og hljómsveitin Dalton spilaði svo fyrir dansi og ég efa að það hafi verið jafn fjörug og hávær hljómsveit á hestamannaárshátíð.
Veittar voru viðurkenningar fyrir knapa ársins í ungmennaflokki, áhugamannaflokki og 1. flokki. Í ungmennaflokki var knapi ársins Fanney Dögg Indriðadóttir, í áhugamannaflokki var knapi ársins Sigríður Lárusdóttir og í 1. flokki var það Svavar Örn Hreiðarsson.
Á árinu áttum við líka 4 íslandsmeistara, Fanney Dögg var íslandsmeistari í tölti ungmenna, Sonja Líndal var íslandsmeistari í fimi A2, Ísólfur Líndal var íslandsmeistari í fjórgangsgreinum í opnum flokki og Svavar Örn var íslandsmeistari í gæðingaskeiði í opnum flokki.
Komnar nokkrar myndir inn á myndasíðuna.

03.11.2007 15:53

Uppskeruhátíð Æskulýðsstarfsins

 Knapar ársins í barna- og unglingaflokki.

Rosalega gaman að sjá hvað það mættu margir á hátíðina í gær. Veittar voru viðurkenningar fyrir knapa ársins í barna- og unglingaflokki. Í barnaflokki var það Fríða Marý Halldórsdóttir sem stóð hæst á árinu og í unglingaflokki var það Jónína Lilja Pálmadóttir. Síðan voru veittar viðurkenningar fyrir þátttöku á námskeiðum ársins. Sparisjóður Húnaþings og Stranda styrkti félagið og gaf öllum krökkunum endurskinmerki til að setja á fæturna á hestunum svo allir sjáist nú í umferðinni.


Myndir má sjá
hér.

01.11.2007 21:53

Íþróttagallar frá JAKO og flíspeysur frá Líflandi

 Á morgun verð ég með íþróttagalla frá Jako til sýnis á uppskeruhátíð æskulýðsstarfsins og strax eftir hana upp á Sírópi eða frá ca. 19.00 - 20.30. Verðið á þeim er í stærðum 116 - 164 í kringum 7.000 (fer eftir því hvort við merkjum þá með nafni eða ekki), í stærðum S - 3XL og kvennastærðum 34 - 48 er verðið í kringum 8.500.

Einnig ætlum við að panta svartar mjög flottar flíspeysur frá Líflandi í kvenna- og karlasniði. Þær eru ekki komnar en koma í næstu viku. Verðið á þeim er 7.000 kr. Verð því með annan mátunartíma í næstu viku.

Svo við verðum ekkert smá flott í nýjum göllum og/eða peysum á komandi ári:-)

kv. Kolla

p.s. ef þið getið ekki hitt mig á morgun, endilega hafið samband í síma 863-7786 og við reynum að finna tíma til að hittast.
  • 1
Flettingar í dag: 448
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 1417634
Samtals gestir: 74847
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:21:02