Færslur: 2009 Desember

30.12.2009 23:55

Reiðhöllin

Frábær hópur er búinn að vera að vinna upp í höllinni alla dagana milli jóla og nýárs. En það er mikið eftir og þess vegna ætlum við að hafa RISA vinnudag upp í höll nk laugardag, 2. janúar frá kl. 10.00. Eins og staðan er núna verðum við að halda vel á spöðunum svo að höllin verði tilbúin fyrir fyrsta mót liðakeppninnar.

Ef þið sjáið ykkur fært að mæta eru næg verkefni. Upplýsingar hjá Tryggva í síma 660-5825.


Stjórn Hvammstangahallarinnar.


Dagatal Þyts er einnig komið í sölu, það kostar 1.700.- Hægt að nálgast það hjá Þórdísi s. 867-3346, Kollu s. 863-7786 eða Evu s. 868-2740. Einnig er það til sölu á Pósthúsinu.

29.12.2009 14:03

Viðtal við Magnús Elíasson á Stóru Ásgeirsá



Magnús Ásgeir Elíasson bóndi á Stóru-Ásgeirsá tók við alveg örugglega 2007 eða 2008 af Elíasi og Siggu, foreldrum sínum. Magnús keypti smá sauðfjárstofn úr Þingeyjarsýslunni á bæ sem heitir Bjarnastaðir af bændunum þar þeim Halldóri og Elínu. Sá stofn er hyrntur, þær eru vel stuttar og svona massaðar eins og ég, sagði Magnús stoltur. Ári seinna keypti hann sér svo kollóttar ær af ströndunum, af bæjunum Heiðdalsá (báðum), Smáhömrum og svo Geststöðum. Kollóttu ærnar eru bæði lengri, háfættari og svolítið krúttlegri að mati Magnúsar. Magnús er kominn með heimasíðu http://asgeirsa.123.is/ endilega kíkið á hana.


En hér kemur viðtalið sem ég tók við hann.

1. Hvað áttu mörg hross sjálfur?
Ja... ég á orðið nokkur hross samt engan fjölda en ég á 2 geldinga, 8 merar, 1 folald og svo 1 graðhest. Þá held ég að það sé upptalið.

2. Á húsi hjá þér í vetur verða þetta aðallega þín hross eða ertu að taka mikið í tamningu fyrir aðra?
Þetta verður svona blandað bæði fyrir aðra, fyrir sjálfan mig og svo föður minn.

3. Hvernig finnst þér að vera orðinn fjárbóndi líka?
Þessari spurningu er mjög svo létt að svara. Sauðfé er hobbý fyrir mig. Það allavegana svona fyllir út í daginn fyrir mann, svo er mjög gaman að bara horfa á sauðkindina sér svona til dægrastyttingar.

4. Áttu eitthvað u. Meyvant?
Já ég á eitt folald lítur vel út og er ég búinn að skýra það og nafnið er Hástígur. Bara svona til vonar og vara ef að hann verður háfættari en faðir sinn.

5. Ertu með aðstoðarfólk í tamningunum?
Ekki eins og er nema stundum kemur gamli maðurinn, þá náttúrulega nota ég hann eins og ég get. En maður veit aldrei hvað maður gerir á nýu ári.

6. Stefnir þú hátt í Húnvetnsku liðakeppninni í vetur? Ertu með einhverja efnilega kandídata?
No comment. Nei ég hef ekki hugmynd um það. Ég verð með og vonandi á mér eftir að ganga svona þokkalega, en ég er slakur á kantinum og þetta kemur bara allt í ljós. En svona... ég ætla að gera betur en í fyrra og það er ágætt markmið. En landslið Víðidals verður trúlega bara með hreinræktaða víðdælinga þetta árið :)

7. Undan hvaða stóðhestum eignast þú folöld næsta vor? Óm frá Kvistum.

8. Stefnir þú með eitthvað á LM?
Ja maður veit ekki það er eitthvað til sem hægt er að stefna með en annars kemur þetta bara í ljós.


9. Magnús nú ert þú stórbóndi, hvað finnst þér um íslenskan Landbúnað?
Íslenski landbúnaðurinn þarf að vera til staðar, og til dæmis með mig að ef ég hefði ekki svona gaman af þessu þá væri ég að að gera eitthvað annað.




Núna var Magnús farinn að geispa í símanum (ég komst nefnilega ekki í heimsókn, svo langt niður í Víðidal af Vatnsnesinu) og mér fannst eins og ég þyrfti að poppa viðtalið örlítið upp og spurði hann því eftirfarandi spurninga:


10. Ertu búinn að kaupa þér örmerkingarskanna?
Nei, enda á ég svo fá hross að ég hlýt að þekkja þau.

11. Lýstu draumastúlkunni? Ég bara veit ekki hvernig hún lítur út, en það væri góður kostur ef drauma daman væri geðgóð, léttlynd og með long legs ;)

12. Hver er að þínu mati kynþokkafyllsti bóndinn í Víðidal? Ef maður á að segja alveg satt og svona út frá hjartanu, þá er það tvímælalaust ég, og þó væri víða leitað í Húnaþingi vestra.

13. Hvernig fannst þér skemmtiatriðin á Uppskeruhátíð Þyts og Hrossaræktarsamtakanna?
Mér fannst þau bara mjög góð nema það var of lítið gert grín af mér.


14. Hvenær ætlar þú að gefa út plötu með frumsömdu efni?
Vonandi gerist það einhverntímann og planið er að það gerist áður en ég verð þrítugur... svo bíðiði spennt ...


15.
Að lokum Magnús, ef þið feðgar væruð staddir niður í Kaupfélagi á miðjum degi og þar væru Gulli á Söndum og Ari á Skarfhóli alls naktir með gula uppþvottahanska á hausnum í eltingaleik og við hvert klukk myndu þeir segja ,,klukk þú ert hann", hvor ykkar feðga yrði meira hissa?

Magnús hugsaði sig örlitla stund um en fór svo að hlæja og sagði... ætli pabbi yrði ekki meira hissa en ég myndi vilja fá að vera með J

 Hesthúsið á Stóru-Ásgeirsá

 

29.12.2009 08:40

Helga Margrét íþróttamaður ársins 2009

Val á íþróttamanni U.S.V.H 2009 fór fram í gærkvöldi.

Í þriðja sæti urðu jafnar með 14. stig þær Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fyrir körfubolta
og Helga Una Björnsdóttir fyrir hestaíþróttir.
Í öðru sæti með 29. stig varð Tryggvi Björnsson fyrir hestaíþróttir.
Og í fyrsta sæti með 72. stig varð svo Helga Margrét Þorsteinsdóttir fyrir frjálsar íþróttir.

Guðmundundur Haukur Sigurðsson formaður U.S.V.H afhenti sigurvegurum verðlaunabikar
og fór í stuttu máli yfir afrek hvers og eins á árinu. Helstu afrek okkar fólks má sjá hér
en helstu afrek Helgu Margrétar eru:

 Í byrjun júni varð Helga Norðurlandameistari í sjöþraut kvenna í flokki 18-19. ára á NM unglinga sem haldið var á Kópavogsvelli. Hún hlaut 5721 stig og bætti íslandsmet sitt um 197 stig. 
 Þann 24.júní, á alþjóðlegu fjölþrautarmóti í Tékklandi, náði Helga besta árangri ársins í sjöþraut 19. ára og yngri með alls 5878 stig. Hún er því efst á heimslistanum í þessum aldursflokki og aðeins 22. stigum frá lámarkinu fyrir HM fullorðinna.
 23-26. júlí keppti hún í sjöþraut á EM 19. ára og yngri í Novi Sad í Króatíu. Þar hafði hún forystu þegar hún meiddist í langstökkskeppninni og varð að hætta keppni þegar aðeins tvær greinar voru eftir.
 Helga Margrét er ein af 10 efstu sem tilnefndir eru til Íþróttamanns ársins í kjöri íþróttafréttamanna sem verður líst í upphafi næsta árs.


Tilnefnd voru til íþróttamanns USVH 2009:


Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fyrir körfubolta

Helga Margrét Þorsteinsdóttir fyrir frjálsar íþróttir

Helga Una Björnsdóttir fyrir hestaíþróttir

Ísólfur Líndal Þórisson fyrir hestaíþróttir

Ólafur Einar Skúlason fyrir frjálsar íþróttir

Tryggvi Björnsson fyrir hestaíþróttir


Innilega til hamingju með þetta kæru félagar og einnig þið hin flotta íþróttafólk emoticon

myndir frá valinu og Staðarskálamótinu eru á Hvammstangablogginu eða hér.

24.12.2009 12:52

GLEÐILEG JÓL



Stjórn Þyts óskar félagsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Við viljum þakka fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og erum við full tilhlökkunar að takast á við það næsta sem verður stórt í sögu félagsins.

22.12.2009 13:10

Reiðhöllin




Vinnan við stúkurnar gengur vonum framar. Reiðhallarnefnd þakkar félagsmönnum vel unnin störf. Sumir hljóta að vera búnir að flytja lögheimilið sitt í höllina, búnir að vera svo duglegir.
Stefnt er að því að reyna að safna góðum hóp til að vinna á mánudagskvöldið 28 des og ná þannig af sér jólasteikinni.


Vonandi sjáum við sem flesta


Stjórn Hvammstangahallarinnar

22.12.2009 11:58

Hvar er draumurinn?? Hann er hjá Draumaliðinu!

Nú höldum við áfram að kynna til leiks nýja leikmenn sem skrifað hafa undir samning við Draumaliðið. Slegist hefur verið um sæti í liðinu en enþá eru nokkur laus pláss.  Allir áhugasamir hafi samband við liðstjóra sem er í þessum töluðu að skrifa jólakort og horfir björtum augum til komandi tíðar.

Draumaliðið kynnir til leiks og bíður um leið velkomna til liðsins, þau....


 Björn Einarsson

 Birna Tryggvadóttir

 Agnar Þór Magnússon

 Kolbrún Grétarsdóttir

Þessi óvænti og skemmtilegi liðstyrkur okkar kemur vonandi til með að auka heldur á spennuna sem hefur myndast og glæða keppnina en meira lífi en síðasta ár.  Ljóst þykir að keppnin verður hörð og því um að gera að vera með allar klær úti.


Um leið vill liðstjóri óska öllum liðsmönnum sínum

sem og velunnurum liðsins gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. 

Með þökk fyrir síðasta ár og tilhlökkun til verkefna vetursins.

Hátíðarkveðja

Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir

16.12.2009 22:50

Áframhaldandi vinna

Frábært hvernig gengur með stúkurnar, þegar mest var voru amk 15 manns að störfum í einu. Við ætlum að taka lokatörnina núna fyrir jól og vinna annaðkvöld, föstudagskvöld og um helgina. Ef við erum áfram svona dugleg að mæta verður ótrúlega mikið búið á stuttum tíma. Myndir inn í myndaalbúminu.

Sjáumst sem flest næstu kvöld.



Stjórn Hvammstangahallarinnar

14.12.2009 20:34

Stúkan rýkur upp



Hér má sjá hluta af hópnum sem mætti upp í höll í dag að vinna. Frábært hvað margir sáu sér fært að mæta. Vinnukvöld aftur á morgun frá kl. 16.30 og svo áfram alla vikuna.

Myndir frá kvöldinu inn í myndalbúminu.

14.12.2009 18:42

Hrókeringarnar halda áfram...

Ég, Indriði Karlsson liðsstjóri 2Good, liðs 2, vaknaði upp frá dvala eftir fréttina um óvæntan liðsstyrks liðs 1. Núna þyrfti ég að gera eitthvað til að styrkja hið fámenna en góða lið mitt. Ég áttaði mig svo á því hvað gera skyldi þegar ég keyrði niður afleggjarann að ættaróðalinu mínu Kollsá sl helgi og beint á móti mér hinum megin við fjörðinn blasti það við,  BESSASTAÐIR. Ég hringdi í Jóa sem var ekki lengi að samþykkja öll rök mín um að koma til liðs við mæ tím (my team fyrir lengra komna í enskunni). Jóhann B Magnússon og fjölskylda eru gengin til liðs við lið 2. Bessastaðafjölskyldan mun styrkja það sem upp á vantaði í liðið og mun Jói að eigin sögn mæta enn sterkari í SMALANN en í fyrra.

Nóg af yfirlýsingum í bili


Indriði Karlsson
Liðsstjóri 1 í liði 2

14.12.2009 08:57

Vinna upp í reiðhöll


Núna er allt að gerast í höllinni, nokkrir duglegir aðilar eru búnir að vera alla helgina að setja upp undirstöðurnar fyrir stúkuna.
Í dag, mánudaginn 14 desember frá kl. 16.00 er svo vinnukvöld. Endilega mætum sem flest og drífum þetta upp.
Nánari upplýsingar veitir Tryggvi í síma 660-5825

Stjórn Hvammstangahallarinnar

11.12.2009 23:39

Óvæntur liðstyrkur í lið 1

Senn líður að liðakeppnin hefjist og stemmingin að magnast í kringum það og mikið rætt á kaffistofum þessa dagana.  Við í liði Hvammstanga, Miðfjarðar og Hrútafjarðar riðum ekki feitum hesti frá þessari keppni í fyrra og höfum því ákveðið að styrkja lið okkar til muna og beita sömu skítabrögðum og Víðidalsliðið gerði í fyrra.  Ég byrjaði á því að hafa samband við frænda minn Tryggva Björnsson.  Ákvað hann á einu augabragði að þiggja boð mitt um að ganga til liðs við okkur, enda tenging hans við þetta lið mun meiri en Víðidalsliðið, amma hans býr á Hvammstanga (svo augljóst). Nú eftir veru Tryggva í þessu liði Víðdælinga býr hann yfir þekkingu að smala í lið sem við kunnum ekki, treystum við á að Tryggvi geti kennt okkur klækina sem Logi beytti í vetur til að ná í mannskap og vinna þessa keppni. Við ætlum okkur að styrkja lið okkar en frekar á næstu dögum en fréttir af því koma síðar. Við höfum bara eitt markmið í ár það er að vinna þessa keppni.

Virðingarfyllst

Guðrún Ósk, liðstjóri liðs 1


11.12.2009 12:23

Frá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands

 Á dagskrá okkar er komið járninganámskeið, í samvinnu við Hestamannafélagið Þyt, dagsett 9.-10. janúar 2010.
Búið er að opna fyrir skráningar - takið eftir að hámarksfjöldi er 10!
 
Járningar og hófhirðing
Námskeiðið er einkum ætlað bændum, hrossaræktendum og áhugamönnum.
Fjallað verður um undirstöðuatriði við hófhirðingu og járningu hesta. Kennd verður hófhirðing, tálgun og járningar. Rætt verður um áhrif járningar á hreyfigetu hestsins og fjallað um gerð hófsins og hlutverk. Námskeiðið er að mestu verkleg kennsla og koma þátttakendur því með eigin járningaáhöld. Einnig er boðið upp á að þátttakendur komu með eigin hesta. Hámarksfjöldi þátttakenda 10.
 
Kennsla: Sigurður Oddur Ragnarsson járningameistari og bóndi.
v      Tími: Lau. 9. jan.  kl 10:00-18:00 og sun. 10. jan. kl. 9:00-16:00  (19,5 kennslustundir) í Sveitasetrinu Gauksmýri.
Verð: 22.900
Skráning: endurmenntun@lbhi.is eða í síma 433 5000
Staðfestingargjald: Staðfesta þarf skráningu með því að millifæra 5200 kr (óafturkræft) á reikninginn 0354-26-4237, kt. 411204-3590. Sendið kvittun með skýringu á endurmenntun@lbhi.is
 
Minnum á Starfsmenntasjóð bænda (www.bondi.is)

04.12.2009 14:13

Járninganámskeið

Fyrirhugað er að halda járninganámskeið 9. og 10. janúar á Gauksmýri. Kennari er Sigurður Oddur Ragnarsson.

Nánari upplýsingar veitir Ingvar í síma 848-0003

Athugið takmarkaður fjöldi kemst að.

03.12.2009 14:40

Hýruspor

Hýruspor, samtök um hestatengda þjónustu á Norðurlandi vestra, sem stofnuð voru í janúar sl. hafa nú opnað heimasíðu www.icehorse.is. Þar er m.a. að finna flokka yfir þá þjónustu sem meðlimirnir Hýruspors bjóða upp á. Hýruspor eru samtök sem ætla sér stóra hluti í framtíðinni til að efla hestatengda þjónustu á Norðurlandi vestra með samtakamætti sínum.

Jón Þór Bjarnason á Sauðárkróki hefur starfað fyrir samtökin og er heimasíðan m.a. afrakstur þeirrar vinnu. Þá hafa samtökin ráðið Halldór Þorvaldsson til að vinna að markaðstarfi o.fl.


Stjórn Hýruspors skipa: Páll Dagbjartsson Varmahlíð formaður, Jón Gíslason Hofi gjaldkeri, Jóhann Albertsson Gauksmýri ritari og meðstjórnendur eru Hjörtur Karl Einarsson Blönduósi og Arna Björk Bjarnadóttir Ásgeirsbrekku.

02.12.2009 12:09

Almennur félagsfundur

Almennur félagsfundur verður haldinn næstkomandi miðvikudag 9. desember kl. 20.30 upp í félagshúsi Þyts.

Á dagskrá verður:

Húnvetnska liðakeppnin
Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna.
Afmælishátíð Þyts og opnunarsýning reiðhallarinnar
Stúkurnar í reiðhöllinni


Stjórn Þyts

  • 1
Flettingar í dag: 448
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 107
Samtals flettingar: 1417634
Samtals gestir: 74847
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:21:02