Færslur: 2012 Janúar
05.01.2012 20:28
ÞRETTÁNDAGLEÐI ÞYTS OG GRUNNSKÓLA HÚNAÞINGS VESTRA 2012
Farið verður frá Grunnskólanum á Hvammstanga kl:16:30.
Álfakóngur, álfadrottning, hirðmeyjar ásamt Grýlu, Leppalúða og jólasveinum leiða gönguna frá Grunnskólanum, farið verður hjá sjúkrahúsinu,Nestúni og að reiðhöllinni Þytsheimum.
Í Þytsheimum munu jólasveinar,Grýla og Leppalúði syngja og tralla með okkur og börnunum boðið á hestbak. Einnig verður boðið upp á söng frá kór Grunnskólans ásamt fleirum og mun Pálína sjá um undirspil.
Boðið verður upp á kaffi, kakó og meðlæti.
Ágætu íbúar. Vinsamlegast ekki skjóta upp flugeldum á meðan á gleðinni stendur þar sem hross geta auðveldlega fælst og valdið slysum
Vonumst til að sjá sem flesta og eigum góða stund saman.
Kveðja
Æskulýðsnefnd Þyts og Grunnskóli Húnaþings vestra.
04.01.2012 20:46
Hvað er að frétta Magnús?
Ári frá Melaleiti 4 vetra hestur.
Það er alltaf gaman að fá fréttir og spjalla við Magnús á Stóru-Ásgeirsá. Það er nóg að gera hjá bóndanum, hann er með um 300 skjátur og núna er hann inni með 15 frumtamningarhross. Maggi segir að það sé alltaf gaman að frumtemja og finnst honum þetta spennandi og skemmtilegur tími þó það geti verið kalt og norðanáttin sé í mjög góðum fíling, en þá segir Maggi ráðið við því að skella sér í þjóðbúning okkar Íslendinga sem eru jú gömlu góðu síðbrækurnar.
Hópurinn sem er inni núna lítur nokkuð vel út, þessi hross sem eru í frumtamningu eru undan Geisla f. Sælukoti, Hávarði f. Seljabrekku, Þeyr f. Holdsmúla, Huginn f. Haga, Seið f. Flugumýri, Daða f. Stóru-Ásgeirsá, Tývari f. Kjartansstöðum, Ágústínusi f.Melaleiti og Þengli f. Kjarri. Magnúsi finnst þetta allt nokkuð efnileg tryppi og ekkert svona eitt sem er hægt að taka frá og tala um að sé efnilegast, þau líta bara öll ágætlega vel út þangað til annað kemur í ljós.
En Magnús er ekki bara með frumtamingartryppi inni heldur er hann aðeins byrjaður að koma hrossunum sem eru kominn lengra í form, sem má kalla keppnishross eða sem er stemmt með á kynbótabrautina, elsta hrossið sem er inni hjá Magnúsi núna er sjö vetra þannig að hann er ekki með neitt gamalreynda hesta inni en spennandi og bara skemmtilegt verkefni framundan segir Magnús um stóðið sem er inni. En Magnús er ekki einn að temja, í vetur verða hann og Rannveig tvö að temja Stóru-Ásgeirsá, svo verða krakkarnir Arnar og Erla Rán að hjálpa til líka.
03.01.2012 23:01
Reiðnámskeið
Fyrirhugað er að halda reiðnámskeið fyrir hinn almenna reiðmann dagana 14. og 15. janúar 2012 í Þytsheimum. Farið verður yfir grunnatriði í sambandi við þjálfun reiðhestsins, ábendingar og ásetu knapa.
Hugsunin er að hafa regluleg námskeið í vetur þar sem nemendur fá góðar þjálfunarhugmyndir og geta bætt færni sína sem knapar.
Mæta skal með taminn hest. Námskeiðið hefst kl. 10 laugardaginn 14. janúar á bóklegum tíma í félagshúsi Þyts. Nánari tímasetningar ráðast af skráningu.
Kennari er Fanney Dögg Indriðadóttir. Verð: 10.000 kr.
Skráning á thytur@hotmail.com í síðasta lagi miðvikudaginn 11.janúar.
02.01.2012 11:56
Reiðnámskeið fyrir börn og unglinga
Knapamerkjanámskeiðin hjá krökkunum halda áfram núna eftir áramótin. Bóklega prófið er búið og komu þau öll mjög vel út úr því.
Verkleg kennsla í Knapamerki 2 verður á mánudögum kl. 15:30. Stendur frá 9. janúar til 16. apríl. Próf 20. apríl.
Verkleg kennsla í Knapamerki 1 verður á mánudögum og þriðjudögum tveir hópar. Annar hópurinn er á mánudögum kl. 14:30 og hinn á þriðjudögum kl. 15:30. Fanney raðar í hópana. Byrjar 17. jan. og búið 17. apríl. Próf 20. apríl.
Svo halda hestafimleikarnir líka áfram núna eftir áramótin. Þeir verða í reiðhöllinni á fimmtudögum, byrja 12. janúar. Irena og Katrin auglýsa það betur.
Sjáumst svo hress og kát á þrettándanum.
Æskulýðsnefnd Þyts
- 1
- 2